Afrakstur lýðræðislegrar umræðu

Nú berast mikil og góð tíðindi að norðan. Minn kæri fæðingarbær ætlar að fara að taka til hendinni og breyta miðbænum að óskum íbúa.  Þessar óskir eru afrakstur raunverulegs íbúalýðræðis þegar nær 10% Akureyringa komu saman einn fagran dag í september árið 2004 og ræddu hverju væri ábótavant í miðbænum og hverju þyrfti að breyta til að bæta hann og fegra.

Eftir mikil og víðtæk skoðanaskipti þátttakenda á íbúaþinginu varð meginniðurstaðan sú að miðbærinn væri vindasamur og sólar nyti þar ekki sem skyldi með þeim afleiðingum að þar þrifist ekki blómlegt miðbæjarlíf.  Meginástæðan er sú að aðalgöturnar liggja norður-suður og ríkjandi vindáttir eiga því greiða leið og sólin nær ekki heldur að gegna sínu hlutverki þar af sömu ástæðu.  Úr þessu þarf að bæta þannig að miðbærinn verði skjólgóður og bjartur. Var m.a. bent á að hægt væri stuðla að því með því að „mynda götuumhverfi sem snýr betur við sólu og veitir meira skjól,” eins og segir í niðurstöðum íbúaþingsins. Það verður aðeins gert með því að þróa göturnar meira til austurs-vesturs og mynda þannig skjól fyrir ríkjandi vindáttum og opna svæðið um  leið þannig að skuggar víki og sólartímar verði fleiri.
 
Íbúaþingið benti jafnframt á að æskilegt væri að tengja hafnarlíf meira miðbænum „þannig að hvort styrki annað” eins og góð reynsla er af víða um lönd. Þingið taldi einnig „rétt að fara varlega í það að raska einstakri bæjarmynd Akureyrar með miklu hærri húsum en þeim sem fyrir eru.”

Niðurstöður íbúaþingsins voru því skýrar: Meira skjól, meiri birta, ekki háhýsi og tenging við Pollinn. Þessar óskir íbúanna voru síðan kynntar öllum þeim sem tóku þátt í alþjóðlegri samkeppni arkitekta um nýtt skipulag miðbæjarins og þeir  beðnir að taka tillit til þeirra í tillögum sínum.

Margir muna gjörla hina miklu þátttöku arkitekta í þessari samkeppni og allar þeirra góðu tillögur sem vissulega eru milljarða króna virði fyrir bæjarfélagið. Verðlaunatillagan þótti uppfylla best þær óskir sem íbúaþingið mótaði og væri hægt að skrifa langt mál um hversu snjöll hún er en það bíður betri tíma. 

Bæjaryfirvöld hafa síðan samþykkt heilsteypta endurskipulagningu miðbæjarins úr bestu tillögunum.  Nú er staðan sú að mjög sterkir fjárfestar keppast um að tryggja sér byggingarétt á þessum lóðum í miðbænum og eru reiðubúnir að fjárfesta þar fyrir mikið fé.  Því er ekki annað sýnna en vilji íbúanna um endurbættan miðbæ gangi eftir og að auki takist að laða að fjármagn til bæjarins til að standa straum af öllu saman. Oft hefur verið fagnað af minna tilefni.


Þegar þessi atburðarás er borin saman við meint íbúalýðræði í öðrum sveitafélögum, þar sem yfirvöld kynna þegnunum hvað þau ætla að gera í skipulagsmálum eða þegar staðið er fyrir leiðandi skoðanakönnunum um einstaka þætti án samhengis við heildarsýn, þá er deginum ljósara að þau vinnubrögð eru algjörlega ósambærileg við það hvernig staðið var að málum við endurskipulagningu miðbæjarins á Akureyri.  Þar voru íbúarnir fyrst spurðir um grundvallaratriði og svörin síðan nýtt til að varða veginn í þessum mikilvæga málaflokki.  Það eru vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar og bænum og bæjarbúum til mikils sóma – íbúalýðræði í raun. Til hamingju með það!

Ingólfur Sverrisson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband