21.1.2007 | 23:17
Hvalveiðar
Ég held að það sé hvorugt.
Ég tel að það sé sjálfsagt að nýta auðlindir hafsins ef það er gert á skynsamlegan hátt. Það er að segja, ef það er gert á sjáfbæran hátt. Þá finnst mér ekki skipta meginmáli hvort auðlindin er þorskur, hvalur eða rækja. Mér finnst því allt í lagi að leyfa veiðar á nokkrum hvölum úr stofnum sem ekki eru í nokkurri hættu.
Það flækir þó málin að hvalurinn er ekki einungis auðlind til að éta heldur líka til að horfa á. Það er stutt síðan hvalurinn varð þess konar auðlind. Það er því mikilvægt að hvalveiðar séu stundaðar þannig að þær skaði hagsmuni hvalaskoðunarfyrirtækja sem minnst. Við, íbúar á Eyþingssvæðinu, höfum miklu meiri hagsmuni í hvalaskoðun en í hvalveiðum. Við ættum því öll að vera á móti hvalveiðum ef naktir hagsmunir réðu skoðun okkar.
Það er þó ekki sjáfgefið að leyfi til hvalveiða þýði jafnframt að veiðar fari fram. Ef enginn áhugi er á hvalaafurðum er enginn grundvöllur fyrir því að stunda þessar veiðar. Varla fer nokkur maður að veiða hval einungis til þess að tapa peningum, eða hvað? Getur verið að einhverjir séu búnir að æsa sjálfan sig svo upp í hvalveiðiumræðunni að þeir fari að veiða hval þó þeir þurfi að borga með sjálfum sér við veiðarnar? Við skulum vona ekki.
Ég held að hvalveiðar skipti okkur engu máli efnahagslega. Þó hvalur éti úr lífríkinu eru hverfandi líkur á því að veiðar á 39 dýrum breyti nokkru um stærð fiskistofnastofna. Ef rökin fyrir hvalveiðum eru þau að hvalurinn éti svo mikið af fiski hljóta veiðarnar að hafa þann tilgang að minnka hvalastofna verulega. Í málflutningi okkar gagnvart öðrum þjóðum leggjum við hins vegar áherslu á að veiðar okkar hafi ekki áhrif á hvalastofna. Þarna er þversögn.
Ég er hinsvegar á því að láta markaðinn leysa þetta mál. Það á að selja hvalveiðikvótann ár hvert. Þ.e. sá sem býður hæst fær að veiða dýrin eða ákveða að þau verði ekki veidd. Hvalaskoðunarfyrirtæki gætu því keypt hvalveiðikvótann ef þau byðu betur en hvalveiðifyrirtæki til þess eins að koma í veg fyrir að veiðar færu fram. Sjávarútvegsráðherra Breta getur þá sjálfur keypt hvalveiðikvótann ef honum líður svona skelfilega yfir því að 39 hvalir séu drepnir, sitjandi í ríkisstjórn sem ber að hluta ábyrgð á því að tugir eða hundruðir þúsunda saklausra manna liggja í valnum í Írak og pyntingar og dráp eru þar stunduð í margfalt meira mæli en þegar landið var undir stjórn eins versta harðstjóra jarðarinnar. En það er annað mál.
Með veiðileyfagjaldi sem réðist á markaði ættu ríkustu hagsmunirnir að verða ofaná. Við Íslendingar ættum ekki að vera viðkvæmir fyrir þessari aðferð, þetta er nákvæmlega það sem við höfum gert varðandi veiði á laxi í sjó. Við höfum keypt kvóta til þess eins að koma í veg fyrir veiðar á laxi.
Jón Þorvaldur Heiðarsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.