28.4.2007 | 02:25
Hálfur mánuður til kosninga - spenna í Norðaustri
Það styttist óðum í alþingiskosningar. Eftir hálfan mánuð kjósum við þingmenn Norðausturkjördæmis næstu fjögur árin. Skoðanakannanir gefa til kynna ýmsar breytingar og áhugaverðar pælingar á breytingum á stöðu flokka og framboða frá kosningunum 2003. Það stefnir fyrirfram séð í nokkrar breytingar burtséð frá því sem getur gerst á kjördag, 12. maí, en þrír sitjandi þingmenn draga sig í hlé í þessum kosningum; Halldór Blöndal, Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir. Tómas Ingi Olrich, sem kjörinn var á þing í kosningunum 2003, baðst lausnar frá þingsetu í árslok 2003.
Þetta eru aðrar kosningar þessa nýja kjördæmis. Síðast gekk upp og ofan fyrir flokka að bindast þeim böndum sem mikilvægust voru og vissir byrjunarörðugleikar voru til staðar. Þeir eru mun síður til staðar og heilt yfir eru svæðin orðin eitt, þó þetta sé auðvitað mjög víðfeðmt og landfræðilega séð erfitt kjördæmi yfirferðar, enda liggur það frá Siglufirði í norðri til Djúpavogs í austri. Þeir sem vinna því sem þingmenn svæðisins þurfa því að leggja mikil ferðalög á sig svo vel eigi að takast að vera í góðu sambandi við kjósendur og flokksfélaga sína.
Margir hafa spurt sig hvort þessi kjördæmaskipan hafi gengið upp. Að sumu leyti hefur hún tekist vel - að öðru leyti ekkert sérstaklega eða hreinlega illa. Heilt yfir er þetta þó orðið furðanlega gott og heilsteypt þannig séð. Margir hafa spurt sig hvort önnur mynd á kjördæmi á svæðinu hefði verið betri. Ég var þeirrar skoðunar er kjördæmabreytingin var gerð fyrir sjö til átta árum að Norðurland ætti að verða eitt, sameina ætti Norðurland eystra og vestra. Þá hefði myndast sterkt norðlenskt kjördæmi á Norðurlandi með Akureyri sem grunnmiðpunkt.
Það gerðist illu heilli ekki. Sú skoðun var byggð á því að með því hefðu lík svæði á sömu slóðum orðið eitt og Akureyri hefði orðið sterkur miðpunktur kjördæmis á Norðurlandi. Þess í stað erum við með dreifðari kjördæmi og ólíkari svæðisheildar. En það hefur eins og fyrr segir tekist að binda þau sterkum böndum og gömlu kjördæmamörkin sem voru svo heimakær í huga margra kjósenda í kjördæminu eru óðum að gufa upp. Enda á hagur fólks á Reyðarfirði að skipta okkur á Akureyri máli og um leið öfugt auðvitað. Þetta er ein sterk heild.
Framboðsfrestur er liðinn í Norðausturkjördæmi eins og annarsstaðar um landið. Sjö framboðslistar verða í kjöri eftir hálfan mánuð; B-listi Framsóknarflokks, D-listi Sjálfstæðisflokks, E-listi Baráttusamtakanna, F-listi Frjálslynda flokksins, Í-listi Íslandshreyfingarinnar, S-listi Samfylkingarinnar og V-listi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Leiðtogar listanna eru Valgerður Sverrisdóttir, Kristján Þór Júlíusson, María Óskarsdóttir, Sigurjón Þórðarson, Hörður Ingólfsson, Kristján L. Möller og Steingrímur J. Sigfússon.
Mikil spenna er auðvitað yfir því hvaða flokkur verði stærstur og hvaða leiðtogi verði fyrsti þingmaður kjördæmisins. Valgerður Sverrisdóttir hefur verið fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis allt frá stofnun þess árið 2003, þetta eina kjörtímabil þess. Skoðanakannanir gefa henni ekki góð fyrirheit um að halda þeim sess. Mestar líkur eru á því að Kristján Þór hljóti þann sess eftir fjórtán daga. En það er auðvitað ljóst að kannanir segja aldrei alla söguna. Það sást vel á lokaspretti kosningabaráttunnar 2003 er staðan breyttist á tíu dögum.
Við í Pollinum höfum hist vikulega til að ræða stjórnmálin. Við höfum boðið leiðtogum flokkanna sem nú eiga sæti á Alþingi að mæta á fund til okkar og ræða stjórnmálin frá víðum hliðum. Það hafa verið ánægjulegir fundir. Steingrímur J, Kristján Möller, Valgerður og Kristján Þór hafa þegið það boð og haft áhuga á að mæta. Enn á Sigurjón Þórðarson eftir að mæta en hann mun væntanlega koma á fund áður en kjördagur rennur upp og fara yfir málefni kjördæmisins. Hafa þessir fundar verið áhugaverðir og gagnlegir, nýst mjög vel í að hugsa um málefni kjördæmisins.
Það verður athyglisvert hvernig kosningarnar fara og hver staðan verður eftir 13. maí. Ennfremur verður áhugavert hverjir myndi ríkisstjórn. Það verður athyglisvert hvort einhverjir flokksleiðtogar frá Norðausturkjördæmi verði ráðherrar í ríkisstjórn. Heldur verður það að teljast líklegt. Við upphaf tímabilsins urðu Valgerður Sverrisdóttir, Jón Kristjánsson og Tómas Ingi Olrich ráðherrar í ríkisstjórn og Halldór Blöndal var forseti Alþingis. Nú er aðeins Valgerður Sverrisdóttir með ráðherraígildi, en hún er vissulega valdamesti stjórnmálamaður svæðisins.
Það hlýtur að vera hugsað hærra. Það skiptir máli að ráðherrar komi héðan, ráðherrar með völd til að vinna af krafti í stjórnmálabaráttu, vinna að hagsmunum svæðisins. Það blasir við að atvinnu- og samgöngumál eru málefni kosningabaráttunnar hér, jafnvel mun frekar nú en áður. Samgöngumálin drottna mjög yfir, enda er þetta víðfeðmt kjördæmi og góðar samgöngur eru mikilvægar hinum dreifðu byggðum.
Það er mjög mikilvægt að einhver þessara leiðtoga, helst fleiri en einn, komist í gullna aðstöðu til að hafa lykiláhrif til hins góða. Þá reynir á öll fögru fyrirheitin og gullnu loforðin.
Stefán Friðrik Stefánsson
Þeir sem vilja taka þátt í greinaskrifum á Pollinum og leggja vefnum lið með virkri þátttöku eða kom á fundi eru eindregið hvattir til að senda tölvupóst á stebbifr@simnet.is og fá upplýsingar um starfið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir langan og ítarlegan pistil um þína sýn á málin í NA Stefán. Það er athyglisvert að skoða niðurbrot á könnun Fréttablaðsins í dag (sunnudag 29.4.) á síðu 18 þar sem íhaldið hefur minnsta fylgi á landinu hér. Það verður spenna milli Samfó, Bjélistans og Vinstri grænna um þriðja manninn og uppbótarmann. Framsókn fær hann samkvæmt Frbl. en það eru nú ekki háar tölur eða stórt úrtak á bakvið þessa könnun. Annars eru flestir orðnir þreyttir á þessum endalausu könnunum en samt eru allir að tala um þær (þar á meðal ég:) Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 29.4.2007 kl. 13:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.