Er barátta landsbyggðarinnar vonlaus?

Í byggðaáætlun eru mest notuðu frasarnir "leitast skal við" og "stefnt skal að". Staðreyndin er sú að stjórnmálamenn hafa gefist upp og þeir hafa það eina markmið að friðþægja almenning á landsbyggðinni. Þeir vona að almenningur sé það dofinn eftir málskrúðið að hann sætti sig við ástandið og kjósi fulltrúa stjórnmálaflokkanna aftur í næstu kosningum.

Vandamálið er að stjórnmálamennirnir eru sjálfir farnir að trúa því að það séu engar lausnir á vanda landsbyggðarinnar. Uppgjöf er orðið sem lýsir best hugmyndafræði íslenskra stjórnmálaflokka hvað varðar málefni landsbyggðarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé vonlaust að tryggja til lengri tíma að öll byggðalög geti vaxið og dafnað. Þess vegna hef ég verið hrifinn af þeirri hugmynd að ákveðin byggðalög séu efld þannig að þau geti verið raunhæfur valkostur fyrir ungt fólk til þess að velja sér búsetu á. Í þessu sambandi hefur oft verið talað um að Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði og það ef byggð á þessum stöðum er öflug að þá muni það einnig geta styrkt staði sem eru í næsta nágrenni.

Nú er svo komið að meira að segja þessir staðir sem ég nefni eru í vörn. Á síðasta ári fjölgaði Akureyringum um hálft prósent en reynslan í lýðfræðum segir okkur að það dugar ekki til lengri tíma því að þetta lítill vöxtur þýðir að íbúarnir eru að eldast og það þýðir á endanum að þeim fækkar.

Ég hef lengi talað fyrir því að það sé í raun bara tvennt sem hægt er að gera til þess að tryggja framtíð byggðar á landsbyggðinni. Annars vegar er hægt að fara út í róttækar breytingar eða gefast upp. Núverandi smáskammtalækningar sem allir íslenskir stjórnmálaflokkar bjóða upp á í sinni kosningabaráttu fyrir komandi kosningar flokkast að mínu máti undir seinni kostinn.

En hvað á ég við með róttækar breytingar? Það þarf að gera breytingar sem hafa áhrif á grundvallar efnahagslegar forsendur á landsbyggðinni. Það þarf að gera breytingar á sköttum, peningastefnu, tollum, menntun og samgöngum sem henta aðstæðum á landsbyggðinni.

Nú vil ég ekki að fólk haldi að ég vilji að ríkissjóður sé opnaður og milljörðum dælt úr kassanum út á land þvert á móti þá vil ég gjarnan að hið opinbera dragi úr sýnum útgjöldum almennt enda er talið að Eyjafjarðarsvæðið eitt greiði a.m.k. 8 miljarða á ári í skatta sem ekki skila sér til baka í formi opinberrar þjónustu. Ég vil að reglum og lögum sé breytt þannig að landsbyggðin eigi sanngjarna möguleika á að fá að þróast.

Það ber að hafa í huga að nánast allar aðgerðir sem stjórnvöld fara út í hafa mismunandi áhrif á íbúa landsins eftir því hvar þér búa. Til að taka dæmi þá er það markmiðið nú að fella niður skatta söluhagnaði sem er að mínu mati góð hugmynd en við verðum að horfast í augu við það að þetta er aðgerð sem er gerð fyrst og fremst fyrir ákveðna atvinnugrein sem er fyrst og fremst staðsett á
ákveðnu landsvæði þ.e. þetta er sértæk byggðaaðgerð sem gagnast fyrst og fremst
Reykjavíkursvæðinu en ekki landsbyggðinni.

Breytingar á reglum um virðisaukaskatt sem auðveldar opinberum fyrirtækjum að úthýsa þjónustu til einkafyrirtækja er aðgerð sem mundi aftur á móti gefa landsbyggðinni hlutfallslega meiri ávinningi en höfuðborgarsvæðinu.

Flestar aðgerðir sem stjórnvöld taka til eru í reynd sértækar byggðaaðgerðir. Sundabraut er sértæk byggðaaðgerð, hátæknisjúkrahús í Vatnsmýrinni er sértæk byggðaaðgerð svo eitthvað sé nefnt. Þegar stjórnmálamenn töluðu um að tími sértækra byggðaaðgerða væri liðinn var þá eingöngu verið að tala að sértækar aðgerðir sem eru landsbyggðinni til hagsbóta? Svo er minnsta kosti að skilja ef taka á mark á gerðum stjórnmálamanna.

Góðu fréttirnar eru að landsbyggðarvandinn er hægt og rólega að leysast af sjálfu sér því að á eftir 50 ár verður hér ekkert nema sumarhúsabyggð.

Gísli Aðalsteinsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég get tekið undir margt af þessu Gísli en finnst þú þó full svartsýnn.  Held reyndar að þú sért kominn með öll einkenni sjúkdóms sem ég kalla landsbyggðarþunglyndi.  Ég hef sjáfur verið með snert af þessum sjúkdómi en er kominn yfir það versta held ég.  Landsbyggðarþunglyndi lýsir sér í því að smá saman finnur maður til magnleysis gagnvart stjórnvöldum og samfélaginu í heild.  það er sama hvað maður gerir og hversu mikið maður styður aðra í góðum verkum, manni finnst einfaldlega ekkert gerast.  Maður upplifir sig sem hrópandi í eyðimörk.  síðan sér maður einhvern annan gera það sama á suðvesturhorninu og eins og fingrum sé smellt fara hjólin þar að snúast um leið.  Það versta er líklega þegar maður upplifir stjórnmálamenn svæðisins orðna samdauna þessu.  Þeir eru oft á tíðum ekki með neinar hugmyndir, eru kraftlausir og eyða tíma sínum mest í innihaldslaust karp og slagorðagjálfur.  Þegar ég heyrði bæjarfulltrúa tvo á Akureyri stíga upp í ræðustól og karpa af fullri alvöru um hvort betra væri að lík manna lægju í mold sunnan eða norðan Glerár var mér öllum lokið.  Fékk í framhaldinu alvarlegt kast af landsbyggðarþunglyndi.  Fékk þó þokkalegan bata á nokkrum dögum og þurfti ekki að fara á lyf.

Staðreyndin er að ýmislegt jákvætt er í gangi í Eyjafirði þessi misseri þó manni finnist seint ganga.  við megum ekki missa móðinn og verða þunglyndinu og minnimáttarkenndinni að bráð.  Fyrst þurfum við að líta í egin barm því margt af vandamálum okkar getum við sjálf leyst.  Í öðru lagi þurfum við að hafa þann kjark og sjálftraust að láta í okkur heyra og ekki bugast þó við fáum eyðimerkurtilfinninguna.  Dropinn holar steininn.

Jón Þorvaldur (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband