Hvað gengur stjórnvöldum til ?

Að undanförnu hafa fréttir af Eyjafjarðarsvæðinu vakið nokkurn ugg. Samdráttur er hjá fiskvinnslufyrirtækum hér, sérstaklega hefur borið á markvissum samdrætti hjá Brimi. Ef svo er horft á þær stofnanir og starfssemi sem hið opinbera stendur fyrir hafa hremmingar Háskólans á Akureyri verið í brennideppli. Að vísu hefur menntamálaráðherra borið af sér sakir en flestum er þau augljós sú aðgerð stjórnvalda að hamla gegn stækkun skólans. Hvort það er til að verja hagsmuni sambærilegra skóla á suðvesturhorninu skal ósagt látið. Fjársvelti framhaldsskólanna er staðreynd. Fjárframlög til sveitarfélaga eru ekki í samræmi við þá þróun undanfarinna ára að auka þjónustu þar á kosnað ríkis. Þetta má í reynd kalla byggðafjandsamlega þróun. Sveitarfélögin flest eiga í miklum vandræðum með sínar fjárhagsáætlanir og tekjustofnum þeirra er þannig fyrirkomið að góðærið skilar litli í kassa þeirra. Á meðan bólgnar ríkissjóður og veit vart aura sinna tal að virðist.
 

Samgöngur og þróun.

Lykilatriði uppbyggingar í dreifbýli, þ.e. stærri kjarna utan höfuðborgasvæða í Evrópu eru góðar samgöngur. Umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur verið áberandi og hugmyndir þeirra sem hann vilja leggja niður er því miður byggðar á afar þröngsýnum viðhorfum. Ég ætla ekki að bera í þann bakkafulla læk en tel þó að þeirri umræðu sé langt frá lokið þó svo hún hafi verið tekin af dagskrá í bili. Einhvernveginn held ég að engu stjórmálaafli hugnist að það mál nái flugi í Alþingiskosningum næsta vor. Það sem er mál málanna hér á svæðinu nú um stundir er ótrúlegt sinnu og tómlæti stjórnvalda í málefnum Akureyrarflugvallar. Í sumar var það aðgerð hjá ríkisstjórinni að skera af rúmar fimmtíu milljónir sem ætlaðar voru til lagfæringa við flugstöð og á bílastæðum þar sem mikið ófremdarástand er og aðstaða lítt boðleg nútíma flugvelli. Stóra málið hinnvegar er að mjög illa hefur gengið að fá ríkisvaldið til að taka ákvarðanir og tímasetja lengingu flugbrautar og ekki síður lagfæringar öryggissvæða umhverfis brautina auk endurbóta á aðflugskerfum. Því miður stenst flugvöllurinn ekki staðla hvað þetta varðar og ljóst er að ef ekki verður farið í framkvæmdir þarna á næstunni munu erlend flugfélög og erlendar ferðaskrifstofur taka Akureyri af dagskrá sem valkost. Ef það gerist mun taka mörg ár að ná núverandi stöðu þrátt fyrir að hafist yrði handa fljótlega. Við sjáum auðvitað löngun annnarra svæða og flugvalla að fá þessi viðskipti til sín og lái ég þeim það ekki. Sú staða er lykilatriði við markaðssetningu svæða í nútíma ferðamennsku. Ábyrgð stjórnvalda er mikil. Akureyrarbær og Kea hafa boðist til að koma að fjármögnun til bráðabirgða en fátt er um svör að manni skilst.

Af hverju ?

Af hverju skyldi þetta tómlæti og áhugaleysi ríkisstjórnarinnar stafa ? Samgönguráðherra virðist lítt að skapi að taka þessa umræðu og því miður virtist lítt upplýstur um málið. Undanfarin tvö ár hafa bæjaryfirvöld og flugmálayfirvöld á Akureyri unnið að skipulagi flugvallarins með það að leiðarljósi að auka samkeppnishæfni hans. Deiliskipulag gerir ráð fyrir lengingu hans um 400 metra til suðurs og auk þess er flugvallarhlað, öryggissvæði og þjónustusvæði endurskipulögð með alþjóðaflug í huga. Það er lykilatriði fyrir Eyjafjarðarsvæðið að fá þessa alþjóðatengingu vegna ferðmennskunnar. Bæjarfélög t.d. í Skandinaviu sem hafa farið í samkeppni við stóru alþjóðaflugvellina hafa mörg hver blómstrað og hjólin hafa farið að snúast hraðar en áður. Gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu og m.a. er gert ráð fyrir svæði fyrir frysti og kæligeymslur vegna útflutnings á ferskvöru. Aureyrarbær og Akureyringar hafa lokið sínum undirbúningi og nú bíðum við Eyfirðingar allir að slyttisleg samgönguyfirvöld vakni af Þyrnirósarsvefninum. Stundum dettur manni í hug að verið sé að verja einhverja hagsmuni fyrir sunnan með þessum hægagangi.  Kannski þjónar það einhverjum hagsmunum betur að fá ferðamennina og útflutninginn um höfuðborgarsvæðið og Keflavík. Hver veit ? Þetta er eitt af stóru byggðamálunum í dag og skiptir Eyjafjarðarsvæðið, og reyndar Norður og Austurland, gríðarlegu máli.

Jón Ingi Cæsarsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband