3.7.2007 | 12:44
Gefum sögunni meiri gaum á vef bæjarins
Fram kom í máli Elínar Margrétar Hallgrímsdóttur, formanns Akureyrarstofu, í framsöguræðu um málaflokk sinn á bæjarstjórnarfundi nýlega að framundan væri vinna við algjöra uppstokkun heimasíðu Akureyrarbæjar. Þar á að skipta heimasíðunni upp í allt að þrjá til fjóra vefi, sem valið sé úr, þar verði t.d. sérstakur vefur með kynningu á bænum fyrir þá sem hafa í hyggju að ferðast hingað til Akureyrar og njóta þar lífsins og svo fyrir bæjarbúa sem vilja kynna sér það sem er að gerast í bænum, grunnmál og stöðu þeirra.
Þetta er svo sannarlega gott og blessað. Þó að vefur Akureyrarbæjar hafi alla tíð að mínu mati verið stórglæsilegur, upplýsandi og vandaður, í raun í fararbroddi vefsetra sem er á vegum íslensks sveitarfélags hefur mér alltaf fundist hann eiginlega ofhlaðinn. Kannski kippast einhverjir við þegar að ég segi þetta en ég segi það samt. Mér finnst sumar upplýsingar of flóknar að finna og vefurinn er stundum of mikið völundarhús er leita þarf snöggt að ýmsu smálegu sem oft blasir ekki við. Ég hef heyrt á fleirum að þeir upplifa hið sama.
Með einföldun vefsíðunnar og að skipta henni upp í nokkur svið sem hver og einn velur úr er betra að tína fram lykilpunkta þess sem fólk vill skoða með heimsókninni á vef Akureyrarbæjar. Að mjög mörgu leyti er heimasíða Akureyrarbæjar andlit bæjarins. Vefurinn þarf að vera svalur frontur stjórnsýslu, afþreyingar, upplýsinga og lykilpunkta, bæði fyrir þá sem búa í bænum og vilja kynna sér betur málefni sveitarfélagsins og eins þess sem er í ferðahug hingað norður. Við eigum að sinna öllum hliðum, því vefurinn á ekki bara að þjónusta mig og þig á Akureyri heldur líka þann sem vill heimsækja okkur, jafnvel í sumar, hver veit.
Mér finnst hafa tekist vel til með stofnun Akureyrarstofu. Þar eru undir sama hætti markaðs-, menningar- og ferðamál Akureyrarbæjar og mun hún aðallega einbeita sér að Akureyri en verða vissulega jafnframt þátttakandi í samvinnuverkefnum hér í Eyjafirði og annars staðar. Elín Margrét fór vel yfir öll þau mál í framsögu sinni á fundinum og þakka ég henni greinargóða umfjöllun. Eitt finnst mér þó vanta og það stórlega. Það er að hlúa betur að sögu Akureyrarbæjar, á netinu, og það auðvitað á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Að mínu mati væri vel til fundið að safna saman á vef bæjarins samantekt um bæjarstjóra í sögu Akureyrarbæjar, bæjarfulltrúa í langri sögu sveitarfélagsins og heiðursborgara Akureyrarbæjar. Þetta er umfjöllun sem hvergi er til staðar. Ég hef alla tíð verið aðdáandi sögunnar og viljað veg hennar sem mestan, alltaf haft gaman að lesa og skrifa um fortíð jafnt sem nútíð, t.d. í pólitík og talið mikilvægt að halda ýmsum til haga. Það er mikilvægt að hlúa að þessum þáttum á vegum bæjarins.
Jón Hjaltason hefur ritað nokkur afburðagóð rit af sögu Akureyrarbæjar, rit sem hann á heiður fyrir, enda vönduð og vel úr garði gerð. Það væri vel til fundið að fá Jón eða einhvern annan sögulega þenkjandi mann til að taka þessar upplýsingar saman, sem varla er mikið vandamál, nú eða hreinlega birta meira á vefnum úr bókum Jóns um sögu Akureyrarbæjar, sem reyndar full þörf er á að halda áfram, enda endar saga bæjarins ekki við síðasta bindi Jóns.
Vefur Akureyrarbæjar á að vera stolt okkar og flaggskip hér í kynningu á bænum. Jafnframt þarf að huga þar að sögu bæjarins, sem er merk og áhugaverð. Ungir sem eldri Akureyringar líta oft á vef sveitarfélagsins og þar væri söguhorn vel þegið með öllum öðrum mikilvægum upplýsingum. Þetta eru verkefni sem ber að vinna að við uppstokkun heimasíðu bæjarins sem nú stendur yfir.
Stefán Friðrik Stefánsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.