Grænn bær %u2013 Ódýrari bær

Sorpmál Akureyrarbæjar eru að margra mati ekki til fyrirmyndar. Bæði út frá umhverfissjónarmiðum og hagrænum sjónarmiðum. Fyrst ber að geta að staðsetning sorphauga er mjög slæm. Fallegt útvistarsvæði fyrir bæjarbúa er notað og eyðilagt vegna þess að leit að betri lausn er gerð með hangandi hendi. Í öðru lagi er ekki boðið upp á umhverfisvænari lausnir við flokkun á sorpi bæjarbúa.
Að vísu er búið að koma upp gámum við fjölfarna staði þar sem hægt er að losa sig við pappír og fernur en hvatninguna vantar svo bæjarbúar noti sér slíkar lausnir. Ef boðið væri upp á fleiri möguleika í sorpmálum þá væri hægt að spara umtalsvert af fé og bæta líf bæjarbúa. Grænar tunnur er ein leið sem hægt væri að bjóða upp á, en það þýðir að sorp er aðeins losað á tveggja vikna fresti. Þetta væri ódýrari lausn fyrir þá sem losa pappír og fernur í gáma og nota heimilissorpið aðeins að litlu leyti.

Í þriðja lagi væri hægt að breyta fyrirkomulagi bæjarins að láta bæjarbúa skaffa sínar eigin sorptunnur. Ef bærinn myndi sjá um þessi mál og tunnurnar yrðu allar eins og komið fyrir á aðgengilegri stöðum væri sorphirða mun auðveldari. Þó svo að upphafskostnaður væri mikill væri tíminn sem færi í sorphirðu mun minni og til langs tíma myndu allir hagnast vegna lágs rekstrarkostnað. Það er ýmislegt smálegt sem hægt er að gera til að bæta líf bæjarbúa og jafngott og hvað annað að leysa sorpmál í eitt skipti fyrir öll. Svo væri líka ágætt að geta gengið um Glerárdalinn og andað að sér fersku lofti.

Baldvinn Esra 


Sundlaug Akureyrar - nýtt deiliskipulag

Ljóst er að svæðið við Sundlaug Akureyrar er verðmætt og eftirsóknarvert fyrir margra hluta sakir, staðsett í hjarta bæjarins, í nálægð við skóla og helstu íþróttamannvirki. Svæðið er hins vegar tiltölulega þröngt afmarkað og því afar mikilvægt að vanda vel skipulag þess. Má með sanni segja að um sé að ræða takmörkuð gæði sem skiptir miklu máli að séu sem best nýtt í þágu sem flestra. Ljóst er að skipulagstillagan eins og hún hefur verið kynnt í fjölmiðlum reisir verulegar skorður við frekari nýtingu Sundlaugarlóðarinnar, svo vægt sé til orða tekið. Fjölskyldugarðurinn var endurgerður fyrir um ári síðan með tilheyrandi kostnaði. Á nú að kasta þeirri vinnu á glæ?

 Var málið nægjanlega kynnt?

Ýmsar spurningar vakna þegar umsókn Vaxtarræktarinnar um lóðaveitingu fyrir heilsuræktarmiðstöð á svæðinu er skoðuð og þó einkanlega vakna efasemdir um að hugmyndir Vaxtarræktarinnar hafi verið nægjanlega vel kynntar fyrir þeim kjörnu fulltrúum sem taka áttu afstöðu til þeirra. Eftir umfjöllun á einum fundi hjá umhverfisráði 25.janúar 2006 kemur málið ekki aftur til ráðsins fyrr en 30.ágúst, sem ósk um breytingu á deiliskipulagi byggða á staðfestum Rammasamningi dagettum 23.maí 2006, og þá vel að merkja höfðu sveitarstjórnarkosningar farið fram í millitíðinni. Málið hafði þá ekki komið inn á borð íþrótta- og tómstundaráðs, sem þó er tilgreint sem aðili að umræddum samningi. Þá hefur skólanefnd heldur ekki verið kynnt það, en svæðið sem um ræðir tengist skólalóð Brekkuskóla. Hópur fólks sem mótmæla vill auglýstu deiliskipulagi telur að málið sé með þeim hætti að það hefði aldrei átt að fara svo langt án ítarlegrar hugmyndavinnu og kynningar sem væri öllum bæjarbúum aðgengileg.

Undirskriftarsöfnun

Hafin er söfnun undirskrifta þeirra sem telja að skipulagstillagan megi ekki ná fram að ganga. Á nokkrum af þeim stöðum sem fengið hafði verið sérstakt leyfi fyrir listunum hafa þeir einhverra hluta vegna horfið þó á þá hafi þegar verið skrifað. Listarnir voru greinilega merktir þeim aðilum sem fengið höfðu leyfið ef einhver gerði athugasemdir og óskaði listann burt. Einnig hefur verið haft eftir kjörnum bæjarfulltrúa að framganga mótmælenda í þessu máli og formanns Óðins sem unnið hefur með hagsmuni félag síns í fyrirrúmi að öll loforð um uppbyggingu til handa félaginu verði sett í salt um ókomna tíð.

Rétt hlutföll teikninga?

Nokkuð hefur borið á að þeir sem gera athugasemdir við skipulagtillöguna fá á sig gagnrýni um að þeir séu að blekkja fólk með þeim teikningum sem birst hafa. Allar teikningar s.s. frumgögn varðandi fyrirhugaða bygginu Vaxtarræktarinnar má nálgast á www.odinn.is/deiliskipulag og skorum við á fólk að kynna sér þær vel. Ekki hafa þeir sem sækja málið f.h. umsækjanda um lóðina birt teikningar opinberlega sem sýnir eitthvað annað en fram kemur á heimasíðunni. Hver er að blekkja hvern?

Ásta Birgisdóttir 


Áskorun til skólanefndar Akureyrarbæjar

Nú eru að verða þær breytingar á grunnskólalögum að valdið til þess að heimila rekstur á grunnskóla verður ekki lengur í höndum menntamálaráðherra heldur sveitarstjórna. Þetta er mikið framfaraskref. Ég vil skora á skólanefnd Akureyrarbæjar að vera í farabroddi íslenskra sveitarfélaga í að nýta sér þá möguleika sem samkeppni getur gefið okkur í rekstri grunnskóla.

Til þess að nýta þessa möguleika til fulls tel ég að eftirfarandi þyrfti að gera:

Það þyrfti að setja almennar reglur sem rekstraraðilar þyrftu að uppfylla til þess að geta fengið leyfi til að starfrækja grunnskóla á Akureyri. Allir rekstraraðilar þyrftu að uppfylla sömu skilyrði hvort heldur sem þeir eru sveitarfélag eða eru sjálfstæðir. Þetta mundi þýða að þeir sem vildu reka skóla þyrftu ekki að treysta á velvilja vina sinna í pólitíkinni heldur gætu gengið að því vísu í hvaða rekstrarumhveri þeir myndu starfa ef þeir ákveddu að fara út í þennan rekstur.

Það þyrfti að setja það sem skilyrði að til þess að fá að reka grunnskóla á Akureyri mætti ekki innheimta skólagjöld.

Allir grunnskólar yrðu fjármagnaðir með sama hætti hvert sem rekstrarform þeirra yrði. Fjármagn til skóla fylgdi nemendunum.

Árlega yrði ákveðið hvaða upphæð ætti að fara til rekstur grunnskóla í sveitarfélaginu og fjármagn úr þeim sjóði yrði útdeild samkvæmt reiknireglu sem byggi á þörfum nemanda. T.a.m þyrfti reiknireglan að taka tillit til efnahagslegrar og félagslegrar stöðu foreldra barna.

Hlutverk skólaskrifstofu þyrfti að verða það að fylgjast með að kröfum sem sveitarfélagið gerir til grunnskóla sé fullnægt og að meta gæði grunnskólanna og miðla þeim upplýsingum til foreldra þannig að foreldrar gætu m.a. út frá þeim upplýsingum tekið afstöðu um í hvaða skóla þeir vildu að börn sín færu.

Aðgerðir sem þessar myndu tryggja okkur ávinninginn sem samkeppni getur gefið okkur í rekstri grunnskóla án þess að börnum yrði mismunað eftir efnahag og menntun foreldra. Það er orðið löngu tímabært fyrir stjórnmálamenn að kasta frá sér gömlum fordómum sem þeir hafa um samkeppni milli grunnskóla. Samkeppni virkar ekki síður í þessari atvinnugrein en öðrum. Það að ríkiseinokun eða öllu heldur einokun sveitarfélaga í þessari atvinnugrein virki betur er einfaldlega rangt.

Gísli Aðalsteinsson 


Heimurinn séður frá Akureyri

Pollurinn er vefur fólks sem er áhugasamt um stjórnmál og vill Akureyri og akureyringum vel. Við sem að vefnum stöndum viljum leggja okkar að mörkum til þess að stuðla að málefnalegri umræðu um málefni líðandi stundar og að sjónarmið Akureyringa verði þar höfð í öndvegi. Það er ekki ætlunin að fjalla einungis um málefni sem að eru sér Akureyrsk hins vegar er það svo að sami hluturinn getur litið mismunandi út eftir því hvaðan á hann er horft og við viljum legga áhersu á sjónarhorn Akureyringa.

Í upphafi eru um 20 pennar sem skrifa greinar á vefinn og við stefnum að því að byrta eina grein á dag nema sunnudaga sem er hvíldardagur, líka á Pollinum. Greinarhöfundar eru flestir skráðir félagar í stjórnmálaflokkum en þó ekki allir. Á “spurt og svarað” er listi yfir fasta penna eða “Pollara” eins og ég kýs að kalla þá. Þeir sem hafa áhuga og vilja taka þátt og skrifa greinar er bent á að hafa samband við \n ritstjorn@pollurinn.net This email address is being protected from spam bots, you need Javascript enabled to view it en einnig er öllum velkomið að senda inn einstaka grein ef þeir hafa eitthvað sem þeir vilja koma á framfæri.

Pollurinn er nýmæli hvað pólitíska vefi varðar að því leiti að Pollarar eru úr öllum stjórnmálaflokkum. Hér er fólki einnig gefinn kostur á að koma með sitt innlegg og gera athugasemdir við þær greinar sem byrtast á vefnum. Vefnum er fyrst og fremst ættlað að vera vetfangur fyrir pólitíska umræðu en ekki gagnrýnislaust pólitískt “trúboð”. Ættlast er til þess að þeir sem sendi inn athugasemdir geri það undir nafni og einnig að þeir fari að þeim reglum sem við höfum sett okkur og hægt er að nálgast á “spurt og svarað”.

Kæri lesandi ég vona að þú eigir eftir að njóta þess að lesa margar áhugaverðar greinar hér. Vertu velkominn á Pollinn.

Gísli Aðalsteinsson


Umhugsunarverð niðurstaða

Þá liggja fyrir úrslit í prófkjöri Samfylkingarinnar í kjördæminu okkar hér á Norður- og Austurlandi. Ekki verður sagt að stuðningsfólk þess góða flokks hafi mikinn áhuga á að bæta hlut Akureyringa á Alþingi. Niðurstaðan var sú að hafa ekki fulltrúa frá langstærsta hluta kjördæmisins í öruggu sæti enda þótt þaðan væri boðið upp á tvo ágæta, þau Láru Stefánsdóttur og Benedik Sigurðarson.
Umhugsunarverð niðurstaða

Þau hafa bæði sýnt og sannað að hafa mikinn metnað fyrir uppbyggingu atvinnu-, mennta- og menningarlífs á Akureyri og hvergi hlíft sér. Ekki er nokkur vafi á að þau hefðu orðið góðir fulltrúar Akureyringa á þingi en voru vegin og fundin léttvæg í eigin flokki og aðrir, sem ekki hafa sýnt málefnum Akureyrar sérstakan áhuga, kosnir með miklum glans.

Í þessu sambandi vekur athygli að forysta Samfylkingarinnar á Akureyri fylkti sér um þann sem einna helst þurfti að etja kappi við til að tryggja Akureyringi öruggt sæti. Þar með var lagður grunnurinn að því að akureyskt framboð biði lægri hlut og náði ekki viðunandi árangri. Þetta er kannski dæmigert fyrir okkur Akureyringa - að sýna ekki þá ákveðni og þá festu sem fylgir því að koma okkar fólki á framfæri og til áhrifa. Einlægt verið að viðra sig upp við þá sem sannarlega hafa ekkert til þess unnið.

En þetta var nú bara fyrsta lota því nú bíðum við eftir hinum flokkunum í Norður- og Austurlandskjördæmi. Vonandi tryggja þeir allir Akureyringum örugg sæti og þar með akureysk áhrif á hinu virðulega Alþingi. Ekki veitir af.

 Ragnar Sverrisson


Hvalveiðar

Nú er búið að heimila hvalveiðar á ný. Það má veiða 9 langreiðar og 30 hrefnur eða samtals 39 dýr. Er það algjört óráð og glapræði að leyfa veiðarnar á ný? Eða er okkur það efnahagsleg nauðsyn?

Ég held að það sé hvorugt.

Ég tel að það sé sjálfsagt að nýta auðlindir hafsins ef það er gert á skynsamlegan hátt. Það er að segja, ef það er gert á sjáfbæran hátt. Þá finnst mér ekki skipta meginmáli hvort auðlindin er þorskur, hvalur eða rækja. Mér finnst því allt í lagi að leyfa veiðar á nokkrum hvölum úr stofnum sem ekki eru í nokkurri hættu.

Það flækir þó málin að hvalurinn er ekki einungis auðlind til að éta heldur líka til að horfa á. Það er stutt síðan hvalurinn varð þess konar auðlind. Það er því mikilvægt að hvalveiðar séu stundaðar þannig að þær skaði hagsmuni hvalaskoðunarfyrirtækja sem minnst. Við, íbúar á Eyþingssvæðinu, höfum miklu meiri hagsmuni í hvalaskoðun en í hvalveiðum. Við ættum því öll að vera á móti hvalveiðum ef naktir hagsmunir réðu skoðun okkar.

Það er þó ekki sjáfgefið að leyfi til hvalveiða þýði jafnframt að veiðar fari fram. Ef enginn áhugi er á hvalaafurðum er enginn grundvöllur fyrir því að stunda þessar veiðar. Varla fer nokkur maður að veiða hval einungis til þess að tapa peningum, eða hvað? Getur verið að einhverjir séu búnir að æsa sjálfan sig svo upp í hvalveiðiumræðunni að þeir fari að veiða hval þó þeir þurfi að borga með sjálfum sér við veiðarnar? Við skulum vona ekki.

Ég held að hvalveiðar skipti okkur engu máli efnahagslega. Þó hvalur éti úr lífríkinu eru hverfandi líkur á því að veiðar á 39 dýrum breyti nokkru um stærð fiskistofnastofna. Ef rökin fyrir hvalveiðum eru þau að hvalurinn éti svo mikið af fiski hljóta veiðarnar að hafa þann tilgang að minnka hvalastofna verulega. Í málflutningi okkar gagnvart öðrum þjóðum leggjum við hins vegar áherslu á að veiðar okkar hafi ekki áhrif á hvalastofna. Þarna er þversögn.

Ég er hinsvegar á því að láta markaðinn leysa þetta mál. Það á að selja hvalveiðikvótann ár hvert. Þ.e. sá sem býður hæst fær að veiða dýrin eða ákveða að þau verði ekki veidd. Hvalaskoðunarfyrirtæki gætu því keypt hvalveiðikvótann ef þau byðu betur en hvalveiðifyrirtæki til þess eins að koma í veg fyrir að veiðar færu fram. Sjávarútvegsráðherra Breta getur þá sjálfur keypt hvalveiðikvótann ef honum líður svona skelfilega yfir því að 39 hvalir séu drepnir, sitjandi í ríkisstjórn sem ber að hluta ábyrgð á því að tugir eða hundruðir þúsunda saklausra manna liggja í valnum í Írak og pyntingar og dráp eru þar stunduð í margfalt meira mæli en þegar landið var undir stjórn eins versta harðstjóra jarðarinnar. En það er annað mál.

Með veiðileyfagjaldi sem réðist á markaði ættu ríkustu hagsmunirnir að verða ofaná. Við Íslendingar ættum ekki að vera viðkvæmir fyrir þessari aðferð, þetta er nákvæmlega það sem við höfum gert varðandi veiði á laxi í sjó. Við höfum keypt kvóta til þess eins að koma í veg fyrir veiðar á laxi.

Jón Þorvaldur Heiðarsson 


Rétt leið, röng leið og hjáleið

Við nýhafnar veiðar á hvölum í atvinnuskyni er vert að velta upp einum eða fleiri flötum sem jafnvel hefðu mátt fara í tengslum við þær. Það að taka í alþjóðasamfélaginu viðlíka ákvörðun og gerð var nú lyktar eilítið af hvatvísi og eins og flestir vita er það sjaldan til góðs.
Málið er ekki hvort að við sem Íslendingar höfum fullveldið algerlega í höndum okkar, ekki er það heldur að markaðurinn sem ‘kaupir’ afurðinar er að berja á dyrnar hjá okkur né að þetta sé nein spurning um hversu langt við getum seilst í átt að gáttum öryggisráðsins. Málið er hinsvegar að hægt hefði verið að gera þetta á klókari hátt til að sætta alla aðila, allavega til þess að menn yrðu ekki jafnsúrir.

Viðskiptafræðilega á þetta máski eftir að koma niður á okkur, ekkert segir að það geri það endilega né heldur aftekur að það verði ekki. Einhverjir eiga máski eftir að sleppa því að ferðast til eyjunnar okkar fyrir vikið og einhverjir aðrir eiga eftir að koma, tíminn einn leiðir það í ljós. En það eitt að taka þessa ákvörðun án þess að velta þeim flötum upp er jú mergurinn málsins, gjáin á milli þeirra sem taka viðlíka ákvarðanir, hagsmunaaðila í margvíslegum rekstri þessum veiðum ótengdum sem máski eiga eftir að sitja með sárt ennið s.s. í ferðaþjónustu og svo þeirra sem landið byggja, fólkinu er gríðarlega stór að manni virðist.

Það er ansi erfitt að verja þessar gjörðir með haldlitlum rökum um fjárhagslegan ávinning sem gæti svo reynst þúsundfalt tap á hinn bóginn, ekki má segja að sjálfstæði okkar eða sjálfsákvörðunarréttur okkar sem þjóðar hafi verið í neinni hættu. Ekkert  sem ég heyri frá leikmönnum eða lærðum sannfærir mig um að 39 skepnur eigi eftir að hafa svo gríðarleg áhrif á fiskstofna við strendurnar að það réttlæti veiðar á þeim.

En hvað er svo eftir? Getum við Sjálfstæðismenn sem í samstarfi við Framsókn, heimilum viðlíka veiðar sagt með góðri samvisku hér á eftir að markaðsfræðilegar ástæður liggi hér að baki? Getum við sagt að þetta hafi verið leikur á taflborði alþjóðamála sem fellir kóngana annarsstaðar, eða er kannski ekki spilað upp á annað en jafntefli hér? Mér sýnist sem svo að með því að leika upp á jafntefli er meiri hætta en minni á að tapa.

Ég hef heyrt margskonar útlistanir á því hvað hefði verið rétta leiðin í þessu máli og hef máski einu raunhæfu lausnina í farteskinu, svona ef það að hefja veiðar á hvölum sé eina leiðin sem stjórnvöld sjá í dag.

Sú felst í því að fara með umræðuna um kvótann í það að útdeila honum ekki bara sisvona út í hönd á einhverjum sem vill svo heppilega að á hvalveiðiskip, heldur að bjóða hann út. Bjóða hann út hæstbjóðanda, þá getur sá er hvalveiðiskipið á boðið í, ég get boðið í og svo geta Grænfriðungar eða þeirra handbendi boðið í hann. Sá sem svo býður hæst, eðli málsins samkvæmt, tekur svo ákvörðun um hvað skuli gera við dýrin sem í boði eru hvert ár fyrir sig, veitt þau eður ei. Gildir einu fyrir stjórnina, gildir einu fyrir fólkið utan það að hæsta mögulegt verð kemur fyrir skepnurnar, veiddar eða óveiddar. Þessu má kannski líkja við fjárkúgun að einhverju leyti en á móti kemur að íslenska ríkið er ekki undir hæl alþjóðasamfélagsins með það hvort við ráðum yfir eigin auðlindum ef svo má kalla í tengslum við hvalina, skepnur sem sagt er að séu með greindarfar venjulegrar kusu og síst meira. Við sýnum að við eigum yfirráð óskoruð yfir því sem hrærist hér við land en bjóðum upp á valkosti sem allir hagnast á, ef þá hægt er að hagnast á þessu.
 
Guðmundur Egill Erlendsson

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband