Færsluflokkur: Dægurmál

Páskar á Akureyri

Við Akureyringar erum ánægðir með páskaævintýrið, hingað kom fjöldi gesta til að njóta þess besta sem bærinn hefur upp á að bjóða. Margir koma til að heilsa upp á ættingja og vini en njóta í senn útiveru í Hlíðarfjalli, synda, fara í leikhús, á listsýningar eða tónleika. Hér er allt til alls, góð aðstaða á flestum sviðum, hótel, gistiheimili, frábærir veitingastaðir og góðir skemmtistaðir auk hverskonar verslunarstarfsemi.

Akureyri hefur sterkan prófíl og er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Talið er að rúmlega 200.000 ferðamenn sæki bæinn heim á hverju ári. Auglýsingaherferð bæjaryfirvalda með slagorðinu „Akureyri, öll lífsins gæði“ heppnaðist vel og náði eyrum landsmanna. Ráðamenn, bæjarfulltrúar og embættismenn, hafa unnið þarft verk, sett sér markmið og unnið að framgangi margra góðra mála sem við nú njótum ávaxtanna af.

Lykillinn að velgengninni er þó ávallt frumkvæði fólksins sem með hugkvæmni sinni og sérþekkingu setur sér háleit markmið og kemur hlutunum í framkvæmd. Það voru útivistar- og íþróttamenn sem unnu mikilvægt frumkvöðlastarf þegar þeir með vinnu sinni lögðu grunn að skíðamiðstöð í Hlíðarfjalli, komu sundlaug fyrir upp af Grófargili og íþróttaáhugamenn sem stofnuðu íþróttafélögin KA og Þór. Það var fyrir forgöngu kvenna sem Lystigarðinum var komið á fót og Listagilið hefði ekki orðið að veruleika nema vegna baráttu listamanna sem trúðu á málstaðinn og létu ekki deigan síga. Verkefnið Akureyri í öndvegi er nýlegt dæmi um það hvernig hugkvæmni og eindrægni hugsjónarmanna getur leist úr læðingi kraft heils samfélags og sameinað ólíka hagsmunaaðila til að stefna að settu marki.

Ef farið verður eftir niðurstöðu hugmyndasamkeppninnar sem Akureyri í öndvegi stóð fyrir mun ásýnd miðbæjarins gjörbreytast og aðstaða fyrir ferðamenn batna til muna. Þar mun verða sólríkara og betra skjól fyrir norðanáttinni sem mun auðga mannlífið í bænum og styðja við þá starfsemi sem fyrir hendi er í nágrenninu. Auðvitað verðum við að kunna fótum okkar forráð og það er ekki sama hvernig við stöndum að uppbyggingu miðbæjarins.

Aftur að listviðburðum á páskum. Ég get ekki látið hjá líða að geta stórkostlegra tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Glerárkirkju á skírdag. Hljómsveitin flutti verk eftir Ludvig van Beethoven og Max Bruch undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Tónleikarnir hófust með því að hljómsveitin spilaði „Coriolan” forleik eftir Beethoven og síðan konsert í g-moll fyrir fiðlu og hljómsveit. Ari Þór Vilhjálmsson lék einleik á fiðlu stóð sig frábærlega. Eftir hlé var komið að flutningi á einu þekktasta tónverki sögunnar nefnilega Örlagasinfóníunni, sem hljómsveitin spilaði af miklum krafti og hreif tónleikagesti með sér. Eftirminnilegir tónleikar en ég hlakka mikið til að hlusta á Sinfóníuhljómsveit Norðurlands leika í Hofinu, menningarhúsinu okkar þegar það verður tilbúið.

Það var fjölbreytt tilboð á afþreyingu og list á Akureyri páskadagana, góðar leiksýningar, tónleikar og myndlistarsýningar. Það vekur þó sérstaka athygli hve margar myndlistarsýningum hafa verið opnaðar á síðustu misserum. Það er mikil gróska í myndlist á Akureyri og víða metnaður til að láta gott af sér leiða í þeim efnum. Starfræksla JV gallery hefur verið til fyrirmyndar og margar athyglisverðar sýningar hafa ratað í BOXið og Populus Tremula sem er neðanjarðargalleríið á svæðinu. Gallerý + og DaLí gallerí í Brekkugötunni láta ekki sitt eftir liggja.

Á Kaffi Karólínu hefur myndlistin lengi átt skjól og nú er svo komið að vertinn hefur ákveðið að opna kaffihúsið framvegis kl. 10 á morgnana virka daga. Mikil bót af því fyrir viðskiptavini.

Helgi Vilberg

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband