21.1.2007 | 23:34
Herra Kolbert gæti verið vinur þinn.
Í síðustu viku fór ég á hressandi sýningu hjá Leikfélagi Akureyrar; Herra Kolbert. Á stundum emjaði ég af hlátri og á öðrum stundum hríslaðist um mig hrollur. Leikararnir stóðu sig mjög vel og sýning er hin áhugaverðasta ekki síst í ljósi þeirrar sterku skýrskotunnar sem hún hefur til hins vestræna samtíma. Sýningin minnir á að ekki er úr vegi að fólk velti fyrir sér hvert við viljum stefna með þjóðfélag eins og Ísland. Samfélag 300.000 manna og kvenna á norðurhjara veraldar getur einmitt nú snúið af leið þeirrar miklu firringar sem verið er að lýsa í verkinu um Herra Kolbert. En Herra Kolbert gæti fljótlega orðið annað og meira en bara persóna sett fram í leikriti í Samkomuhúsinu, hann gæti orðið fórnarlamb fólksins í næsta húsi sem er hætt að finna gleði og tilgang í innantómu lífi neysluhyggjunnar.
Nú sem aldrei fyrr er tími til að staldra við og huga að því hvert skal stefna og ekki síst að því hver á segja okkur hvað er eftirsóknarvert í þessu lífi. Viljum við að fjármagnseigendur og stórfyrirtæki út úr hinum stóra heimi leggi okkur einsleitar lífsins línur eða viljum við taka beygju og fá aftur og áfram að lifa merkingarbæru lífi þar sem annað og meira en dauðir hlutir skipta máli. Hið fallega par sem birtist okkur, svo fullkomið, á leiksviðinu finnur sér engan tilgang lengur og ákvað að ganga lengra en nokkru sinni fyrr til að reyna að vekja tilfinningar sínar og ekki síður komast að því hvort þær væru enn til staðar. Þessi þróun blasir við hér á landi, allt snýst um að efnisleg gæði séu hið eftirsóknarverða takmark. Fyrrum fjármálaráðherra, nú forsætisráðherra, sagði til að mynda skattalækkanir ríkisstjórnarinnar sérlega góðar ekki síst í ljósi þess að slíkar hagræðingar í skattkerfinu væru vinnuhvetjandi. Hvers konar rök eru það fyrir þjóð sem vinnur manna mest í heimi, væri ekki nær að hvetja fólk til að eyða tíma saman og jafnvel með börnunum sínum!! Nei, öðru nær það er um að gera í samfélagi kapítalismans að hvetja fólk til enn meiri neyslu, vinna meira til að geta eytt meiru.
Það gleður mig að leikhúsið blandi sér í þjóðfélagsumræðuna og sendi áhorfendum sínum skilaboð. Skilaboð þessarar sýningar eru sterk að minnsta kosti þau sem ég meðtók og hrollurinn hríslaðist um mig ekki síst vegna þess að þessi fjarstæðukennda sýning er svo ótrúlega raunveruleg, ef við stöldrum ekki við núna þá er óvíst að hægt verða að snúa við. Það er jú ólíkt auðveldara að skipta um akgrein á hraðbraut lífsins en að taka u-beygju þegar í óefni er komið.
Hallur Gunnarsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.