Frelsi til búsetu

Hingað til hefur atvinna manna haft mikil áhrif á búsetu og margir hafa þurft að flytjast nánast nauðungarflutningum til þess að geta séð fyrir fjölskyldu sinni. Þetta ætti að vera liðin tíð þar sem fólk getur unnið fjölbreytta vinnu nánast hvaðan sem er fyrir fyrirtæki sem er staðsett nánast hvaðan sem er. En eftir stendur mannlega hliðin þ.e. að fyrirtæki og stofnanir hugi að þessu með markvissum hætti og losi fólk úr jarðarböndum vegna atvinnu sinnar.

Til þess að ná árangri á þessu sviði þarf að efla samstarfs- og samskiptahæfni um Netið þannig að þeir sem vinna saman á þennan hátt nái hámarksárangri í starfi. Á mörgum vinnustöðum í dag eru menn á sífelldum þvælingi og menn hittast sjaldan og því er Netið mikið notað. Þannig að breytt vinnubrögð til samræmis við nútímann eru raunveruleiki á ýmsum stöðum þrátt fyrir að yfirmenn sjái ekki að þeir geti gefið starfsmönnum sínum frelsi til að búa hvar sem er.

Á sama tíma og Íslendingar guma af því að geta rekið fyrirtæki víða um heim og nýtt Netið til stjórnunar og samstarfs treysta þeir sér vart til að vinna á íslensku milli staða innanlands.

En auðvitað hafa sum fyrirtæki gefið starfsmönnum frelsið og á Akureyri vinna margir hjá fyrirtækjum sem eru með heimilisfestu annarsstaðar. Fjöldi manna kúrir í herbergjum hér og þar á Akureyri og vinna vinnuna sína en oft einir og án tengsla í nærsamfélaginu. Ég þekki af eigin raun að slíkt getur verið leiðigjarnt til lengdar, því væri eftirsóknarvert að gera þeim kleift að hafa sinn vinnustað í samfélagi við aðra sem vinna á sama hátt.

Heilu þjóðirnar eru að byggja upp efnahag sinn með þessum hætti og eru Indland og Kína nærtæk dæmi. Í dag eru teknar röntgenmyndir í Bandaríkjunum, sérfræðingar á Indlandi lesa út úr myndunum og senda niðurstöðurnar til baka og sjúklingurinn fær niðurstöðu daginn eftir. Þar

hjálpar tímamunur til þannig að í rauninni er verið að vinna allan sólarhringinn fyrir sjúklingana. Margar skattskýrslur eru gerðar á Indlandi, forritarar þaðan vinna við hugbúnaðargerð fyrir fyrirtæki í Bandaríkjunum. Jafnvel er flugfélag í Bandaríkjunum þar sem húsmæður vinna hluta úr degi við að svara símanum að heiman. Þær skrá sig til vinnu einhverja tíma á dag og tölvukerfi sér um að þær verða hluti af símkerfi fyrirtækisins á þeim tíma. Á skyndibitastöðum þar sem hægt er að panta matinn úr bílnum eru þeir sem svara í hátalara stundum staðsettir í öðru fylgi en þeir sem elda og afhenda matinn á staðnum.

Við Akureyringar þurfum, og eigum, að skoða alvarlega hvernig við getum nýtt nútímatækni til að efla atvinnuveg á Akureyri í fjölbreyttum starfsgreinum. Ríkið þarf að ganga fram á öflugan hátt og hætta að þenjast út - bara á höfuðborgarsvæðinu.

Berjumst fyrir frelsi til búsetu við Eyjafjörð og finnum atvinnutækifæri út um allan heim.

Lára Stefánsdóttir 



Eigum við ekki að vakna Eyfirðingar?

Það vakti athygli mína á dögunum að áhugafélag um uppbyggingu nýrra fyrirtækja og nýsköpunar á Suðurlandi kynnti hugmyndir um byggingu álvers og verksmiðju til að vinna úr áli í Þorlákshöfn. Mjög áhugavert í alla staði og virðingarvert frumkvæði heimamanna. Þá rifjaðist upp að samskonar félag var stofnað hér fyrir norðan í maí árið 2005 undir heitinu Ný sókn á Norðurlandi. Eftir að stofnun félagsins var staðfest á Akureyri, Dalvík, Siglufirði og Ólafsfirði með tilheyrandi lúðrablæstri hefur ekkert til þess spurst – engu líkara en það hafi gufað upp eða fengið hægt og virðulegt andlát.

 

 Í samþykktum félagsins segir að tilgangur þess sé að stuðla að uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi og lögð verði sérstök áhersla á að kynna kosti Eyjafjarðar sem heppilegan stað fyrir slíka starfsemi. Á stofnfundi var kosin tíu manna stjórn og þess gætt að í henni væru jafnmargar konur og karlar. Mikill hugur var í fundarmönnum á fundinum á Akureyri að nýta félagið til að kynna vandlega hvaða kostir fylgdu því að hér yrði komið á stóriðju í einu eða öðru formi og þá sérstaklega talað um álver í því sambandi. Fundarmönnum rann til rifja hversu upplýsingar væru fátæklegar um þýðingu þess að hér á Eyjafjarðarsvæðinu væri öflug starfsemi af þessu tagi og uppi væru margar ranghugmyndir sem full ástæða væri að leiðrétta. Þess vegna var tekið fram í samþykktum félagsins að það muni standa fyrir opinni umræðu og útgáfu kynningarefnis um uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi og kosta kapps um að sú umræða verði upplýsandi og gagnleg því á þeim tíma höfðu andstæðingar stóriðju farið mikinn og fullyrt ýmislegt sem ástæða væri til að svara á málefnalega.

Sú raunalega staðreynd blasir nú við í lok árs 2006 að ekkert hefur heyrst frá þessu ágæta félagi og þær væntingar sem ég og margir aðrir höfðu um að það mundi vinna vel og djarflega að því sem það var stofnað til hafa dvínað svo mjög að ekki er annað sýnna en það hafi dáið drottni sínum í frumbernsku og útförin farið fram í kyrrþey. Alla vega hefur ekki einu sinni verið boðað til aðalfundar á þessu ári en hann á að fara fram ekki síðar en í maímánuði ár hvert. Ekki veit ég hversu margir stjórnarfundur hafa verið haldnir en kannski getur einhver af því góða fólki, sem kosið var á sínum tíma til stjórnarsetu, upplýst það.
 

Við þessar aðstæður veltir maður því fyrir sér hvort við Eyfirðingar eigum nokkuð betra skilið en þá deyfð og þann drunga í atvinnumálum sem hér ríkir. Atvinnuleysi er óvíða jafn mikið og ekki verður vart við þann kraft sem maður sér í öðrum landshlutum – því miður. Nú eru vonir bundnar við þá mola sem falla af borðum Húsvíkinga þegar þar verður byggt álver og allt sem því fylgir. Auðvitað er ýmislegt þar að hafa og vonandi tekst vel til um það. Engu að síður er öll þessi atburðarás til marks um að Eyfirðingar séu ekki að trana sér meira fram en kjarkur leyfir. Ég hef lengi verið hrifinn af máltækinu þar sem segir, að þeir sem vilja sjá drauma sína rætast verða að byrja á því að vakna af draumasvefninum.
 
Ragnar Sverrisson 

Vantar nýjan Framsóknarflokk?

Við sem fylgjumst með stjórnmálum munum að oft hefur verið talað um að Framsóknarflokkurinn þurfi að vinna meira í því að afla fylgis á suðvesturhorninu. Bæði hafa framámenn í flokknum sagt þetta en einnig stjórnmálafræðingar og aðrir. Mér finnst að Framsóknarflokkurinn hafi reynt á undanförnum árum að fara í þessa átt. En hver er útkoman? Í stuttu máli er hún sú að fylgið á suðvesturhorninu er síst að aukast. Og fylgið sem flokkurinn hafði á landsbyggðinni virðist að einhverju leiti vera að fjúka út um gluggann. Heyrst hefur að bændur séu í auknum mæli að snúa sér að Vinstri Grænum en þar átti Framsóknarflokkurinn áður víst fylgi.
 
Á sama tíma sár vantar flokk á Íslandi sem hefur einhverja framtíðarsýn á byggð í landinu. Enginn flokkur hefur neina útpælda né útfærða stefnu á þessu sviði. Hver frambjóðandi hefur sína eigin stefnu eða finnst einfaldlega óþarfi að hafa einhverja framtíðarsýn í þessum málum. Samt er þetta stóra málið í mínum huga. Hvernig viljum við að Ísland líti út eftir 50 ár? Viljum við að allir Íslendingar búi á suðvesturhorninu? Viljum við að ástandið verði svipað og það er núna, þ.e. byggðir í stöðugri, örvæntingarfullri baráttu um tilvist sína? Viljum við að sköpuð verði skilyrði til þess að sterkustu kjarnarnir fyrir utan suðvesturhornið vaxi og dafni (þar verði jafnvel borgarmyndun) og geti þá um leið verið skjól fyrir nálægar byggðir. Þetta eru einungis þrjú dæmi um einhverskonar framtíðarsýn. Vandamálið er hins vegar að enginn flokkur virðist hafa neina.

Áfram er hægt að láta hugann reika. Er okkur t.d. sama þó byggð leggist af á Ísafirði á næstu 50 árum? Við skulum ekki fara í grafgötur með það að bærinn er á þeirri leið ef sama þróun heldur áfarm og síðasta áratug. Ef okkur er ekki sama, hvað ætlum við þá að gera til að svo verði ekki?

