Umhugsunarverð niðurstaða

Þá liggja fyrir úrslit í prófkjöri Samfylkingarinnar í kjördæminu okkar hér á Norður- og Austurlandi. Ekki verður sagt að stuðningsfólk þess góða flokks hafi mikinn áhuga á að bæta hlut Akureyringa á Alþingi. Niðurstaðan var sú að hafa ekki fulltrúa frá langstærsta hluta kjördæmisins í öruggu sæti enda þótt þaðan væri boðið upp á tvo ágæta, þau Láru Stefánsdóttur og Benedik Sigurðarson.
Umhugsunarverð niðurstaða

Þau hafa bæði sýnt og sannað að hafa mikinn metnað fyrir uppbyggingu atvinnu-, mennta- og menningarlífs á Akureyri og hvergi hlíft sér. Ekki er nokkur vafi á að þau hefðu orðið góðir fulltrúar Akureyringa á þingi en voru vegin og fundin léttvæg í eigin flokki og aðrir, sem ekki hafa sýnt málefnum Akureyrar sérstakan áhuga, kosnir með miklum glans.

Í þessu sambandi vekur athygli að forysta Samfylkingarinnar á Akureyri fylkti sér um þann sem einna helst þurfti að etja kappi við til að tryggja Akureyringi öruggt sæti. Þar með var lagður grunnurinn að því að akureyskt framboð biði lægri hlut og náði ekki viðunandi árangri. Þetta er kannski dæmigert fyrir okkur Akureyringa - að sýna ekki þá ákveðni og þá festu sem fylgir því að koma okkar fólki á framfæri og til áhrifa. Einlægt verið að viðra sig upp við þá sem sannarlega hafa ekkert til þess unnið.

En þetta var nú bara fyrsta lota því nú bíðum við eftir hinum flokkunum í Norður- og Austurlandskjördæmi. Vonandi tryggja þeir allir Akureyringum örugg sæti og þar með akureysk áhrif á hinu virðulega Alþingi. Ekki veitir af.

 Ragnar Sverrisson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband