Stormasamt ár Sigrúnar á bæjarstjóravakt

Stefán Friðrik StefánssonÁr er liðið frá því að Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við embætti bæjarstjóra á Akureyri og leiðtogastöðu í Sjálfstæðisflokknum, fyrst kvenna. Þetta hefur verið stormasamt ár fyrir Sigrúnu Björk. Það hefur einkennst umfram allt af klúðri bæjaryfirvalda í skipulagsmálum, óskiljanlegum aldurstakmörkum á tjaldsvæði bæjarins, langvinnum samningaviðræðum um frjálsíþróttaaðstöðu á Þórssvæðinu og langri bið eftir því að tekið verði af skarið með miðbæjarsvæðið og íþróttavöllinn.

Fyrir ári þegar að Sigrún Björk tók við bæjarstjóraembættinu tók hún við með velvild margra og stuðningi. Eftir níu ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs Júlíussonar vildu margir breytingar og flestir bjuggust við að hún yrði ferskur vindblær mikilla breytinga. Persónulega varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum enda átti ég von á að hún yrði sterkari leiðtogi og myndi ekki lenda í svo mörgum leiðindamálum sem raun bar vitni og sem hafa sligað hana í gegnum fyrstu mánuðina. Það fer ekki framhjá neinum að hún er umdeild víða, ekki síður innan eigin flokks en á öðrum vettvangi.

Ég fer ekki leynt með það að ég varð fyrir vonbrigðum með forystu bæjarstjórans og okkar sjálfstæðismanna í tjaldsvæðamálinu. Þá skrifaði ég gegn ákvörðun bæjarstjórans, enda gat ég ekki varið hana. Það vann gegn pólitískum hugsjónum mínum að banna sjálfráðu fólki aðgang að tjaldsvæðum hér í bænum. Enda gat ég ekki betur séð en að ákvörðunin væri tekin í andstöðu við meirihluta bæjarstjórnar á Akureyri. Það var mál sem ég gat ekki varið og ég verð að viðurkenna að ég íhugaði í kjölfarið hverjar pólitískar hugsjónir bæjarstjórans og bæjarfulltrúanna voru.

Skipulagsmálin voru vont klúður auk þess og fleira mætti nefna. Þetta var heitt ár og margar vitlausar ákvarðanir voru teknar. Það er freistandi að halda að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri hafi lært sína lexíu á þeim ákvörðunum og muni geta rétt kúrsinn og leitt mál betur á næsta ári, en var á árinu sem var að líða. Ég hef lengi unnið í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri, en ég mun aldrei verja það sem ég tel rangt og að mínu mati var tjaldsvæðamálið mesta klúður síðasta árs í bæjarmálunum og vonandi verður horft í aðrar áttir með mál næst.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að þessi meirihluti hafi verið bragðdaufur og hægvirkur. Þar skiptir sköpum að aðeins tveir bæjarfulltrúar meirihlutans höfðu reynslu af því að vera aðalmenn í bæjarstjórn áður; bæjarstjórarnir Kristján Þór og Sigrún. Hin hafa slípast misvel til og hafa verið að læra að synda úti í straumþungum sjónum. Það tekur oft á, jafnvel fyrir duglegt fólk. Það getur tekið mismikinn tíma. Sumir í þessum hópi eru misvel syntir eftir árið, sumir enn að læra tökin og enn efasemdir um hvernig að þeim takist upp. Það reynir á þá á þessu ári er tímabilið er hálfnað.

Persónulega varð ég fyrir mestum vonbrigðum með bæjarstjórann síðla árs er hún skrifaði Morgunblaðsgrein gegn Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Það voru mikil pólitísk mistök og ég vona að bæjarstjórinn hafi lært eitthvað á því. Með þeim skrifum var hún að senda þau skilaboð til ungra sjálfstæðismanna í bænum að hún þurfi ekki á okkur að halda og geti farið fram í kosningum eða prófkjöri án okkar hjálpar. Eftir stuðning minn og fleiri ungra sjálfstæðismanna við Sigrúnu Björk í gegnum árin var greinin okkur áfall, sem hún verður að bæta fyrir.

Staða Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er athyglisverð nú á þessari stundu. Bæjarstjórinn Sigrún Björk Jakobsdóttir og kjördæmaleiðtoginn Kristján Þór Júlíusson hafa sterka stöðu hér í bænum að því er virðist. Þrátt fyrir það er bæjarstjórinn að klára þriggja ára bæjarstjóraferil sem fyrst var eyrnamerktur Kristjáni Þór og kjördæmaleiðtoginn varð hvorki ráðherra né nefndaformaður í kapal flokksins í maímánuði. Það er því ljóst að í júní 2009 hefur flokkurinn hér hvorki lykilembætti sem fylgja setu í ríkisstjórn eða því að stjórna bænum úr Ráðhúsinu, að óbreyttu.

Það eru eflaust margir hugsi yfir því, sérstaklega þeir sjálfstæðismenn sem lengst hafa unnið hér á Akureyri í flokksstarfinu og þekkja innviðina þar mest og best. Fyrir Sigrúnu Björk var þetta erfitt ár, það blasir við öllum, hún þarf að reka af sér sliðruorðið og sýna sjálfstæðismönnum að hún sé leiðtogi sem geti farið í kosningar og leitt liðsheild af visku og krafti. Í þeim efnum þarf hún að sýna betri diplómatahæfileika og stjórnvisku, en ekki einhliða keyrslu á bensínlausum bíl. Um þetta er spurt umfram allt.

Sigrún Björk Jakobsdóttir er hin vænsta kona, en er á hólminn kemur þarf hún að sýna leiðtogahæfileika til að verða sá leiðtogi sem getur verið sigursæll fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri. Það vantar enn upp á það hjá henni að hún hafi náð að byggja sig upp sem sterkan leiðtoga og það hefur ekki reynt á það á þessu ári af neinu viti að hún geti það. Það verður áhugavert að fylgjast með verkum bæjarstjórans og forystu hennar á árinu.

Stefán Friðrik Stefánsson

Hefur Seðlabankinn verið of linur?

nullSeðlabankinn hefur það hlutverk samkvæmt lögum að halda verðlagi stöðugu.  Hann hefur svokallað verðbólgumarkmið.  Til að framfylgja markmiðinu hefur hann fyrst og fremst eitt tæki, vextina.  Ef verðbólga er yfir vissum mörkum hækkar hann vexti og ef verðbólga er undir vissum mörkum lækkar hann vexti. Virkar í grunninn frekar einfalt, ekki satt?  Og hver er tilgangurinn með þessu?  Tilgangurinn er að koma í veg fyrir verðbólgu en það er viðurkennt um allan heim að verðbólga sé eitt versta mein í samfélagi manna.  Hún leiðir af sér sóun og verri lífskjör.  Það beri því að verjast verðbólgu af öllu afli.

 

Þetta er það kerfi sem við höfum, við erum með sjálfstæðan fljótandi gjaldmiðil, frjálsa fjármagnsflutninga og sjálfstæðan seðlabanka til að halda gjaldmiðlinum stöðugum.  Ýmsir virðast telja að hægt sé að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil en eitthvað annað kerfi en verðbólgumarkmið til að halda honum stöðugum.  Slíkt á auðvitað að ræða en engin raunhæf leið hefur þó komið fram sem líkleg er til að vera betri en fljótandi gengi og verðbólgumarkmið.  Það virðast eingöngu vera tveir kostir.  Annars vegar núverandi kerfi eða þá að henda hinum sjálfstæða gjaldmiðli og nota annan.  Um þann möguleika verður ekki rætt hér.

 

Þrátt fyrir að verðbólgumarkmið sé í eðli sínu einfalt hefur Seðlabankinn legið undir stöðugri gagnrýni fyrir að framfylgja því.  Hann hefur verið skammaður fyrir að hækka vexti.  Sú gagnrýni er ómakleg.  Jafnvel þó að húsnæðisliður sé tekinn úr neysluvísitölunni sést að verðbólga hefur verið töluverð og örugglega meiri ef vextir hefðu verið lægri.  Eru þeir sem skammast út í Seðlabankann þá virkilega þeirrar skoðunar að verðbólga sé betri en háir vextir?   Við skulum ekki fara í grafgötur með það að mun sársaukafyllra er að stöðva verðbólgu þegar hún er farin af stað heldur en að halda aftur af henni.  Viljum við fara aftur í gamla verðbólgusamfélagið?

 

Það sem má gagnrýna Seðlabankann fyrir er að hann hefur framfylgt verðbólgumarkmiðinu af of mikilli linkind.  Hann hefur hækkað vexti of lítið og of seint.  Verðbólgumarkmiðið er 2,5% en verðbólga hefur verið fyrir ofan þessi mörk í samfleytt þrjú og hálft ár.  Síðastliðin 2 ár hefur verðbólgan nánast alltaf verið meiri en 4%.  Þegar þetta er skrifað er hún 5,2%.  Ekki er því hægt að álykta annað en lyfjaskammtarnir hafi verið of litlir hingað til.  Það er auðvelt að vera vitur eftirá en þó er hægt að benda á ákveðin dæmi um seinagang hjá bankanum.  Þann 21. febrúar 2006 byrjaði verðfall á krónunni og hlutabréfum.  Þegar krónan fellur er öllum ljóst að verðlag mun hækka fyrr eða síðar.  Hvers vegna brást bankinn ekki fljótlega við og hækkaði vexti og það myndarlega?  Þess í stað, ef ég man rétt, beið bankinn með hendur í skauti eftir nýrri verðbólguspá og brást síðan við með smáskammtalækningum í marga mánuði eftir atburðina sem kölluðu á aðgerðir.  Afleiðingin var að verðbólga fór yfir 8%.

 

Þessi linkind bankans árið 2006 hefnir sín nú árið 2007.  Íbúðaverð hefur haldið áfram að hækka og nú þegar Seðlabankinn er með stýrivexti sem loksins virðast vera farnir að hafa áhrif á íbúðalán eru erfiðleikarnir enn meiri fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.  Það er erfitt að kaupa 20 mkr íbúð með 6% verðtryggða vexti, en það er enn erfiðara að kaupa eins íbúð á sömu vöxtum þegar hún kostar 23 mkr.  Ef bankinn hefði hækkað vexti meira árið 2006 hefði húsnæðisverð líklega hætt að hækka í stað þess að hækka áfram eins og raunin hefur orðið.  Það að bíða með sársaukafullar vaxtahækkanir leiðir því einungis af sér enn meiri sársauka síðar.

 

Síðasta vaxtaákvörðun Seðlabankans sem kom mörgum að óvörum var því rétt.  En hvað gerir bankinn næstu vikurnar?  Nú er kominn nýr verðbólguþrýstingur, lægra gengi krónunnar og hækkandi eldsneytisverð.    Mun hann gera það sama og á síðasta ári, bíða, eða mun hann bregðast við með frekari vaxtahækkun í desember.  Mín skoðun er ljós.  Ég tel að það felist meiri trúverðugleiki í því að bregðast ákveðið við strax og draga þá í land ef þurfa þykir heldur en að bíða mánuðum sama og bjóða þannig hættunni heim. 

 

Jafnframt er kominn tími til að stjórnvöld leggi loksins sitt lóð á vogarskálarnar.  Skilningsleysi þeirra í efnahagsmálum hefur á köflum verið algjört.  Má þar nefna hækkað lánshlutfall úr Íbúðalánasjóði og ítrekaðar skattalækkanir á þenslutímum.  Í þessum efnum er reyndar núverandi seðlabankastjóri ekki saklaus.

Jón Þorvaldur Heiðarsson
hagfræðingur hjá RHA - Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri



Gefum sögunni meiri gaum á vef bæjarins

Fram kom í máli Elínar Margrétar Hallgrímsdóttur, formanns Akureyrarstofu, í framsöguræðu um málaflokk sinn á bæjarstjórnarfundi nýlega að framundan væri vinna við algjöra uppstokkun heimasíðu Akureyrarbæjar. Þar á að skipta heimasíðunni upp í allt að þrjá til fjóra vefi, sem valið sé úr, þar verði t.d. sérstakur vefur með kynningu á bænum fyrir þá sem hafa í hyggju að ferðast hingað til Akureyrar og njóta þar lífsins og svo fyrir bæjarbúa sem vilja kynna sér það sem er að gerast í bænum, grunnmál og stöðu þeirra.

Þetta er svo sannarlega gott og blessað. Þó að vefur Akureyrarbæjar hafi alla tíð að mínu mati verið stórglæsilegur, upplýsandi og vandaður, í raun í fararbroddi vefsetra sem er á vegum íslensks sveitarfélags hefur mér alltaf fundist hann eiginlega ofhlaðinn. Kannski kippast einhverjir við þegar að ég segi þetta en ég segi það samt. Mér finnst sumar upplýsingar of flóknar að finna og vefurinn er stundum of mikið völundarhús er leita þarf snöggt að ýmsu smálegu sem oft blasir ekki við. Ég hef heyrt á fleirum að þeir upplifa hið sama.

Með einföldun vefsíðunnar og að skipta henni upp í nokkur svið sem hver og einn velur úr er betra að tína fram lykilpunkta þess sem fólk vill skoða með heimsókninni á vef Akureyrarbæjar. Að mjög mörgu leyti er heimasíða Akureyrarbæjar andlit bæjarins. Vefurinn þarf að vera svalur frontur stjórnsýslu, afþreyingar, upplýsinga og lykilpunkta, bæði fyrir þá sem búa í bænum og vilja kynna sér betur málefni sveitarfélagsins og eins þess sem er í ferðahug hingað norður. Við eigum að sinna öllum hliðum, því vefurinn á ekki bara að þjónusta mig og þig á Akureyri heldur líka þann sem vill heimsækja okkur, jafnvel í sumar, hver veit.

Mér finnst hafa tekist vel til með stofnun Akureyrarstofu. Þar eru undir sama hætti markaðs-, menningar- og ferðamál Akureyrarbæjar og mun hún aðallega einbeita sér að Akureyri en verða vissulega jafnframt þátttakandi í samvinnuverkefnum hér í Eyjafirði og annars staðar. Elín Margrét fór vel yfir öll þau mál í framsögu sinni á fundinum og þakka ég henni greinargóða umfjöllun. Eitt finnst mér þó vanta og það stórlega. Það er að hlúa betur að sögu Akureyrarbæjar, á netinu, og það auðvitað á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Að mínu mati væri vel til fundið að safna saman á vef bæjarins samantekt um bæjarstjóra í sögu Akureyrarbæjar, bæjarfulltrúa í langri sögu sveitarfélagsins og heiðursborgara Akureyrarbæjar. Þetta er umfjöllun sem hvergi er til staðar. Ég hef alla tíð verið aðdáandi sögunnar og viljað veg hennar sem mestan, alltaf haft gaman að lesa og skrifa um fortíð jafnt sem nútíð, t.d. í pólitík og talið mikilvægt að halda ýmsum til haga. Það er mikilvægt að hlúa að þessum þáttum á vegum bæjarins.

Jón Hjaltason hefur ritað nokkur afburðagóð rit af sögu Akureyrarbæjar, rit sem hann á heiður fyrir, enda vönduð og vel úr garði gerð. Það væri vel til fundið að fá Jón eða einhvern annan sögulega þenkjandi mann til að taka þessar upplýsingar saman, sem varla er mikið vandamál, nú eða hreinlega birta meira á vefnum úr bókum Jóns um sögu Akureyrarbæjar, sem reyndar full þörf er á að halda áfram, enda endar saga bæjarins ekki við síðasta bindi Jóns.

Vefur Akureyrarbæjar á að vera stolt okkar og flaggskip hér í kynningu á bænum. Jafnframt þarf að huga þar að sögu bæjarins, sem er merk og áhugaverð. Ungir sem eldri Akureyringar líta oft á vef sveitarfélagsins og þar væri söguhorn vel þegið með öllum öðrum mikilvægum upplýsingum. Þetta eru verkefni sem ber að vinna að við uppstokkun heimasíðu bæjarins sem nú stendur yfir.

Stefán Friðrik Stefánsson


Hálfur mánuður til kosninga - spenna í Norðaustri

Það styttist óðum í alþingiskosningar. Eftir hálfan mánuð kjósum við þingmenn Norðausturkjördæmis næstu fjögur árin. Skoðanakannanir gefa til kynna ýmsar breytingar og áhugaverðar pælingar á breytingum á stöðu flokka og framboða frá kosningunum 2003. Það stefnir fyrirfram séð í nokkrar breytingar burtséð frá því sem getur gerst á kjördag, 12. maí, en þrír sitjandi þingmenn draga sig í hlé í þessum kosningum; Halldór Blöndal, Jón Kristjánsson og Dagný Jónsdóttir. Tómas Ingi Olrich, sem kjörinn var á þing í kosningunum 2003, baðst lausnar frá þingsetu í árslok 2003.

Þetta eru aðrar kosningar þessa nýja kjördæmis. Síðast gekk upp og ofan fyrir flokka að bindast þeim böndum sem mikilvægust voru og vissir byrjunarörðugleikar voru til staðar. Þeir eru mun síður til staðar og heilt yfir eru svæðin orðin eitt, þó þetta sé auðvitað mjög víðfeðmt og landfræðilega séð erfitt kjördæmi yfirferðar, enda liggur það frá Siglufirði í norðri til Djúpavogs í austri. Þeir sem vinna því sem þingmenn svæðisins þurfa því að leggja mikil ferðalög á sig svo vel eigi að takast að vera í góðu sambandi við kjósendur og flokksfélaga sína.

Margir hafa spurt sig hvort þessi kjördæmaskipan hafi gengið upp. Að sumu leyti hefur hún tekist vel - að öðru leyti ekkert sérstaklega eða hreinlega illa. Heilt yfir er þetta þó orðið furðanlega gott og heilsteypt þannig séð. Margir hafa spurt sig hvort önnur mynd á kjördæmi á svæðinu hefði verið betri. Ég var þeirrar skoðunar er kjördæmabreytingin var gerð fyrir sjö til átta árum að Norðurland ætti að verða eitt, sameina ætti Norðurland eystra og vestra. Þá hefði myndast sterkt norðlenskt kjördæmi á Norðurlandi með Akureyri sem grunnmiðpunkt.

Það gerðist illu heilli ekki. Sú skoðun var byggð á því að með því hefðu lík svæði á sömu slóðum orðið eitt og Akureyri hefði orðið sterkur miðpunktur kjördæmis á Norðurlandi. Þess í stað erum við með dreifðari kjördæmi og ólíkari svæðisheildar. En það hefur eins og fyrr segir tekist að binda þau sterkum böndum og gömlu kjördæmamörkin sem voru svo heimakær í huga margra kjósenda í kjördæminu eru óðum að gufa upp. Enda á hagur fólks á Reyðarfirði að skipta okkur á Akureyri máli og um leið öfugt auðvitað. Þetta er ein sterk heild.

Framboðsfrestur er liðinn í Norðausturkjördæmi eins og annarsstaðar um landið. Sjö framboðslistar verða í kjöri eftir hálfan mánuð; B-listi Framsóknarflokks, D-listi Sjálfstæðisflokks, E-listi Baráttusamtakanna, F-listi Frjálslynda flokksins, Í-listi Íslandshreyfingarinnar, S-listi Samfylkingarinnar og V-listi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Leiðtogar listanna eru Valgerður Sverrisdóttir, Kristján Þór Júlíusson, María Óskarsdóttir, Sigurjón Þórðarson, Hörður Ingólfsson, Kristján L. Möller og Steingrímur J. Sigfússon.

Mikil spenna er auðvitað yfir því hvaða flokkur verði stærstur og hvaða leiðtogi verði fyrsti þingmaður kjördæmisins. Valgerður Sverrisdóttir hefur verið fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis allt frá stofnun þess árið 2003, þetta eina kjörtímabil þess. Skoðanakannanir gefa henni ekki góð fyrirheit um að halda þeim sess. Mestar líkur eru á því að Kristján Þór hljóti þann sess eftir fjórtán daga. En það er auðvitað ljóst að kannanir segja aldrei alla söguna. Það sást vel á lokaspretti kosningabaráttunnar 2003 er staðan breyttist á tíu dögum.

Við í Pollinum höfum hist vikulega til að ræða stjórnmálin. Við höfum boðið leiðtogum flokkanna sem nú eiga sæti á Alþingi að mæta á fund til okkar og ræða stjórnmálin frá víðum hliðum. Það hafa verið ánægjulegir fundir. Steingrímur J, Kristján Möller, Valgerður og Kristján Þór hafa þegið það boð og haft áhuga á að mæta. Enn á Sigurjón Þórðarson eftir að mæta en hann mun væntanlega koma á fund áður en kjördagur rennur upp og fara yfir málefni kjördæmisins. Hafa þessir fundar verið áhugaverðir og gagnlegir, nýst mjög vel í að hugsa um málefni kjördæmisins.

Það verður athyglisvert hvernig kosningarnar fara og hver staðan verður eftir 13. maí. Ennfremur verður áhugavert hverjir myndi ríkisstjórn. Það verður athyglisvert hvort einhverjir flokksleiðtogar frá Norðausturkjördæmi verði ráðherrar í ríkisstjórn. Heldur verður það að teljast líklegt. Við upphaf tímabilsins urðu Valgerður Sverrisdóttir, Jón Kristjánsson og Tómas Ingi Olrich ráðherrar í ríkisstjórn og Halldór Blöndal var forseti Alþingis. Nú er aðeins Valgerður Sverrisdóttir með ráðherraígildi, en hún er vissulega valdamesti stjórnmálamaður svæðisins.

Það hlýtur að vera hugsað hærra. Það skiptir máli að ráðherrar komi héðan, ráðherrar með völd til að vinna af krafti í stjórnmálabaráttu, vinna að hagsmunum svæðisins. Það blasir við að atvinnu- og samgöngumál eru málefni kosningabaráttunnar hér, jafnvel mun frekar nú en áður. Samgöngumálin drottna mjög yfir, enda er þetta víðfeðmt kjördæmi og góðar samgöngur eru mikilvægar hinum dreifðu byggðum.

Það er mjög mikilvægt að einhver þessara leiðtoga, helst fleiri en einn, komist í gullna aðstöðu til að hafa lykiláhrif til hins góða. Þá reynir á öll fögru fyrirheitin og gullnu loforðin.

Stefán Friðrik Stefánsson


Þeir sem vilja taka þátt í greinaskrifum á Pollinum og leggja vefnum lið með virkri þátttöku eða kom á fundi eru eindregið hvattir til að senda tölvupóst á stebbifr@simnet.is og fá upplýsingar um starfið.


Sóun í bjórflutningum, til hvers?

Við Íslendingar eigum sem betur fer nóg að neysluhæfu vatni um allt land.  Það er því ekki sýnileg þörf á því að keyra vatni á flutningabílum milli landshluta.  Hvað þá að keyra með sama vatnið fram og til baka yfir hálft landið.  Hljómar vissulega fáránlega en þrátt fyrri það má segja að þetta sé einmitt gert.

Bjór er að mestu vatn.  Hann er m.a. bruggaður í Eyjafirði bæði af Vífilfelli og Kalda.

Þessar framleiðsluvörur mega þó Norðlendingar ekki kaupa fyrr en búið er að aka með þær til Reykjavíkur og aftur til baka.  Fyrst ekur framleiðandinn vörunum til Reykjavíkur og síðan ekur ÁTVR þeim til baka.  Til hvers?  Ja, kerfið er bara þannig.  Er þetta ekki sóun á fé?  Varla er þessi 800 km flutningur á nokkur hundruð tonnum á ári ókeypis?

Nei auðvitað kostar hann sitt.  Eykur þetta ekki mengun, álag á vegakerfið og slysahættu?  Jú vissulega.  Skekkir þetta ekki samkeppnisstöðu bjórframleiðenda í Reykjavík annars vegar og á Norðurlandi hins vegar?  Jú, það er augljóst.  Er þetta þá ekki hámark fáránleikans?  Jú eiginlega, en kerfið er bara svona. 

Til að setja þennan fáránleika í annað ljós getum við spurt okkur hvort skynsamlegt væri að aka með alla þá mjólk sem framleidd er í Eyjafirði til Reykjavíkur og síðan aftur til baka áður en hún kæmi í búðir á Akureyri.

En hvað er þá til ráða til að minnka sóunina?  Margir vilja leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum og myndi það án efa minnka óþarfan flutning.  Ef við höldum okkur hins vegar við núverandi sölufyrirkomulag er lausnin sem liggur beinast við sú að ÁTVR haldi ekki einungis birgðastöð í Reykjavík heldur einnig á Akureyri.  Birgjar ÁTVR gætu þá ráðið á hvorum staðnum þeir afhentu vöru sína.  Frá birgðastöðinni á Akureyri væri síðan dreift til vínbúða á Norðurlandi og Austurlandi sem og til birgðastöðvar í Reykjavík.

Ef við tökum bjórinn Kalda sem dæmi sem framleiddur er á Árskógsströnd þá er líklegt að framleiðendur hans veldu að afhenda hann á Akureyri.  Þaðan færi hann í vínbúðir í heimahéraði þar sem neysla hans er eðlilega mest.  Frá birgðastöðinni á Akureyri væri jafnframt flutt til birgðastöðvarinnar í Reykjavík og frá henni í vínbúðir frá Höfn í Hornafirði til Ísafjarðar.  Með þessu færi bjórinn mun styttri leið til neytandans en nú.  Samkeppnisstaða jafnaðist, ekki einungis meðal bjórframleiðenda heldur einnig meðal víninnflytjenda.

Sem borgari þessa lands geri ég hér með þá kröfu að núverandi kerfi verði stokkað upp og sóun sem felst í óþarfa flutningi verði stöðvuð.  Auðvitað ætti frumkvæðið í þessum efnum að koma frá ÁTVR en einnig er mikilvægt að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir ástandinu og þrýsti á um úrbætur.  Þetta er jú verslun í eigu okkar Íslendinga.


Auk þessa legg ég til að vínbúðin á Akureyri verði hækkuð í tign upp í glæsilega reynslusölubúð með upp undir 2000 tegunda úrvali.  En það er efni í annan pistil.

Jón Þorvaldur Heiðarsson


Páskar á Akureyri

Við Akureyringar erum ánægðir með páskaævintýrið, hingað kom fjöldi gesta til að njóta þess besta sem bærinn hefur upp á að bjóða. Margir koma til að heilsa upp á ættingja og vini en njóta í senn útiveru í Hlíðarfjalli, synda, fara í leikhús, á listsýningar eða tónleika. Hér er allt til alls, góð aðstaða á flestum sviðum, hótel, gistiheimili, frábærir veitingastaðir og góðir skemmtistaðir auk hverskonar verslunarstarfsemi.

Akureyri hefur sterkan prófíl og er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Talið er að rúmlega 200.000 ferðamenn sæki bæinn heim á hverju ári. Auglýsingaherferð bæjaryfirvalda með slagorðinu „Akureyri, öll lífsins gæði“ heppnaðist vel og náði eyrum landsmanna. Ráðamenn, bæjarfulltrúar og embættismenn, hafa unnið þarft verk, sett sér markmið og unnið að framgangi margra góðra mála sem við nú njótum ávaxtanna af.

Lykillinn að velgengninni er þó ávallt frumkvæði fólksins sem með hugkvæmni sinni og sérþekkingu setur sér háleit markmið og kemur hlutunum í framkvæmd. Það voru útivistar- og íþróttamenn sem unnu mikilvægt frumkvöðlastarf þegar þeir með vinnu sinni lögðu grunn að skíðamiðstöð í Hlíðarfjalli, komu sundlaug fyrir upp af Grófargili og íþróttaáhugamenn sem stofnuðu íþróttafélögin KA og Þór. Það var fyrir forgöngu kvenna sem Lystigarðinum var komið á fót og Listagilið hefði ekki orðið að veruleika nema vegna baráttu listamanna sem trúðu á málstaðinn og létu ekki deigan síga. Verkefnið Akureyri í öndvegi er nýlegt dæmi um það hvernig hugkvæmni og eindrægni hugsjónarmanna getur leist úr læðingi kraft heils samfélags og sameinað ólíka hagsmunaaðila til að stefna að settu marki.

Ef farið verður eftir niðurstöðu hugmyndasamkeppninnar sem Akureyri í öndvegi stóð fyrir mun ásýnd miðbæjarins gjörbreytast og aðstaða fyrir ferðamenn batna til muna. Þar mun verða sólríkara og betra skjól fyrir norðanáttinni sem mun auðga mannlífið í bænum og styðja við þá starfsemi sem fyrir hendi er í nágrenninu. Auðvitað verðum við að kunna fótum okkar forráð og það er ekki sama hvernig við stöndum að uppbyggingu miðbæjarins.

Aftur að listviðburðum á páskum. Ég get ekki látið hjá líða að geta stórkostlegra tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Glerárkirkju á skírdag. Hljómsveitin flutti verk eftir Ludvig van Beethoven og Max Bruch undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Tónleikarnir hófust með því að hljómsveitin spilaði „Coriolan” forleik eftir Beethoven og síðan konsert í g-moll fyrir fiðlu og hljómsveit. Ari Þór Vilhjálmsson lék einleik á fiðlu stóð sig frábærlega. Eftir hlé var komið að flutningi á einu þekktasta tónverki sögunnar nefnilega Örlagasinfóníunni, sem hljómsveitin spilaði af miklum krafti og hreif tónleikagesti með sér. Eftirminnilegir tónleikar en ég hlakka mikið til að hlusta á Sinfóníuhljómsveit Norðurlands leika í Hofinu, menningarhúsinu okkar þegar það verður tilbúið.

Það var fjölbreytt tilboð á afþreyingu og list á Akureyri páskadagana, góðar leiksýningar, tónleikar og myndlistarsýningar. Það vekur þó sérstaka athygli hve margar myndlistarsýningum hafa verið opnaðar á síðustu misserum. Það er mikil gróska í myndlist á Akureyri og víða metnaður til að láta gott af sér leiða í þeim efnum. Starfræksla JV gallery hefur verið til fyrirmyndar og margar athyglisverðar sýningar hafa ratað í BOXið og Populus Tremula sem er neðanjarðargalleríið á svæðinu. Gallerý + og DaLí gallerí í Brekkugötunni láta ekki sitt eftir liggja.

Á Kaffi Karólínu hefur myndlistin lengi átt skjól og nú er svo komið að vertinn hefur ákveðið að opna kaffihúsið framvegis kl. 10 á morgnana virka daga. Mikil bót af því fyrir viðskiptavini.

Helgi Vilberg

Er barátta landsbyggðarinnar vonlaus?

Í byggðaáætlun eru mest notuðu frasarnir "leitast skal við" og "stefnt skal að". Staðreyndin er sú að stjórnmálamenn hafa gefist upp og þeir hafa það eina markmið að friðþægja almenning á landsbyggðinni. Þeir vona að almenningur sé það dofinn eftir málskrúðið að hann sætti sig við ástandið og kjósi fulltrúa stjórnmálaflokkanna aftur í næstu kosningum.

Vandamálið er að stjórnmálamennirnir eru sjálfir farnir að trúa því að það séu engar lausnir á vanda landsbyggðarinnar. Uppgjöf er orðið sem lýsir best hugmyndafræði íslenskra stjórnmálaflokka hvað varðar málefni landsbyggðarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé vonlaust að tryggja til lengri tíma að öll byggðalög geti vaxið og dafnað. Þess vegna hef ég verið hrifinn af þeirri hugmynd að ákveðin byggðalög séu efld þannig að þau geti verið raunhæfur valkostur fyrir ungt fólk til þess að velja sér búsetu á. Í þessu sambandi hefur oft verið talað um að Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði og það ef byggð á þessum stöðum er öflug að þá muni það einnig geta styrkt staði sem eru í næsta nágrenni.

Nú er svo komið að meira að segja þessir staðir sem ég nefni eru í vörn. Á síðasta ári fjölgaði Akureyringum um hálft prósent en reynslan í lýðfræðum segir okkur að það dugar ekki til lengri tíma því að þetta lítill vöxtur þýðir að íbúarnir eru að eldast og það þýðir á endanum að þeim fækkar.

Ég hef lengi talað fyrir því að það sé í raun bara tvennt sem hægt er að gera til þess að tryggja framtíð byggðar á landsbyggðinni. Annars vegar er hægt að fara út í róttækar breytingar eða gefast upp. Núverandi smáskammtalækningar sem allir íslenskir stjórnmálaflokkar bjóða upp á í sinni kosningabaráttu fyrir komandi kosningar flokkast að mínu máti undir seinni kostinn.

En hvað á ég við með róttækar breytingar? Það þarf að gera breytingar sem hafa áhrif á grundvallar efnahagslegar forsendur á landsbyggðinni. Það þarf að gera breytingar á sköttum, peningastefnu, tollum, menntun og samgöngum sem henta aðstæðum á landsbyggðinni.

Nú vil ég ekki að fólk haldi að ég vilji að ríkissjóður sé opnaður og milljörðum dælt úr kassanum út á land þvert á móti þá vil ég gjarnan að hið opinbera dragi úr sýnum útgjöldum almennt enda er talið að Eyjafjarðarsvæðið eitt greiði a.m.k. 8 miljarða á ári í skatta sem ekki skila sér til baka í formi opinberrar þjónustu. Ég vil að reglum og lögum sé breytt þannig að landsbyggðin eigi sanngjarna möguleika á að fá að þróast.

Það ber að hafa í huga að nánast allar aðgerðir sem stjórnvöld fara út í hafa mismunandi áhrif á íbúa landsins eftir því hvar þér búa. Til að taka dæmi þá er það markmiðið nú að fella niður skatta söluhagnaði sem er að mínu mati góð hugmynd en við verðum að horfast í augu við það að þetta er aðgerð sem er gerð fyrst og fremst fyrir ákveðna atvinnugrein sem er fyrst og fremst staðsett á
ákveðnu landsvæði þ.e. þetta er sértæk byggðaaðgerð sem gagnast fyrst og fremst
Reykjavíkursvæðinu en ekki landsbyggðinni.

Breytingar á reglum um virðisaukaskatt sem auðveldar opinberum fyrirtækjum að úthýsa þjónustu til einkafyrirtækja er aðgerð sem mundi aftur á móti gefa landsbyggðinni hlutfallslega meiri ávinningi en höfuðborgarsvæðinu.

Flestar aðgerðir sem stjórnvöld taka til eru í reynd sértækar byggðaaðgerðir. Sundabraut er sértæk byggðaaðgerð, hátæknisjúkrahús í Vatnsmýrinni er sértæk byggðaaðgerð svo eitthvað sé nefnt. Þegar stjórnmálamenn töluðu um að tími sértækra byggðaaðgerða væri liðinn var þá eingöngu verið að tala að sértækar aðgerðir sem eru landsbyggðinni til hagsbóta? Svo er minnsta kosti að skilja ef taka á mark á gerðum stjórnmálamanna.

Góðu fréttirnar eru að landsbyggðarvandinn er hægt og rólega að leysast af sjálfu sér því að á eftir 50 ár verður hér ekkert nema sumarhúsabyggð.

Gísli Aðalsteinsson

Ekki eru allir á eitt sáttir um merkingu orðsins "þjóðareign"

Ósköp er raunalegt að horfa upp á formenn stjórnarflokkana reyna að réttlæta nauðsyn þess að Alþingi samþykki að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um að náttúruauðlindir verði þjóðareign. Fyrir skömmu mátti skilja á Geir H. Haarde forsætisráðherra að varhugavert væri að leggja til þess konar breytingar nema að vandlega yfirveguðu máli. Hvað breyttist?

Staðreyndin er sú að ekki eru allir á eitt sáttir um það hvað hugtakið „þjóðareign“ felur í sér. Áttu formenn stjórnar flokkanna virkilega von á því að þingmenn stjórnarandstöðu flokkanna klöppuðu þeim lof í lófa og legðust á sveif með þeim í þessum leiðangri?

Ályktun Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, er tímabær og sjálfsagt að taka undir niðurlagsorðin: „Lýsir félagið þeirri skoðun, að nýting auðlinda sé almennt betur komin í höndum einstaklinga en ekki stjórnmálamanna.“

Helgi Vilberg


Hver mun stjórna Akureyrarstofu?

33 umsóknir voru um stöðu framkvæmdastjóra Akureyrarstofu, markaðs-, menningar- og ferðamálaskrifstofu Akureyrarbæjar. Átök voru á milli meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar fyrir nokkrum vikum um það hvort auglýsa ætti starfið. Lagðist bæjarfulltrúi Samfylkingar, sem situr í stjórn Akureyrarstofu, gegn því mati formannsins í nefndinni að auglýsa stöðuna. Voru átök uppi milli fulltrúa flokkanna þar til þeir náðu loks samkomulagi eftir sérstakan sáttafund leiðtoga meirihlutaflokkanna með nefndarmönnunum.

Fjöldi umsækjenda segir allt sem segja þarf um það að mikill áhugi er fyrir verkefninu. Hjá Akureyrarstofu eru enda mörg spennandi tækifæri og eðlilegt að fjöldi fólks vilji eiga möguleika á að stýra slíku starfi. Það að ekki hafi verið samstaða í upphafi um að auglýsa starfið vakti athygli og umræðu stjórnmálaáhugamanna í bænum. Það á að sjálfsögðu að vera algjört grunnmál að svona stöður séu auglýstar lausar til umsóknar, sérstaklega við þessar aðstæður, enda er með því landslagið skannað og athugað hverjir hafi áhuga á stöðunni, sem er ný.

Fjöldi mjög hæfra einstaklinga sækir um þessa stöðu. Það ætti því ekki að vera vandamál að velja hæfan einstakling til verka við að stjórna Akureyrarstofu. Þarna eru bæði einstaklingar innan og utan bæjarkerfisins og verður fróðlegt að sjá hver fái hnossið. Ég er þess fullviss að Akureyrarstofa muni hlúa að þeim þáttum vel sem henni er ætlað og hún mun marka góðan grunn í menningar- og markaðsmálum hér í sveitarfélaginu.

Miklu máli skiptir hver muni halda á verkefninu. Fyrst og fremst gleðst ég yfir því að framkvæmdastjórastaðan var auglýst. Allt annað hefði verið óeðlilegt verklag og undraðist ég mjög að Samfylkingin hafi verið mótfallin því í fyrstu að leyfa fólki úr ólíkum áttum að sýna áhuga á að stjórna þessum verkefnum. En það er gleðiefni að Samfylkingin skipti um skoðun.

Nú verður fróðlegast að sjá hvern meirihlutinn velji úr fjölbreyttum umsækjendahópi til að halda utan um metnaðarfull verkefni í málaflokkunum sem marka Akureyrarstofu. Hvort leitað verði inn í bæjarkerfið eður ei.

Stefán Friðrik Stefánsson

Er ESB lausn á vanda landsbyggðar?

Athyglisvert er að peningastefna Seðlabankans virðist ganga í berhögg við lítinn hagvöxt á landsbyggðinni. Þensla undangenginna ára er að mest á Austurlandi og höfuðborgasvæði. Háir vextir eru því mjög íþyngjandi fyrir almenning og smáfyrirtæki á landsbyggðinni. Flest stærri fyrirtæki og sveitarfélög hafa tekið erlend lán. Þeir sem ekki eiga kost á slíkum lánum eru helst almenningur og smærri fyrirtæki. Það væri því mikil kjarabót fyrir þessa aðila að komast í myntbandalag Evrópu og taka upp Evru að því gefnu að erlendar fjármálastofnanir myndu lána einstaklingum á landsbyggðinni.

Byggðaþróunarsjóðir Evrópusambandins

Líklega myndi aðild að ESB færa landsbyggðarsvæðum mun meiri ávinning en höfuðborgarsvæðinu. Það tengist Byggðaþróunarsjóðum ESB (The European Regional Development Fund). Þeir eru ásamt landbúnaðarstefnunni ein af meginstoðum sambandsins. Markmið þeirra er að efla fjárfestingar á svæðum sem annars vegar eru með mikið atvinnuleysi eða lægri tekjur en meðaltalið innan ESB, og hins vegar þar sem aðeins eru 8 íbúa á ferkílómetra (kom inn eftir aðild Finna og Svía). Það þýðir að nánast allt Ísland, að höfuðborgarsvæðinu undanskyldu, flokkast undir 1. markmið, en undir það falla stærsti hluti styrkjanna. Markmið með þróunarsjóðunum er að:

- Efla fjárfestingar til að skapa ný störf og efla vinnumarkaði
- Fjárfesta í samgöngum og fjarskiptum
- Svæðisbundnar aðgerðir til að efla starf smárra og meðalstórra fyrirtækja.

Á tímabilinu 2000-2006 var varið um 12.000 milljörðum ISK til byggðaþróunarsjóðanna. Sú fjárhæð gefur til kynna mikilvægi sjóðanna til að efla þau svæði sem staðið hafa halloka innan sambandsins. Markmiðið er hér sem annars staðar að auka jafnræði meðal íbúa í Evrópu.

Mér virðist að mikið af vanda landsbyggðar væri mögulegt að leysa með styrkjum úr Byggðaþróunasjóðum ESB. Þeir gætu hraðað mjög að færa landsbyggðarsvæði inn í hið nýja upplýsinga- og þekkingarsamfélag. En hafa ber í huga að mótframlag frá sveitarfélögum, félagsamtökum og fyrirtækjum þarf einnig að koma til. Einnig verður að minnast þess að mikil ásókn er í sjóðina eftir inngöngu fyrrum Austur-Evrópuþjóða þar sem fátækt og atvinnuleysi er mikið.

Mikilvægt hagsmunamál

ESB aðild getur verið fólki á landsbyggðinni sem öðrum Íslendingum mikið hagsmunamál. Ég hvet því nýja ríkisstjórn til að skipa hóp sérfræðinga til að kanna þetta mál vel, setja fram samningsmarkmið í viðræðum við ESB og sækja um aðild. Niðurstöður slíkra viðræðna ætti síðan að láta þjóðina kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hafa Norðmenn gert í tvígang og fellt í bæði skiptin. Það sýnir að umsóknarferlið felur ekki í sér neinar skuldbinginar og þar er engin hætta á ferðum.

Ingi Rúnar Eðvarðsson


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband