21.1.2007 | 23:38
Ferðamannparadísin Akureyri, Eyjafjörður, Norðurland
Í síðustu viku var tilkynnt að IcelandExpress hefði ákveðið að hefja beint flug milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar næsta sumar. Þetta er afar ánægjuleg þróun og verður örugglega til þess að fleiri ferðamenn koma á Austur- og Norðurland beint, auk þess sem við íbúar á svæðinu eigum auðveldara og með að komast til Evrópu fyrir minni pening. Það væri hinsvegar óskandi að IcelandExpress hefði úthald til að halda áfram beinu flugi einnig yfir vetrartímann til Kaupmannahafnar frá Akureyri. Það tekur tíma að vinna slíku flugi sess þó að Akureyringar og Norðlendingar hafi tekið fljótt og vel við sér, þá þarf lengri tíma til að kynna flugið erlendis.
En vonandi hefur IcelandExpress þolinmæði og það áræði sem þarf til að fylgja þessu flugi eftir. Samgönguyfirvöld með ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sturlu Böðvarsson í farabroddi hafa hinsvegar dregið lappirnar í því að efla flugstöðvarnar á Egilsstöðum og Akureyri til að þessir vellir geti talist fullgildir millilandaflugvellir. Sturla hefur sagt að "300.000 manna þjóð hafi bara efni á einum millilandaflugvelli" sem eru ótrúleg ummæli frá sjálfum samgönguráðherra landsins. Þessu viðhorfi yfirvalda þarf að breyta og vonandi skapast þverpólitískur vilji til að laga það sem laga þarf svo að getum boðið uppá þrjá fullgilda millilandaflugvelli. Ef ekki strax þá í kosningunum í vor. Akureyri, Eyjafjörður og Norðurland hefur nefninlega uppá svo margt að bjóða á sviði ferðamennsku og það allan ársins hring. Það eru til dæmis ekki margir staðir í Evrópu sem bjóða uppá flugvöll í 20 mínútna akstursfjarlægð frá stórkostlegu skíðasvæði.
Ásókn ferðamanna í óhefðbundnar ferðir utan álagstíma á eftir að aukast svo og þeirra sem koma til að leita að norðurljósum, kyrrð og myrkri sem er eitthvað sem margir vilja upplifa. Uppbygging ferðaþjónustu á Húsavík með hvalaskoðun og Hvalasafn í öndvegi hefur verið stórkostleg. Jarðböðin við Mývatn eru einstök á sínu sviði. Eyjafjörðurinn, Grímsey og Hrísey eru einnig perlur og það eru margir sem vilja koma og dvelja í alvöru sjávarþorpi eða á sveitabæ í faðmi fjalla. Veitingastaðir á heimsmælikvarða sem bjóða uppá úrvalsrétti úr hráefni úr heimabyggð eins og Friðrik V, Halastjarnan og Karólína eru staðir sem við getum státað af. Við höfum uppá svo margt að bjóða og sumt á enn eftir að uppgötva. Við eigum því framtíðina fyrir okkur á þessu sviði og möguleikarnir eru óþrjótandi. Það þarf bara smá velvilja, áræði og þolinmæði og þá getum við gert kratftaverk.
Hlynur Hallsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.