21.1.2007 | 23:46
Ofþensla, stýrivextir og skattahækkanir, ég meina skattalækkanir!
Fáir ef einhver hagfræðingur í heiminum myndi láta sér detta hug að lækka skatta til að draga úr þenslu. Ef það þarf nauðsynlega að gerast myndu hagfræðingarnir leggja til lækkun á skattbyrði hinna lægst launustu með hækkun persónuafsláttar. Það eru hinir lægstlaunuðustu sem finna mest fyrir verðbólgu og minnst fyrir hinu svokallaða góðæri sem fylgir þenslunni, sem aftur á móti leiðir til verðbólgu. En ekki er hægt að bakka með það loforð að lækka skatta. Þeir efnameiri eiga það skilið fyrir að spila með réttu liði allan þennan tíma og svo eyðir pallbílinn svo miklu bensíni. Sérstaklega þegar hjólhýsið er með í för. Ekki þarf að minnast á hvað er hið rétta lið.
Það sem þarf að gerast í þessari þöndu verðbólgustöðu sem við búum við er að stjórnmálamenn taki ábyrgð á þeirri stöðu sem þjóðin stefnir óðfluga á. Það þarf að samræma aðgerðir og taka réttar ákvarðanir á réttum tíma og passa að þær vegi ekki hvor aðra út. Um leið að Seðlabankinn hækkar stýrivexti um einhver stig verður dýrara að skulda pening og hagstæðara að eiga pening. Launafólk ætti því að sjá hag sinn í því að halda að sér höndum í neyslu og minnka útgjöld heimilisins og spara fé þar til stýrivextir lækka aftur. En um leið og ríkisstjórnin talar um að lækka skatta á laun og matvörur eru þeir að auka væntingar fólks um að hafa meira fé á milli handanna og því hafa stýrivaxtahækkanir ekki þau áhrif sem til er ætlast af þeim. Skattalækkun ríkisvaldsins vegur út stýrivaxtahækkun Seðlabankans uns annað kerfið gefur sig.
Er allt sem minnihluti gerir á móti hag þjóðarinnar?
Hvers vegna vinna ráðamenn þjóðarinnar gegn þjóðinni kunna margir að spyrja sig? Kannski eru þeir ekki lengur að vinna í þágu þjóðar og vinna aðeins í sína eigin þágu. Sem dæmi er öllum málefnum minnihlutans ýtt af borðinu vegna þess að minnihlutinn er að vilja upp á dekk. Er minnihluti Alþingis ekki vinna líka í þágu þjóðarinnar? Eða er aðeins hálf þjóð í landinu, þeir sem kusu meirihlutann.
Samanlagðir þarfir vega mest!
Önnur ástæða kann einnig að vera fyrir ógagni ráðamanna en hún er sú að undanfarin ár hefur samfélaginu gengið vel í ýmsum málum og þjóðin hefur hagnast vel á ýmsum hlutum sem hafa verið í gangi hér innanlands sem og í alþjóðasamfélaginu. Stjórnmálamenn hafa verið að eigna sér þessar framfarir en nú eru þetta að sigla í strand vegna ofþenslu (góðæris). Nú þarf að hægja á þenslu, draga andann og koma ró á samfélagið, við þurfum ekki sex hjóla pallbíl til að komast á rúntinn.Vandinn er að hægri öfl standa ekki fyrir slaka og afþenslu og því geta þeir ekki unnið að þessum markmiðum að heilum hug. Þeir skera niður þar sem kjósendur er fæstir því ef þeir aflýstu tónlistarhúsum og sundabrautum og hvað það heitir myndi allt verða vitlaust. Þess í stað er vegaframkvæmdum á Norðausturlandi og Vestfjörðum aflýst til þess að ríkisútgjöld fari ekki fram úr hófi. Það var skorið niður þar sem fæst fólk býr en ekki þar sem þörfin var minnst. Nema að þörf sé uppsafnaleg og fjöldinn á suðvesturhorninu hafi meira af samanlagðri þörf en örfáar hræður út á landi.
Baldvinn Esra
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þarfa-stærðfræði
skrifað af Gísli Aðalsteinsson, December 14, 2006
Athyglisverð grein Baldvin. Ég stoppa við eina fullyrðingu hjá þér sem væri gaman að vita hvað þú átt við með. Samanlagðar þarfir vega mest! Hvað áttu við með þessu? Hvernig fer maður að því að leggja saman þarfir einstaklinga til þess að úr verði samanlögð þörf. Er það kannski þannig sem maður fær út þjóðviljann svokallaðann?
Samlagðar þarfir?
skrifað af Baldvin Esra, December 14, 2006
Það virðist sem slíkir reikningar eru viðhafðir þegar tækifæri gefast. Stórar þarfir hinna fáu fá að víkja fyrir minni þörfum hinna mörgu (td vegaframkvæmdir á norðausturlandi víkja fyrir skattalækkun). Hugtakið samanlögð hamingja er líka þekkt úr nytjastefnunni en þar er stefnt á sem mesta heildarhamingju samfélagsins. Þegar kemur að kosningum virðist sem atkvæðafjöldi sem fæst fyrir ákvörðunina sé meginviðmið við ákvarðanatöku. Ekki hvort hún sé skynsöm, nauðsynleg eða hlægileg.
Notagildi heildarinnar versus náttúrlegum rétti einstaklinga
skrifað af Gísli Aðalsteinsson, December 15, 2006
Ok. Ef þú telur að það eigi að stýra samfélagi þannig að samanlagt notagildi einstaklinga í samfélaginu sé alltaf hámarkað þá fæðast hjá mér aðrar spurningar.
1) Ef þarfir heildarinnar krefjast þess að eitthvað sé gert sem brýtur gegn náttúrulegum rétti eða mannréttindum einstaklings er réttlætanlegt að gera það engu að síður? Má fórna einstaklingnum fyrir heildina?
2) Hvernig fara menn að því að að leggja saman notagildi tveggja eða fleiri einstaklinga? Til þess að það sé hægt þá þarf notagildi að hafa ákveðna eiginleika sem eru "cardinality" og "interpersonal comparibility". Trúir þú því virkilega að notagildi hafi þessa eiginleika?
3) Ef þú trúir því að notagildi hafi þessa eiginleika þ.e. "cardinality" og "interpersonal comparibility" og þar með fræðilega mögulegt að leggja saman notagildi einstaklinga hvernig ætlar þú þá að mæla notagildi einstaklinga í praktík? Ef einstaklingar hafa hagsmuni af því að ljúga um það hvaða notagildi þeir hefðu af ákveðnum aðgerðum hvernig ætlar þú þá að fá rétt svar frá þeim?
Ekki mínar leiðir!
skrifað af Baldvin Esra, December 15, 2006
Ég tel ekki að það eigi að gera þetta svona, ég held að þetta sé gert ómeðvitað við ákvörðunartöku í hita stjórnmála og kosningabaráttu.
Ég er innilega sammála gagnrýni á nytjastefnuna þar sem hún gæti leitt til þess að réttindi einstaklingsins sé virt að vettugi.
Föst skot á hagstjórn ríkis og bæja og engin viðbrögð!!!
skrifað af Baldvin Esra, December 19, 2006
Hvað er í gangi eiginlega? Hér er grein sem skýtur föstum skotum á hagstjórn ríkisstjórnarinnar og engin virðist hafa skoðun á því? Hvar eru allt hörundssára íhaldið? Er komið jólafrí eða hafa menn gefist upp á núverandi þenslustefnu og almennri vitleysu. Er ekki kominn þá tími til að skipta um gír, jafnvel bíl?
Pollurinn, 29.1.2007 kl. 23:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.