21.1.2007 | 23:36
Afrakstur lýðræðislegrar umræðu
Niðurstöður íbúaþingsins voru því skýrar: Meira skjól, meiri birta, ekki háhýsi og tenging við Pollinn. Þessar óskir íbúanna voru síðan kynntar öllum þeim sem tóku þátt í alþjóðlegri samkeppni arkitekta um nýtt skipulag miðbæjarins og þeir beðnir að taka tillit til þeirra í tillögum sínum.
Margir muna gjörla hina miklu þátttöku arkitekta í þessari samkeppni og allar þeirra góðu tillögur sem vissulega eru milljarða króna virði fyrir bæjarfélagið. Verðlaunatillagan þótti uppfylla best þær óskir sem íbúaþingið mótaði og væri hægt að skrifa langt mál um hversu snjöll hún er en það bíður betri tíma.
Bæjaryfirvöld hafa síðan samþykkt heilsteypta endurskipulagningu miðbæjarins úr bestu tillögunum. Nú er staðan sú að mjög sterkir fjárfestar keppast um að tryggja sér byggingarétt á þessum lóðum í miðbænum og eru reiðubúnir að fjárfesta þar fyrir mikið fé. Því er ekki annað sýnna en vilji íbúanna um endurbættan miðbæ gangi eftir og að auki takist að laða að fjármagn til bæjarins til að standa straum af öllu saman. Oft hefur verið fagnað af minna tilefni.
Þegar þessi atburðarás er borin saman við meint íbúalýðræði í öðrum sveitafélögum, þar sem yfirvöld kynna þegnunum hvað þau ætla að gera í skipulagsmálum eða þegar staðið er fyrir leiðandi skoðanakönnunum um einstaka þætti án samhengis við heildarsýn, þá er deginum ljósara að þau vinnubrögð eru algjörlega ósambærileg við það hvernig staðið var að málum við endurskipulagningu miðbæjarins á Akureyri. Þar voru íbúarnir fyrst spurðir um grundvallaratriði og svörin síðan nýtt til að varða veginn í þessum mikilvæga málaflokki. Það eru vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar og bænum og bæjarbúum til mikils sóma íbúalýðræði í raun. Til hamingju með það!
Ingólfur Sverrisson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.