Ég tel að Framsóknarflokkurinn eigi að skipta um áherslur. Í stað þess að standa í strögli í borginni við að þóknast kjósendum með litlum sem engum árangri ætti flokkurinn að snúa að vissu marki aftur til uppruna síns en þó með skýra og raunhæfa framtíðarsýn, sérstaklega í byggðamálum. Ég leyni því ekki að ég vildi sjá stefnu sem væri eitthvað í líkingu við þriðja dæmið sem hér var sett fram.

Ég vil þó undirstrika það að hér er ekki verið að tal fyrir öfgafullri stefnu sem byggir á einhverskonar Reykjavíkurhatri. Við Íslendingar erum heppnir að eiga borgina og það gróskumikla samfélag sem þar er. Spurningin er hins vegar hvort við viljum bara hafa Reykjavík eða Reykjavík plús eitthvað meira sem líka er gróskumikið og eftirsóknarvert.

Ég held að Framsóknarflokknum tækist betur upp ef hann skapaði sér þá sérstöðu að hafa einn flokka einhverja framtíðarsýn í þessu stóra máli. Þá tel ég raunhæft að hann gæti verið með 40% fylgi á landsbyggðinni og meira en 10% á suðvesturhorninu.


Ferðamannparadísin Akureyri, Eyjafjörður, Norðurland

Í síðustu viku var tilkynnt að IcelandExpress hefði ákveðið að hefja beint flug milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar næsta sumar. Þetta er afar ánægjuleg þróun og verður örugglega til þess að fleiri ferðamenn koma á Austur- og Norðurland beint, auk þess sem við íbúar á svæðinu eigum auðveldara og með að komast til Evrópu fyrir minni pening. Það væri hinsvegar óskandi að IcelandExpress hefði úthald til að halda áfram beinu flugi einnig yfir vetrartímann til Kaupmannahafnar frá Akureyri. Það tekur tíma að vinna slíku flugi sess þó að Akureyringar og Norðlendingar hafi tekið fljótt og vel við sér, þá þarf lengri tíma til að kynna flugið erlendis.

En vonandi hefur IcelandExpress þolinmæði og það áræði sem þarf til að fylgja þessu flugi eftir. Samgönguyfirvöld með ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sturlu Böðvarsson í farabroddi hafa hinsvegar dregið lappirnar í því að efla flugstöðvarnar á Egilsstöðum og Akureyri til að þessir vellir geti talist fullgildir millilandaflugvellir. Sturla hefur sagt að "300.000 manna þjóð hafi bara efni á einum millilandaflugvelli" sem eru ótrúleg ummæli frá sjálfum samgönguráðherra landsins. Þessu viðhorfi yfirvalda þarf að breyta og vonandi skapast þverpólitískur vilji til að laga það sem laga þarf svo að getum boðið uppá þrjá fullgilda millilandaflugvelli. Ef ekki strax þá í kosningunum í vor. Akureyri, Eyjafjörður og Norðurland hefur nefninlega uppá svo margt að bjóða á sviði ferðamennsku og það allan ársins hring. Það eru til dæmis ekki margir staðir í Evrópu sem bjóða uppá flugvöll í 20 mínútna akstursfjarlægð frá stórkostlegu skíðasvæði.

Ásókn ferðamanna í óhefðbundnar ferðir utan álagstíma á eftir að aukast svo og þeirra sem koma til að leita að norðurljósum, kyrrð og myrkri sem er eitthvað sem margir vilja upplifa. Uppbygging ferðaþjónustu á Húsavík með hvalaskoðun og Hvalasafn í öndvegi hefur verið stórkostleg. Jarðböðin við Mývatn eru einstök á sínu sviði. Eyjafjörðurinn, Grímsey og Hrísey eru einnig perlur og það eru margir sem vilja koma og dvelja í alvöru sjávarþorpi eða á sveitabæ í faðmi fjalla. Veitingastaðir á heimsmælikvarða sem bjóða uppá úrvalsrétti úr hráefni úr heimabyggð eins og Friðrik V, Halastjarnan og Karólína eru staðir sem við getum státað af. Við höfum uppá svo margt að bjóða og sumt á enn eftir að uppgötva. Við eigum því framtíðina fyrir okkur á þessu sviði og möguleikarnir eru óþrjótandi. Það þarf bara smá velvilja, áræði og þolinmæði og þá getum við gert kratftaverk.

Hlynur Hallsson 


Afrakstur lýðræðislegrar umræðu

Nú berast mikil og góð tíðindi að norðan. Minn kæri fæðingarbær ætlar að fara að taka til hendinni og breyta miðbænum að óskum íbúa.  Þessar óskir eru afrakstur raunverulegs íbúalýðræðis þegar nær 10% Akureyringa komu saman einn fagran dag í september árið 2004 og ræddu hverju væri ábótavant í miðbænum og hverju þyrfti að breyta til að bæta hann og fegra.

Eftir mikil og víðtæk skoðanaskipti þátttakenda á íbúaþinginu varð meginniðurstaðan sú að miðbærinn væri vindasamur og sólar nyti þar ekki sem skyldi með þeim afleiðingum að þar þrifist ekki blómlegt miðbæjarlíf.  Meginástæðan er sú að aðalgöturnar liggja norður-suður og ríkjandi vindáttir eiga því greiða leið og sólin nær ekki heldur að gegna sínu hlutverki þar af sömu ástæðu.  Úr þessu þarf að bæta þannig að miðbærinn verði skjólgóður og bjartur. Var m.a. bent á að hægt væri stuðla að því með því að „mynda götuumhverfi sem snýr betur við sólu og veitir meira skjól,” eins og segir í niðurstöðum íbúaþingsins. Það verður aðeins gert með því að þróa göturnar meira til austurs-vesturs og mynda þannig skjól fyrir ríkjandi vindáttum og opna svæðið um  leið þannig að skuggar víki og sólartímar verði fleiri.
 
Íbúaþingið benti jafnframt á að æskilegt væri að tengja hafnarlíf meira miðbænum „þannig að hvort styrki annað” eins og góð reynsla er af víða um lönd. Þingið taldi einnig „rétt að fara varlega í það að raska einstakri bæjarmynd Akureyrar með miklu hærri húsum en þeim sem fyrir eru.”

Niðurstöður íbúaþingsins voru því skýrar: Meira skjól, meiri birta, ekki háhýsi og tenging við Pollinn. Þessar óskir íbúanna voru síðan kynntar öllum þeim sem tóku þátt í alþjóðlegri samkeppni arkitekta um nýtt skipulag miðbæjarins og þeir  beðnir að taka tillit til þeirra í tillögum sínum.

Margir muna gjörla hina miklu þátttöku arkitekta í þessari samkeppni og allar þeirra góðu tillögur sem vissulega eru milljarða króna virði fyrir bæjarfélagið. Verðlaunatillagan þótti uppfylla best þær óskir sem íbúaþingið mótaði og væri hægt að skrifa langt mál um hversu snjöll hún er en það bíður betri tíma. 

Bæjaryfirvöld hafa síðan samþykkt heilsteypta endurskipulagningu miðbæjarins úr bestu tillögunum.  Nú er staðan sú að mjög sterkir fjárfestar keppast um að tryggja sér byggingarétt á þessum lóðum í miðbænum og eru reiðubúnir að fjárfesta þar fyrir mikið fé.  Því er ekki annað sýnna en vilji íbúanna um endurbættan miðbæ gangi eftir og að auki takist að laða að fjármagn til bæjarins til að standa straum af öllu saman. Oft hefur verið fagnað af minna tilefni.


Þegar þessi atburðarás er borin saman við meint íbúalýðræði í öðrum sveitafélögum, þar sem yfirvöld kynna þegnunum hvað þau ætla að gera í skipulagsmálum eða þegar staðið er fyrir leiðandi skoðanakönnunum um einstaka þætti án samhengis við heildarsýn, þá er deginum ljósara að þau vinnubrögð eru algjörlega ósambærileg við það hvernig staðið var að málum við endurskipulagningu miðbæjarins á Akureyri.  Þar voru íbúarnir fyrst spurðir um grundvallaratriði og svörin síðan nýtt til að varða veginn í þessum mikilvæga málaflokki.  Það eru vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar og bænum og bæjarbúum til mikils sóma – íbúalýðræði í raun. Til hamingju með það!

Ingólfur Sverrisson 


Hvað gengur stjórnvöldum til ?

Að undanförnu hafa fréttir af Eyjafjarðarsvæðinu vakið nokkurn ugg. Samdráttur er hjá fiskvinnslufyrirtækum hér, sérstaklega hefur borið á markvissum samdrætti hjá Brimi. Ef svo er horft á þær stofnanir og starfssemi sem hið opinbera stendur fyrir hafa hremmingar Háskólans á Akureyri verið í brennideppli. Að vísu hefur menntamálaráðherra borið af sér sakir en flestum er þau augljós sú aðgerð stjórnvalda að hamla gegn stækkun skólans. Hvort það er til að verja hagsmuni sambærilegra skóla á suðvesturhorninu skal ósagt látið. Fjársvelti framhaldsskólanna er staðreynd. Fjárframlög til sveitarfélaga eru ekki í samræmi við þá þróun undanfarinna ára að auka þjónustu þar á kosnað ríkis. Þetta má í reynd kalla byggðafjandsamlega þróun. Sveitarfélögin flest eiga í miklum vandræðum með sínar fjárhagsáætlanir og tekjustofnum þeirra er þannig fyrirkomið að góðærið skilar litli í kassa þeirra. Á meðan bólgnar ríkissjóður og veit vart aura sinna tal að virðist.
 

Samgöngur og þróun.

Lykilatriði uppbyggingar í dreifbýli, þ.e. stærri kjarna utan höfuðborgasvæða í Evrópu eru góðar samgöngur. Umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur verið áberandi og hugmyndir þeirra sem hann vilja leggja niður er því miður byggðar á afar þröngsýnum viðhorfum. Ég ætla ekki að bera í þann bakkafulla læk en tel þó að þeirri umræðu sé langt frá lokið þó svo hún hafi verið tekin af dagskrá í bili. Einhvernveginn held ég að engu stjórmálaafli hugnist að það mál nái flugi í Alþingiskosningum næsta vor. Það sem er mál málanna hér á svæðinu nú um stundir er ótrúlegt sinnu og tómlæti stjórnvalda í málefnum Akureyrarflugvallar. Í sumar var það aðgerð hjá ríkisstjórinni að skera af rúmar fimmtíu milljónir sem ætlaðar voru til lagfæringa við flugstöð og á bílastæðum þar sem mikið ófremdarástand er og aðstaða lítt boðleg nútíma flugvelli. Stóra málið hinnvegar er að mjög illa hefur gengið að fá ríkisvaldið til að taka ákvarðanir og tímasetja lengingu flugbrautar og ekki síður lagfæringar öryggissvæða umhverfis brautina auk endurbóta á aðflugskerfum. Því miður stenst flugvöllurinn ekki staðla hvað þetta varðar og ljóst er að ef ekki verður farið í framkvæmdir þarna á næstunni munu erlend flugfélög og erlendar ferðaskrifstofur taka Akureyri af dagskrá sem valkost. Ef það gerist mun taka mörg ár að ná núverandi stöðu þrátt fyrir að hafist yrði handa fljótlega. Við sjáum auðvitað löngun annnarra svæða og flugvalla að fá þessi viðskipti til sín og lái ég þeim það ekki. Sú staða er lykilatriði við markaðssetningu svæða í nútíma ferðamennsku. Ábyrgð stjórnvalda er mikil. Akureyrarbær og Kea hafa boðist til að koma að fjármögnun til bráðabirgða en fátt er um svör að manni skilst.

Af hverju ?

Af hverju skyldi þetta tómlæti og áhugaleysi ríkisstjórnarinnar stafa ? Samgönguráðherra virðist lítt að skapi að taka þessa umræðu og því miður virtist lítt upplýstur um málið. Undanfarin tvö ár hafa bæjaryfirvöld og flugmálayfirvöld á Akureyri unnið að skipulagi flugvallarins með það að leiðarljósi að auka samkeppnishæfni hans. Deiliskipulag gerir ráð fyrir lengingu hans um 400 metra til suðurs og auk þess er flugvallarhlað, öryggissvæði og þjónustusvæði endurskipulögð með alþjóðaflug í huga. Það er lykilatriði fyrir Eyjafjarðarsvæðið að fá þessa alþjóðatengingu vegna ferðmennskunnar. Bæjarfélög t.d. í Skandinaviu sem hafa farið í samkeppni við stóru alþjóðaflugvellina hafa mörg hver blómstrað og hjólin hafa farið að snúast hraðar en áður. Gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu og m.a. er gert ráð fyrir svæði fyrir frysti og kæligeymslur vegna útflutnings á ferskvöru. Aureyrarbær og Akureyringar hafa lokið sínum undirbúningi og nú bíðum við Eyfirðingar allir að slyttisleg samgönguyfirvöld vakni af Þyrnirósarsvefninum. Stundum dettur manni í hug að verið sé að verja einhverja hagsmuni fyrir sunnan með þessum hægagangi.  Kannski þjónar það einhverjum hagsmunum betur að fá ferðamennina og útflutninginn um höfuðborgarsvæðið og Keflavík. Hver veit ? Þetta er eitt af stóru byggðamálunum í dag og skiptir Eyjafjarðarsvæðið, og reyndar Norður og Austurland, gríðarlegu máli.

Jón Ingi Cæsarsson 


Herra Kolbert gæti verið vinur þinn.

Í síðustu viku fór ég á hressandi sýningu hjá Leikfélagi Akureyrar; Herra Kolbert. Á stundum emjaði ég af hlátri og á öðrum stundum hríslaðist um mig hrollur. Leikararnir stóðu sig mjög vel og sýning er hin áhugaverðasta ekki síst í ljósi þeirrar sterku skýrskotunnar sem hún hefur til hins vestræna samtíma. Sýningin minnir á að ekki er úr vegi að fólk velti fyrir sér hvert við viljum stefna með þjóðfélag eins og Ísland. Samfélag 300.000 manna og kvenna á norðurhjara veraldar getur einmitt nú snúið af leið þeirrar miklu firringar sem verið er að lýsa í verkinu um Herra Kolbert. En Herra Kolbert gæti fljótlega orðið annað og meira en bara persóna sett fram í leikriti í Samkomuhúsinu, hann gæti orðið fórnarlamb fólksins í næsta húsi sem er hætt að finna gleði og tilgang í innantómu lífi neysluhyggjunnar.
 
Nú sem aldrei fyrr er tími til að staldra við og huga að því hvert skal stefna og ekki síst að því hver á segja okkur hvað er eftirsóknarvert í þessu lífi. Viljum við að fjármagnseigendur og stórfyrirtæki út úr hinum stóra heimi leggi okkur einsleitar lífsins línur eða viljum við taka beygju og fá aftur og áfram að lifa merkingarbæru lífi þar sem annað og meira en dauðir hlutir skipta máli. Hið fallega par sem birtist okkur, svo fullkomið, á leiksviðinu finnur sér engan tilgang lengur og ákvað að ganga lengra en nokkru sinni fyrr til að reyna að vekja tilfinningar sínar og ekki síður komast að því hvort þær væru enn til staðar. Þessi þróun blasir við hér á landi, allt snýst um að efnisleg gæði séu hið eftirsóknarverða takmark. Fyrrum fjármálaráðherra, nú forsætisráðherra, sagði til að mynda skattalækkanir ríkisstjórnarinnar sérlega góðar ekki síst í ljósi þess að slíkar hagræðingar í skattkerfinu væru vinnuhvetjandi. Hvers konar rök eru það fyrir þjóð sem vinnur manna mest í heimi, væri ekki nær að hvetja fólk til að eyða tíma saman og jafnvel með börnunum sínum!! Nei, öðru nær það er um að gera í samfélagi kapítalismans að hvetja fólk til enn meiri neyslu, vinna meira til að geta eytt meiru.

Það gleður mig að leikhúsið blandi sér í þjóðfélagsumræðuna og sendi áhorfendum sínum skilaboð. Skilaboð þessarar sýningar eru sterk að minnsta kosti þau sem ég meðtók og hrollurinn hríslaðist um mig ekki síst vegna þess að þessi fjarstæðukennda sýning er svo ótrúlega raunveruleg, ef við stöldrum ekki við núna þá er óvíst að hægt verða að snúa við. Það er jú ólíkt auðveldara að skipta um akgrein á hraðbraut lífsins en að taka u-beygju þegar í óefni er komið.

Hallur Gunnarsson


Árni Johnsen stelur senunni

verður ekki annað sagt en að Árna Johnsen hafi tekist að stela senunni í þessari viku sem er að líða. Árangur hans í prófkjörinu um síðustu helgi var ótrúlegur. Ef nafni hans Mathiesen hefði ekki gefið kost á sér í fyrsta sæti væri Johnsen sennilega núna í því sæti á lista sjálfstæðismanna í suðurkjördæmi.
 
Þetta hefur fengið mig til þess að velta fyrir mér hvaða eiginleika mér finnist mikilvægast að stjórnmálamenn hafi. Í þessu títtnemda prófkjöri tókst Árna Johnsen með elju og dugnaði að raka saman miklum fjölda atkvæða. Hann er sem sagt duglegur. Ég held að ég kjósi heiðarleika fram yfir dugnað því án heiðarleika eru aðrir góðir kostir stjórnmálamanna til lítils. Eftir viðtal sem ríkissjónvarpið tók svo við Árna þar sem hann láði frasanum "tæknileg mistök" nýja merkingu varð mér ljóst að mér finnst gáfur líka vera mikilvægur eiginleiki fyrir stjórnmálamann. Heiðarleiki og gáfur, ég held að það sé það sem mér finnist mikilvægast.

Mér hefur líka verið hugleikið undanfarið hversu mikilvægt það er hvernig stjórnskipulag við búum við. Maður hefur oft heyrt að fólk sé þeirrar skoðunar að það eigi að fækka stjórnmálmönnum og hækka launin þeirra svo að gott fólk fáist í þetta starf. Ég hef stundum velt þessari fullyrðingu fyrir mér og er búinn að taka þá afstöðu að ég er algerlega ósammála. Ég vil fjölga stjórnmálamönnum og lækka launin. Ég vil fjölga stjórnmálamönnum í allt kosningabært fólk og ég vil lækka launin í ekkert. Nei í raun komist við ekki hjá því að vera með þing en ég vil að það fái miklu meira aðhald frá alþýðu með því að efla beint lýðræði. Við höfum ágætt dæmi um slíkt í Sviss og við eigum að læra af þeim.

Er einhver sem veit hver forseti og forsætisráðherra Sviss er? Hann heitir Moritz Leuenberger og var kosinn í embættið 8 janúar síðastliðinn. Í byrjun næsta árs verður kosinn annar því að í Sviss situr forsætisráðherra og forseti (sama embættið) ekki nema í eitt ári í senn og það má ekki kjósa sama einstaklinginn tvö ár í röð.

Valdið til fólksins!
 
Gísli Aðalsteinsson 

Þáttur af ostanafngiftum - Innflutningur eða innflytjendur

Hvað gerir landinn nú þegar yfir okkur er að fara að flæða hópur manna og kvenna sem ekkert hafa annað að markmiði en að setjast hér að á landinu okkar og njóta þess við höfum safnað í sarpinn. Hvernig er hægt að sporna við þessu en samt halda því ástandi að veigra sér við því að vinna í fiski, vinna við húsbyggingar og vinna við ræstingar og geta látið ‘útlendingana’ sjá um þá hlið mannlífsins.
 
Við íslendingar erum jú að velta þessu fyrir okkur þessa daganna og það er stórmerkilegt þegar ‘þetta fólk’ sem landið hefir byggt síðan í fyrndinni fer svo að tala um ‘hitt fólkið’ sem kemur hingað til að vinna. Litla landið okkar ber ekki þennan mannfjölda segja menn og fleira er týnt til sem kostulegt er við nánari skoðun. Eða hvernig var þetta eru landar mínir ekki alltaf að tala um ‘þetta fólk’?

Það reyndar gildir einu, hver kallar hvern hvað. Það sem mestu máli skiptir er að Ísland er ekki ‘best í heimi’ og sjálft sér nægt, né heldur höfum við einhvern móralskan hápunkt sem við getum hreykt okkur á og dinglað fótunum framan í aðra, öðru nær. Meginatriðið er jú að Ísland er 300.000 manna samfélag í myrku horni norðurhjarans hvar við getum ekki annað en spilað eftir sömu reglum og þau ríki sem við eigum samskipti við. Það er reyndar helvíti fyndið ef menn spá í það að einræðisherra nokkur sem höfundur vill meina að hafi nú ekki alveg alla kaflana fullskrifaða á milli eyrnanna, sá sér ekki annars völ en að sækja mál gegn Íslandi vegna meintra brota á mannréttindum gegn sér. (sjá Saddam Hussein gegn Íslandi o.fl.)

Þetta mál ætti að vera okkur íslendingum áminning þess efnis að með tilveru okkar erum við þáttakendur í hinum stóra heimi og allar okkar gjörðir hafa áhrif. Með því að einhver ‘nýbúi’ (ath hér notar höfundur hugtakið sem útbreiddast er í dag, þó hann hafi ímugust á því og hafi vætti kunningja síns sem er útlenskur að uppruna um að orðið minni hann helst á einhverskonar ost-tegundir) taki nærri sér fjölmiðlaumfjöllun í anda þeirrar sem við höfum verið vitni að og sæki til saka alla íslensku viðmælendurna fyrir niðrandi orð og framkomu í sinn garð þá gæti nú farið að hrikta aðeins í stoðum réttarríkisins.

Við erum ansi snögg að gleyma og fjölmiðlar, hvaða nafni sem þeir nefnast, hófu fyrir nokkrum misserum herför gegn starfsmannaleigunum svonefndu hvar eigendur þeirra mökuðu króka sína með blóði verkafólks. Í þeim tilfellum sem hampað var mest hér á landi, var um að ræða innflutning á starfskröftum sem margir hverjir seldu sálu sína eins og þjóðsögur okkar til forna vöruðu menn við með mýmörgum dæmum. Kannski nægir að líkja þessu við að vera seldur í ánauð og láta sálartetrið verða bitbein presta og annarra andans manna.

En sjá, svo mælir einn armur þingmaður fyrir því að hefja umræðuna, á mjög klaufalegan hátt reyndar og þá fer fyrst að heyrast brothljóð í tilverunni. Eftir stendur svo ákvörðun sem íslensk stjórnvöld hafa staðið við í langa tíð og má ekki líta framhjá, hún er sú að með þáttöku okkar í samvinnu sem nefnist “evrópskt efnahagssvæði” eru okkur ekki lengur frjálsar hendurnar. Misskilja má ekki höfund, því hann er manna fegnastur því að það skref hafi verið tekið en nú er svo komið að hvorki færist áfram né afturábak, sú umræða kemur máski síðar. Við erum búin að grenja út frjálsa för vinnuafls okkar til annarra landa og verðum því að beygja okkur undir að aðrir gætu hugsanlega viljað sækja okkur heim í viðlíka erindagjörðum.

Hér kemur svo markmiðið sem orðaflaumurinn var að stefna að: Umræðan um vinnuafl sem heldur á fæðingvottorðum rituð á útlenskum tungum, á ekki rétt á sér í þessu formi sem hún er, eða verið er að kalla eftir af misvitrum. Ákvörðun fyrri tíma er nú fyrst hrint í framkvæmd og við verðum að átta okkur á því að það er ekkert sem hægt er að gera í því, lesist: okkur er ekki stætt á því að láta einhverjar sérreglur gilda um vinnuafl sem sækir hingað, s.s. að heimta að allir taki 200 tíma í íslenskukennslu til að fá að vera hérna af því að það er mismunun og ekki er víst að allir séu á því að það sé COOL að læra sprok heimamanna.

Vill höfundur meina að skautað verði á mjög hálum ís og víst að íslenska ríkið hrasi ef einhverskonar tæknilegar hindranir líkar því sem að ofan eru nefndar verða settar á til að vernda eitthvað sem er algjörlega óáþreifanlegt, fljótandi hugtök í besta falli. Nú segja menn að Jón eigi að ganga fyrir í þjónustustarf frekar en Juan sem enga íslensku talar, þetta er vegna þess að amma manns er jú altalandi á ástkæra ylhýra en kann ekkert fyrir sér í ensku, hvað þá portúgölsku.

Við skulum átta okkur á því að umræðan sem á að eiga sér stað er hvernig við getum komið fram við innflytjendur eins og hvert annað heimsbarn, boðið því nákvæmlega sömu aðstæður og ef viðkomandi hefði verið svo óheppinn að fæðast í land myrkurs og snjóþyngsla eins og undirritaður. Íslendingar eru 300.000 og hafa alla tíð haft meiri áhuga á því að komast til útlanda en að hanga heima, aðrir einstaklingar í hinum stóra heimi eru sama merki brenndir – komið fagnandi til okkar og setjist við sama borð og ‘innfæddir’

Við erum búin að samþykkja að taka við ykkur, við viljum líka komast að kjötkötlum ykkar og því er sjálfsagt að þið getið hagað ykkur eins og heima hjá ykkur þó þið séuð hér. Aðrar yfirlýsingar eru rasismi!

Að vel athuguðu máli er gott að skjóta sig í fótinn og lýsa yfir því að pólitískur rétttrúnaður (e. Political correctness) er reyndar varhugaverð leið líka, því ætlar höfundur að ljúka með því að segja: Allsstaðar í heiminum eru til menn með skalla eða lítil typpi, konur með stóra rassa eða lítil brjóst – allsstaðar eru líka menn sem telja sig æðri öðrum, en höfundur er lægstur í fæðukeðjunni, sköllóttur, smátólaður, vart-brjósta og með risaskut, skáeygður, rauður á tíðum, svartur af skömm.

Guðmundur Egill Erlendsson 


Jörðin fyrir Fólk!

Í sumar fréttist að innflytjendur ætluðu að bindast samtökum og bjóða fram til sveitastjórna eigi síðar en í næstu kosningum árið 2010 og jafnvel til Alþingis árið eftir. Veit ég vel að hér var ekki um að ræða félag íslenskra stórkaupmanna eða minnkandi stétt heildsala sem vilja ná fram hefndum og gera alvöru úr meintum pólitískum ofsóknum á hendur Baugi, með pólitískum áherslum á innflutning varnings til landsins. En það stóð ekki lengi í tápmikilli stjórnmálaumræðu á Íslandi.

Mannskepnan er einkennileg, í nafni frelsis er fólk hneppt í helsi, í nafni friðar fara menn um með ófriði. En við fæðumst í þessa sömu veröld, sumir vilja hvergi annarstaðar vera en hvar í heiminn bornir þeir voru, aðrir eru á sífelldu randi. Ánægja og hamingja flestra er best tryggð með sem minnstum núningi. Sama á hvað hver trúir þá er tortíming mannkyns ekki forgangsatriði í trúmálum. Þeir sem sætta sig við veðráttuna, þeir sem fara að lögum á hverjum stað fyrir sig, þeir sem geta átt friðsamleg samskipti við samborgarana þeir hinir sömu eru húsum hæfir og eru velkomnir víðast hvar.

Eitt er að dvelja, læra og eða starfa á Íslandi, annað er að verða Íslendingur, verða íslenskur ríkisborgari. Ríki geta sett kvaðir um hvorttveggja. Til að draga úr tortryggni er best að skýrt liggi, áður en tækifæri til múgsefjunar og illinda gefist, hvaða skyldur menn þurfi að uppfylla til að hljóta réttindi. Sum ríki krefja borgara sína um þegnskyldu í þágu ríkisins, ekki endilega þjóðarinnar, við varnir ríkisins, önnur ríki beina sjónum að jafn ábyrðar miklum störfum og seta í kjörstjórnum krefst, binda slíkt þegnskyldu. Til sumra ríkja hefur verið stofnað til varnar réttindum ákveðinna þjóða, enda er sem fyrr segir; þjóðríkið vinsælt form í ríkisrekstri. Ríkin geta sett menningarleg viðmið inn í lög sín, sem mælikvarða á menningarlega samheldni ríkisborgaranna.

Svo virðast menn í Frjálslyndaflokknum, nýjasta, hafa kosið fályndi framar frjálslyndi. Því nú fá innflytjendur þá gusu sem gekk yfir útgerðarmenn fyrir einu kjörtímabili síðan. Ekki dettur mér þó í hug að væna Alþingismenn um nýstárlega hugsun til að krefja einkafyrirtæki um hærri styrki til stjórnmálaflokks síns ef stefnubreyting eigi að koma til. Eitthvað gæti velgengnisvél víkinganna góðu hikstað suðvestan við Kænugarð ef athafnafrelsi okkar yrði takmarkað þar á sama hátt og athafnafrelsi fólks af þeim slóðum verður takmarkað hér.
 
Arnljótur Bjarki Bergsson 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband