12.4.2007 | 07:23
Sóun í bjórflutningum, til hvers?
Við Íslendingar eigum sem betur fer nóg að neysluhæfu vatni um allt land. Það er því ekki sýnileg þörf á því að keyra vatni á flutningabílum milli landshluta. Hvað þá að keyra með sama vatnið fram og til baka yfir hálft landið. Hljómar vissulega fáránlega en þrátt fyrri það má segja að þetta sé einmitt gert.
Bjór er að mestu vatn. Hann er m.a. bruggaður í Eyjafirði bæði af Vífilfelli og Kalda.
Þessar framleiðsluvörur mega þó Norðlendingar ekki kaupa fyrr en búið er að aka með þær til Reykjavíkur og aftur til baka. Fyrst ekur framleiðandinn vörunum til Reykjavíkur og síðan ekur ÁTVR þeim til baka. Til hvers? Ja, kerfið er bara þannig. Er þetta ekki sóun á fé? Varla er þessi 800 km flutningur á nokkur hundruð tonnum á ári ókeypis?
Nei auðvitað kostar hann sitt. Eykur þetta ekki mengun, álag á vegakerfið og slysahættu? Jú vissulega. Skekkir þetta ekki samkeppnisstöðu bjórframleiðenda í Reykjavík annars vegar og á Norðurlandi hins vegar? Jú, það er augljóst. Er þetta þá ekki hámark fáránleikans? Jú eiginlega, en kerfið er bara svona.
Til að setja þennan fáránleika í annað ljós getum við spurt okkur hvort skynsamlegt væri að aka með alla þá mjólk sem framleidd er í Eyjafirði til Reykjavíkur og síðan aftur til baka áður en hún kæmi í búðir á Akureyri.
En hvað er þá til ráða til að minnka sóunina? Margir vilja leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum og myndi það án efa minnka óþarfan flutning. Ef við höldum okkur hins vegar við núverandi sölufyrirkomulag er lausnin sem liggur beinast við sú að ÁTVR haldi ekki einungis birgðastöð í Reykjavík heldur einnig á Akureyri. Birgjar ÁTVR gætu þá ráðið á hvorum staðnum þeir afhentu vöru sína. Frá birgðastöðinni á Akureyri væri síðan dreift til vínbúða á Norðurlandi og Austurlandi sem og til birgðastöðvar í Reykjavík.
Ef við tökum bjórinn Kalda sem dæmi sem framleiddur er á Árskógsströnd þá er líklegt að framleiðendur hans veldu að afhenda hann á Akureyri. Þaðan færi hann í vínbúðir í heimahéraði þar sem neysla hans er eðlilega mest. Frá birgðastöðinni á Akureyri væri jafnframt flutt til birgðastöðvarinnar í Reykjavík og frá henni í vínbúðir frá Höfn í Hornafirði til Ísafjarðar. Með þessu færi bjórinn mun styttri leið til neytandans en nú. Samkeppnisstaða jafnaðist, ekki einungis meðal bjórframleiðenda heldur einnig meðal víninnflytjenda.
Sem borgari þessa lands geri ég hér með þá kröfu að núverandi kerfi verði stokkað upp og sóun sem felst í óþarfa flutningi verði stöðvuð. Auðvitað ætti frumkvæðið í þessum efnum að koma frá ÁTVR en einnig er mikilvægt að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir ástandinu og þrýsti á um úrbætur. Þetta er jú verslun í eigu okkar Íslendinga.
Auk þessa legg ég til að vínbúðin á Akureyri verði hækkuð í tign upp í glæsilega reynslusölubúð með upp undir 2000 tegunda úrvali. En það er efni í annan pistil.
Jón Þorvaldur Heiðarsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er varla að ég trúi þessu - er farið með bjórinn frá Akureyri til Reykjavíkur til þess að fara með hann aftur frá Reykjavík til Akureyrar?
Hlynur Þór Magnússon, 12.4.2007 kl. 07:59
Já þetta er staðreynd, það er þó þegjandi samkomulag um að svindla á eigin kerfi hvað varðar eitt atriði. Bjór frá Víking fer beint í ríkið á Akureyri. Allur annar bjór frá Víking fer fyrst til Reykjavíkur og þaðan aftur norður og austur á land. Hvað Kalda varðar veit ég ekki betur en hann fari allur til Reykjavíkur. Ef þú kaupir Kalda í ríkinu á Dalvík hefur sá bjór farið eina ferð til höfuðborgarinnar áður en þér er leyft að kaupa hann og drekka.
Jón Þorvaldur (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 08:29
Ekki bara til reykjavíkur heldur líka á flesta staði á milli reykjavíkur og dalvíkur því nesfrakt stoppar á hverjum stað með bjórinn þar til hann er kominn alla leið. svona eru logistics dagsins í dag. Heyrði sögu af sænsku fyrirtæki sem eru með alþjóðlega birgðastöð í belgíu og allar vörur þess fara frá svíþjóð til þessarar stöðvar. það á einnig við um vörurnar sem eru seldar í svíþjóð.
Baldvin Esra Einarsson (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 02:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.