Smjörklípudagurinn mikli

 Nú er runninn upp bolludagur. Af því tilefni hef ég ákveðið með sjálfum mér að senda erindi til Almanaks Hins íslenska þjóðvinafélags og óska eftir því að nafni „bolludagsins” verði breytt og hann nefndur „smjörklípudagurinn mikli.”

Hér fer á eftir stutt greinargerð um málið.

Hver man ekki bolludaginn þegar þáverandi forsætisráðherra greindi alþjóð í morgunútvarpinu frá því að tilraun hefði verið gerð til að bera á hann litlar þrjú hundruð milljónir króna í mútur. Hann sýndi hins vegar dæmafátt sjálfsþrek og hafnaði boðinu og nýtti þennan ágæta bolludag til að greina alþjóð frá því hvaða freistingar varasamt fólk bæri fram. Setti þá þjóðina hljóða og hún hefur varla jafnað sig á þessum ósköpum síðan.

Það var hins vegar ekki fyrr en á síðasta ári sem þessi sami ráðherra upplýsti okkur um að hann hefði gjarnan beitt hinni áhrifaríku „smjörklípuaðferð” þegar hann væri kominn í þá aðstöðu í umdeildum málum að nauðsyn bæri til að beina talinu að öðru. Þannig væri hægt að forða sér úr slæmri stöðu og taka upp léttara hjal.

Ég man vel þegar ég settist við tækið þennan fræga bolludagsmorgun því að ég var spenntur að heyra skýringar ráðherrans á ummælum hans um að hann hefði ekkert þekkt til Jóns Geralds Sullenberger, þess fræga manns í Baugsmálum. Einhverjir höfðu vissu fyrir því að þessi fullyrðing ráðherra gæti ekki staðist og hann því sekur um að bera sannleikanum ekki vitni. Því var fróðlegt að heyra hvernig hann útskýrði sína hlið á málinu. En í stað þess að fjalla um það var talinu beint að allt öðru og tryggt að það væri svo hressilegt og svo yfirgengilegt að allir gleymdu samstundis því sem þeir bjuggust við að heyra fjallað um. Þar birtist smjörklípuaðferðin í sinni tærustu mynd. Aðferðin tókst fullkomlega og enginn hafði lengur áhuga á að tala um það sem ráðherrann vildi komast hjá að ræða.

Hófst nú dæmafá umræða um það hvort ráðherrann segði satt eða væri hreinlega að bera á borð kjaftasögu sem ætti sér upphaf í léttu og ábyrgðarlausu kvöldspjalli í vinahópi yfir nokkrum vínglösum.

Sumir voru algjörlega vissir um að ráðherrann segði satt og rétt frá enda hefði hann aldrei orðið uppvís að ósannindum, kynni hreinlega ekki að segja ósatt og því síður orðið uppvís að því að ýkja á nokkurn hátt og allra síst um þá sem honum var í nöp við. Hann hefði því sýnt mikinn styrk með því að hafna þessari tilraun til að láta múta sér og væri því afbragð annarra manna.

Öðrum fannst þetta allt hið undarlegasta mál og keyptu ekki án frekari skoðunar að þarna hefði verið gerð raunveruleg tilraun til að bera fé á valdamesta mann landsins. Bentu m.a. á að hjá öllum siðuðum þjóðum hefði umsvifalaust verið hafin lögreglurannsókn á þessháttar ásökunum þegar í hlut ætti maður í slíku embætti og ekkert til sparað. Því urðu margir undrandi þegar hvorki saksóknara né ríkislögreglustjóra þótti ástæða til að skoða þetta frekar og fjölmiðlar bitu síðan höfuðið af skömminni með því að láta ógert að fjalla um hvað til væri í þessum alvarlegu fullyrðingum ráðherra. Rannsóknarblaðamennskan fór fyrir lítið og fjölmiðlar skildu landsmenn alla eftir óupplýsta með óbragð í munninum. Enginn virtist þora að gegna skyldum sínum með þeim afleiðingum að umræðan í þjóðfélaginu hélt áfram á trúarlegum nótum en ekki vitrænum. Sú háðung mun lengi uppi.

Nú væri gaman að beina því til fjölmiðladeildar háskólans okkar hér á Akureyri að hefja rannsókn á þessu dæmalausa máli og skrifa um hana eins og eina doktorsritgerð. Það gæti orðið bæði fróðlegt og gagnlegt fyrir land og lýð.

En meðan ekkert gerist þá er tillaga mín - að breyta heiti bolludagsins í smjörklípudaginn mikla – sett fram í þeirri viðleitni að mál þetta falli ekki í gleymskunnar dá. Þessari nafngift verði ekki breytt til fyrra horfs fyrr en fengist hefur botn í þetta einkennilega mál eins og gerist meðal siðaðra þjóða. Þangað til nefnum við gamla bolludaginn ávallt smjörklípudaginn mikla.

 Ragnar Sverrisson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt skulum við hafa alveg á hreinu.  Davíð Oddssyni voru aldrei boðnar mútur eða tilraun gerð til þess að bera á hann mútur.  Öðru nær.  Aðspurður í MBL og KASTLJÓSI sagði hann að hann ætlaði mér ekki slíkt.  Sagan ("smjörklípan") var einmitt svo slóttug vegna þess að hann sagði að ég hefði trúað sér fyrir því að Jón Ásgeir hefði á einhverjum tímapunkti áður nefnt þetta við mig en ég drepið hugmyndina vegna þess að Davíð Oddsson væri ekki slíkur maður (og ég tek fram að hann er ekki slíkur maður).  Jón Ásgeir hefði á hinn bóginn látið sér til hugar koma að Davíð Oddsson væri slíkur maður og að ég hafi sagt honum þetta, trúað honum fyrir þessu.  Hann gat þess ekki í viðtalinu við RUV undir hvaða kringumstæðum þetta var sagt eða í hvaða samhengi, þ.e.a.s. að ég hefði sagt sér þessa sögu sem svar við söguburði hans um feðgana í Bónus.  Menn skyldu ekki trúa öllu sem sagt væri um nafntogaða menn.  Um hann (Davíð Oddsson) væru sagðar sögur sem ég legði ekki trúnað á, t.d. hefði Jón Ásgeir sagt mér sögu sem gengi manna á meðal um meinta greiðslu að fjárhæð 300 m. kr. og slegið fram í framhaldinu hvort þetta væri kannski aðferðin!  (Á ensku kallast þetta "sarcasm", "bitter irony" eða kaldhæðni á íslensku).  Davíð greip þetta á lofti -áróðursmaðurinn sem hann er og sneri þessu strax upp í andhverfu sína - en ég sagði honum um leið að þetta hefði verið sagt í hálfkæringi af Jóni Ásgeiri.  Engin alvarleg meining hefði legið þar að baki.  Þetta hefði verið nefnt í dæmaskyni um hve varlegt væri að leggja trúnað á söguburð. Hér var aðalatriðið auðvitað slúðrið en ekki kaldhæðni Jóns Ásgeirs.  Ég minnti hann einmitt á að morgni "bolludagsins" - þegar hann hringdi í mig áður en hann fór í viðtalið á RUV  - að ég hefði notað orðið "hálfkæringur" strax þarna um kvöldið.  Þetta var ekki sagt sem fyndni af minni hálfu heldur til að vara Davíð Oddsson við að trúa kjaftasögum.  Þetta er því ekta "smjörklípa" hjá honum.  Hlutir teknir úr samhengi til að draga athyglina frá óþægilegri umræðu um önnur mál.  Í þessu tilviki - í framhaldi af lýsingu Fréttablaðsins frá því á laugardeginum fyrir "bolludaginn" - hvað vissi Davíð Oddsson um aðdraganda Baugsmálsins?  Vissi hann eitthvað?  Hitt er síðan annað mál að stuðningsmenn Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokknum og annars staðar fóru að spinna, t.d. með því að spyrja: "já, en er það ekki einmitt svona sem menn ámálga slíka hluti" o.s.frv.  Þá vil ég einnig mótmæla því að þetta hafi verið eitthvað fyllerí þarna úti í London eins og stundum er haldið fram manna á meðal og í fjölmiðlum.  Á hinum eiginlega fundi okkar tveggja í Lundúnum 26. janúar 2002 drakk annar kaffi en hinn te.  Eftir heimkomuna og fram í febrúar 2002 áttum við Davíð Oddsson nokkur samskipti þegar ég gekk frá störfum mínum fyrir hann sem forsætisráðherra og ég varð þess ekki var þá að hann teldi að alvarlegir hlutir hefðu gerst í samskiptum okkar.  Öðru nær.  Hann þakkaði mér með hlýjum orðum fyrir náið og gott samstarf og góðan árangur við framkvæmd einkavæðingar á árunum 1992-2002.  Kveðja, Hreinn Loftsson.

Hreinn Loftsson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 15:28

2 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Algerlega húmorslaus maður þessi Davíð Oddsson :)

Gísli Aðalsteinsson , 21.2.2007 kl. 09:13

3 identicon

Feliximo (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband