Vantar nýjan Framsóknarflokk?

Við sem fylgjumst með stjórnmálum munum að oft hefur verið talað um að Framsóknarflokkurinn þurfi að vinna meira í því að afla fylgis á suðvesturhorninu. Bæði hafa framámenn í flokknum sagt þetta en einnig stjórnmálafræðingar og aðrir. Mér finnst að Framsóknarflokkurinn hafi reynt á undanförnum árum að fara í þessa átt. En hver er útkoman? Í stuttu máli er hún sú að fylgið á suðvesturhorninu er síst að aukast. Og fylgið sem flokkurinn hafði á landsbyggðinni virðist að einhverju leiti vera að fjúka út um gluggann. Heyrst hefur að bændur séu í auknum mæli að snúa sér að Vinstri Grænum en þar átti Framsóknarflokkurinn áður víst fylgi.
 
Á sama tíma sár vantar flokk á Íslandi sem hefur einhverja framtíðarsýn á byggð í landinu. Enginn flokkur hefur neina útpælda né útfærða stefnu á þessu sviði. Hver frambjóðandi hefur sína eigin stefnu eða finnst einfaldlega óþarfi að hafa einhverja framtíðarsýn í þessum málum. Samt er þetta stóra málið í mínum huga. Hvernig viljum við að Ísland líti út eftir 50 ár? Viljum við að allir Íslendingar búi á suðvesturhorninu? Viljum við að ástandið verði svipað og það er núna, þ.e. byggðir í stöðugri, örvæntingarfullri baráttu um tilvist sína? Viljum við að sköpuð verði skilyrði til þess að sterkustu kjarnarnir fyrir utan suðvesturhornið vaxi og dafni (þar verði jafnvel borgarmyndun) og geti þá um leið verið skjól fyrir nálægar byggðir. Þetta eru einungis þrjú dæmi um einhverskonar framtíðarsýn. Vandamálið er hins vegar að enginn flokkur virðist hafa neina.

Áfram er hægt að láta hugann reika. Er okkur t.d. sama þó byggð leggist af á Ísafirði á næstu 50 árum? Við skulum ekki fara í grafgötur með það að bærinn er á þeirri leið ef sama þróun heldur áfarm og síðasta áratug. Ef okkur er ekki sama, hvað ætlum við þá að gera til að svo verði ekki?

Ég tel að Framsóknarflokkurinn eigi að skipta um áherslur. Í stað þess að standa í strögli í borginni við að þóknast kjósendum með litlum sem engum árangri ætti flokkurinn að snúa að vissu marki aftur til uppruna síns en þó með skýra og raunhæfa framtíðarsýn, sérstaklega í byggðamálum. Ég leyni því ekki að ég vildi sjá stefnu sem væri eitthvað í líkingu við þriðja dæmið sem hér var sett fram.

Ég vil þó undirstrika það að hér er ekki verið að tal fyrir öfgafullri stefnu sem byggir á einhverskonar Reykjavíkurhatri. Við Íslendingar erum heppnir að eiga borgina og það gróskumikla samfélag sem þar er. Spurningin er hins vegar hvort við viljum bara hafa Reykjavík eða Reykjavík plús eitthvað meira sem líka er gróskumikið og eftirsóknarvert.

Ég held að Framsóknarflokknum tækist betur upp ef hann skapaði sér þá sérstöðu að hafa einn flokka einhverja framtíðarsýn í þessu stóra máli. Þá tel ég raunhæft að hann gæti verið með 40% fylgi á landsbyggðinni og meira en 10% á suðvesturhorninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband