21.1.2007 | 23:42
Frelsi til búsetu
Hingað til hefur atvinna manna haft mikil áhrif á búsetu og margir hafa þurft að flytjast nánast nauðungarflutningum til þess að geta séð fyrir fjölskyldu sinni. Þetta ætti að vera liðin tíð þar sem fólk getur unnið fjölbreytta vinnu nánast hvaðan sem er fyrir fyrirtæki sem er staðsett nánast hvaðan sem er. En eftir stendur mannlega hliðin þ.e. að fyrirtæki og stofnanir hugi að þessu með markvissum hætti og losi fólk úr jarðarböndum vegna atvinnu sinnar.
Til þess að ná árangri á þessu sviði þarf að efla samstarfs- og samskiptahæfni um Netið þannig að þeir sem vinna saman á þennan hátt nái hámarksárangri í starfi. Á mörgum vinnustöðum í dag eru menn á sífelldum þvælingi og menn hittast sjaldan og því er Netið mikið notað. Þannig að breytt vinnubrögð til samræmis við nútímann eru raunveruleiki á ýmsum stöðum þrátt fyrir að yfirmenn sjái ekki að þeir geti gefið starfsmönnum sínum frelsi til að búa hvar sem er.
Á sama tíma og Íslendingar guma af því að geta rekið fyrirtæki víða um heim og nýtt Netið til stjórnunar og samstarfs treysta þeir sér vart til að vinna á íslensku milli staða innanlands.
En auðvitað hafa sum fyrirtæki gefið starfsmönnum frelsið og á Akureyri vinna margir hjá fyrirtækjum sem eru með heimilisfestu annarsstaðar. Fjöldi manna kúrir í herbergjum hér og þar á Akureyri og vinna vinnuna sína en oft einir og án tengsla í nærsamfélaginu. Ég þekki af eigin raun að slíkt getur verið leiðigjarnt til lengdar, því væri eftirsóknarvert að gera þeim kleift að hafa sinn vinnustað í samfélagi við aðra sem vinna á sama hátt.
Heilu þjóðirnar eru að byggja upp efnahag sinn með þessum hætti og eru Indland og Kína nærtæk dæmi. Í dag eru teknar röntgenmyndir í Bandaríkjunum, sérfræðingar á Indlandi lesa út úr myndunum og senda niðurstöðurnar til baka og sjúklingurinn fær niðurstöðu daginn eftir. Þar
hjálpar tímamunur til þannig að í rauninni er verið að vinna allan sólarhringinn fyrir sjúklingana. Margar skattskýrslur eru gerðar á Indlandi, forritarar þaðan vinna við hugbúnaðargerð fyrir fyrirtæki í Bandaríkjunum. Jafnvel er flugfélag í Bandaríkjunum þar sem húsmæður vinna hluta úr degi við að svara símanum að heiman. Þær skrá sig til vinnu einhverja tíma á dag og tölvukerfi sér um að þær verða hluti af símkerfi fyrirtækisins á þeim tíma. Á skyndibitastöðum þar sem hægt er að panta matinn úr bílnum eru þeir sem svara í hátalara stundum staðsettir í öðru fylgi en þeir sem elda og afhenda matinn á staðnum.
Við Akureyringar þurfum, og eigum, að skoða alvarlega hvernig við getum nýtt nútímatækni til að efla atvinnuveg á Akureyri í fjölbreyttum starfsgreinum. Ríkið þarf að ganga fram á öflugan hátt og hætta að þenjast út - bara á höfuðborgarsvæðinu.
Berjumst fyrir frelsi til búsetu við Eyjafjörð og finnum atvinnutækifæri út um allan heim.
Lára Stefánsdóttir
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.