Er ESB lausn á vanda landsbyggðar?

Athyglisvert er að peningastefna Seðlabankans virðist ganga í berhögg við lítinn hagvöxt á landsbyggðinni. Þensla undangenginna ára er að mest á Austurlandi og höfuðborgasvæði. Háir vextir eru því mjög íþyngjandi fyrir almenning og smáfyrirtæki á landsbyggðinni. Flest stærri fyrirtæki og sveitarfélög hafa tekið erlend lán. Þeir sem ekki eiga kost á slíkum lánum eru helst almenningur og smærri fyrirtæki. Það væri því mikil kjarabót fyrir þessa aðila að komast í myntbandalag Evrópu og taka upp Evru að því gefnu að erlendar fjármálastofnanir myndu lána einstaklingum á landsbyggðinni.

Byggðaþróunarsjóðir Evrópusambandins

Líklega myndi aðild að ESB færa landsbyggðarsvæðum mun meiri ávinning en höfuðborgarsvæðinu. Það tengist Byggðaþróunarsjóðum ESB (The European Regional Development Fund). Þeir eru ásamt landbúnaðarstefnunni ein af meginstoðum sambandsins. Markmið þeirra er að efla fjárfestingar á svæðum sem annars vegar eru með mikið atvinnuleysi eða lægri tekjur en meðaltalið innan ESB, og hins vegar þar sem aðeins eru 8 íbúa á ferkílómetra (kom inn eftir aðild Finna og Svía). Það þýðir að nánast allt Ísland, að höfuðborgarsvæðinu undanskyldu, flokkast undir 1. markmið, en undir það falla stærsti hluti styrkjanna. Markmið með þróunarsjóðunum er að:

- Efla fjárfestingar til að skapa ný störf og efla vinnumarkaði
- Fjárfesta í samgöngum og fjarskiptum
- Svæðisbundnar aðgerðir til að efla starf smárra og meðalstórra fyrirtækja.

Á tímabilinu 2000-2006 var varið um 12.000 milljörðum ISK til byggðaþróunarsjóðanna. Sú fjárhæð gefur til kynna mikilvægi sjóðanna til að efla þau svæði sem staðið hafa halloka innan sambandsins. Markmiðið er hér sem annars staðar að auka jafnræði meðal íbúa í Evrópu.

Mér virðist að mikið af vanda landsbyggðar væri mögulegt að leysa með styrkjum úr Byggðaþróunasjóðum ESB. Þeir gætu hraðað mjög að færa landsbyggðarsvæði inn í hið nýja upplýsinga- og þekkingarsamfélag. En hafa ber í huga að mótframlag frá sveitarfélögum, félagsamtökum og fyrirtækjum þarf einnig að koma til. Einnig verður að minnast þess að mikil ásókn er í sjóðina eftir inngöngu fyrrum Austur-Evrópuþjóða þar sem fátækt og atvinnuleysi er mikið.

Mikilvægt hagsmunamál

ESB aðild getur verið fólki á landsbyggðinni sem öðrum Íslendingum mikið hagsmunamál. Ég hvet því nýja ríkisstjórn til að skipa hóp sérfræðinga til að kanna þetta mál vel, setja fram samningsmarkmið í viðræðum við ESB og sækja um aðild. Niðurstöður slíkra viðræðna ætti síðan að láta þjóðina kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafa Norðmenn gert í tvígang og fellt í bæði skiptin. Það sýnir að umsóknarferlið felur ekki í sér neinar skuldbinginar og þar er engin hætta á ferðum.

Ingi Rúnar Eðvarðsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband