21.1.2007 | 23:22
Áskorun til skólanefndar Akureyrarbæjar
Nú eru að verða þær breytingar á grunnskólalögum að valdið til þess að heimila rekstur á grunnskóla verður ekki lengur í höndum menntamálaráðherra heldur sveitarstjórna. Þetta er mikið framfaraskref. Ég vil skora á skólanefnd Akureyrarbæjar að vera í farabroddi íslenskra sveitarfélaga í að nýta sér þá möguleika sem samkeppni getur gefið okkur í rekstri grunnskóla.
Til þess að nýta þessa möguleika til fulls tel ég að eftirfarandi þyrfti að gera:
Það þyrfti að setja almennar reglur sem rekstraraðilar þyrftu að uppfylla til þess að geta fengið leyfi til að starfrækja grunnskóla á Akureyri. Allir rekstraraðilar þyrftu að uppfylla sömu skilyrði hvort heldur sem þeir eru sveitarfélag eða eru sjálfstæðir. Þetta mundi þýða að þeir sem vildu reka skóla þyrftu ekki að treysta á velvilja vina sinna í pólitíkinni heldur gætu gengið að því vísu í hvaða rekstrarumhveri þeir myndu starfa ef þeir ákveddu að fara út í þennan rekstur.
Það þyrfti að setja það sem skilyrði að til þess að fá að reka grunnskóla á Akureyri mætti ekki innheimta skólagjöld.
Allir grunnskólar yrðu fjármagnaðir með sama hætti hvert sem rekstrarform þeirra yrði. Fjármagn til skóla fylgdi nemendunum.
Árlega yrði ákveðið hvaða upphæð ætti að fara til rekstur grunnskóla í sveitarfélaginu og fjármagn úr þeim sjóði yrði útdeild samkvæmt reiknireglu sem byggi á þörfum nemanda. T.a.m þyrfti reiknireglan að taka tillit til efnahagslegrar og félagslegrar stöðu foreldra barna.
Hlutverk skólaskrifstofu þyrfti að verða það að fylgjast með að kröfum sem sveitarfélagið gerir til grunnskóla sé fullnægt og að meta gæði grunnskólanna og miðla þeim upplýsingum til foreldra þannig að foreldrar gætu m.a. út frá þeim upplýsingum tekið afstöðu um í hvaða skóla þeir vildu að börn sín færu.
Aðgerðir sem þessar myndu tryggja okkur ávinninginn sem samkeppni getur gefið okkur í rekstri grunnskóla án þess að börnum yrði mismunað eftir efnahag og menntun foreldra. Það er orðið löngu tímabært fyrir stjórnmálamenn að kasta frá sér gömlum fordómum sem þeir hafa um samkeppni milli grunnskóla. Samkeppni virkar ekki síður í þessari atvinnugrein en öðrum. Það að ríkiseinokun eða öllu heldur einokun sveitarfélaga í þessari atvinnugrein virki betur er einfaldlega rangt.
Gísli Aðalsteinsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.