6.12.2007 | 09:40
Hefur Seðlabankinn verið of linur?
Seðlabankinn hefur það hlutverk samkvæmt lögum að halda verðlagi stöðugu. Hann hefur svokallað verðbólgumarkmið. Til að framfylgja markmiðinu hefur hann fyrst og fremst eitt tæki, vextina. Ef verðbólga er yfir vissum mörkum hækkar hann vexti og ef verðbólga er undir vissum mörkum lækkar hann vexti. Virkar í grunninn frekar einfalt, ekki satt? Og hver er tilgangurinn með þessu? Tilgangurinn er að koma í veg fyrir verðbólgu en það er viðurkennt um allan heim að verðbólga sé eitt versta mein í samfélagi manna. Hún leiðir af sér sóun og verri lífskjör. Það beri því að verjast verðbólgu af öllu afli.
Þetta er það kerfi sem við höfum, við erum með sjálfstæðan fljótandi gjaldmiðil, frjálsa fjármagnsflutninga og sjálfstæðan seðlabanka til að halda gjaldmiðlinum stöðugum. Ýmsir virðast telja að hægt sé að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil en eitthvað annað kerfi en verðbólgumarkmið til að halda honum stöðugum. Slíkt á auðvitað að ræða en engin raunhæf leið hefur þó komið fram sem líkleg er til að vera betri en fljótandi gengi og verðbólgumarkmið. Það virðast eingöngu vera tveir kostir. Annars vegar núverandi kerfi eða þá að henda hinum sjálfstæða gjaldmiðli og nota annan. Um þann möguleika verður ekki rætt hér.
Þrátt fyrir að verðbólgumarkmið sé í eðli sínu einfalt hefur Seðlabankinn legið undir stöðugri gagnrýni fyrir að framfylgja því. Hann hefur verið skammaður fyrir að hækka vexti. Sú gagnrýni er ómakleg. Jafnvel þó að húsnæðisliður sé tekinn úr neysluvísitölunni sést að verðbólga hefur verið töluverð og örugglega meiri ef vextir hefðu verið lægri. Eru þeir sem skammast út í Seðlabankann þá virkilega þeirrar skoðunar að verðbólga sé betri en háir vextir? Við skulum ekki fara í grafgötur með það að mun sársaukafyllra er að stöðva verðbólgu þegar hún er farin af stað heldur en að halda aftur af henni. Viljum við fara aftur í gamla verðbólgusamfélagið?
Það sem má gagnrýna Seðlabankann fyrir er að hann hefur framfylgt verðbólgumarkmiðinu af of mikilli linkind. Hann hefur hækkað vexti of lítið og of seint. Verðbólgumarkmiðið er 2,5% en verðbólga hefur verið fyrir ofan þessi mörk í samfleytt þrjú og hálft ár. Síðastliðin 2 ár hefur verðbólgan nánast alltaf verið meiri en 4%. Þegar þetta er skrifað er hún 5,2%. Ekki er því hægt að álykta annað en lyfjaskammtarnir hafi verið of litlir hingað til. Það er auðvelt að vera vitur eftirá en þó er hægt að benda á ákveðin dæmi um seinagang hjá bankanum. Þann 21. febrúar 2006 byrjaði verðfall á krónunni og hlutabréfum. Þegar krónan fellur er öllum ljóst að verðlag mun hækka fyrr eða síðar. Hvers vegna brást bankinn ekki fljótlega við og hækkaði vexti og það myndarlega? Þess í stað, ef ég man rétt, beið bankinn með hendur í skauti eftir nýrri verðbólguspá og brást síðan við með smáskammtalækningum í marga mánuði eftir atburðina sem kölluðu á aðgerðir. Afleiðingin var að verðbólga fór yfir 8%.
Þessi linkind bankans árið 2006 hefnir sín nú árið 2007. Íbúðaverð hefur haldið áfram að hækka og nú þegar Seðlabankinn er með stýrivexti sem loksins virðast vera farnir að hafa áhrif á íbúðalán eru erfiðleikarnir enn meiri fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Það er erfitt að kaupa 20 mkr íbúð með 6% verðtryggða vexti, en það er enn erfiðara að kaupa eins íbúð á sömu vöxtum þegar hún kostar 23 mkr. Ef bankinn hefði hækkað vexti meira árið 2006 hefði húsnæðisverð líklega hætt að hækka í stað þess að hækka áfram eins og raunin hefur orðið. Það að bíða með sársaukafullar vaxtahækkanir leiðir því einungis af sér enn meiri sársauka síðar.
Síðasta vaxtaákvörðun Seðlabankans sem kom mörgum að óvörum var því rétt. En hvað gerir bankinn næstu vikurnar? Nú er kominn nýr verðbólguþrýstingur, lægra gengi krónunnar og hækkandi eldsneytisverð. Mun hann gera það sama og á síðasta ári, bíða, eða mun hann bregðast við með frekari vaxtahækkun í desember. Mín skoðun er ljós. Ég tel að það felist meiri trúverðugleiki í því að bregðast ákveðið við strax og draga þá í land ef þurfa þykir heldur en að bíða mánuðum sama og bjóða þannig hættunni heim.
Jafnframt er kominn tími til að stjórnvöld leggi loksins sitt lóð á vogarskálarnar. Skilningsleysi þeirra í efnahagsmálum hefur á köflum verið algjört. Má þar nefna hækkað lánshlutfall úr Íbúðalánasjóði og ítrekaðar skattalækkanir á þenslutímum. Í þessum efnum er reyndar núverandi seðlabankastjóri ekki saklaus.
Jón Þorvaldur Heiðarsson
hagfræðingur hjá RHA - Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.