Af offari og írafári

DV blaðamennska er nafngift sem gefin var vart ígrunduðum vinnubrögðum fjölmiðlamanna á Íslandi fyrir ekki margt löngu. Þóttu þau vinnubrögð til lítillar eftirbreytni og mönnum fremur til vansa en hitt, meira að segja varð eftirleikur viðlíka rannsóknarblaðamennsku, hvar minna fór fyrir rannsóknum en meira fyrir óþurftar punktastærðum í fyrirsögnum, jú sá að DV lagðist af sem dagblað en er komin í helgarútgáfu einni saman í dag. Trekk í trekk voru menn áminntir og dæmdir til greiðslu bóta vegna víga mannorða en það virðist ekki stoppa neinn í dag að halda áfram í troðinni braut vondra vinnubragða.
Nærtækasta dæmið er á milli tanna flestra sem undirritaður hittir þessa daganna, umfjöllun Kompás um Byrgið og sýnist sitt hverjum. Vegið er að forstöðumanni þess úr öllum áttum og eins klaufalega og farið var af stað með hel(her)förina gegn byrginu þá virðist vandræðagangurinn jafnmikill í varnarlínu þeirrar starfsemi. En eitt stendur efst í þessu öllu saman og það er tilraun Guðmundar Jónssonar til að verja sitt mál með því að benda fréttamanni Kompás á það að þar sem reyk væri að finna mætti líka finna eld. Má því segja að brenni glatt beggja vegna víglínunnar.

Það að veitast svona gegn einum manni persónulega með viðlíka DV offorsi, átta barna föður og ugglaust máttarstólpa samfélagsins, allavega að eigin áliti er hægt að setja spurningarmerki við. Sérstaklega svona rétt fyrir jólin, eða hvað?

Ég sagði hér að ofan að umfjöllum Kompáss hafi verið annmörkum háð, þeir annmarkar eru jú skortur á fagmannlegum vinnubrögðum, ef fagmennsku skal kalla. Eitthvað er minnst á að "sönnunargögn" þáttarins séu þessi og hin, heilmikill fjöldi er af vitnum og vitnisburðum að sögn Kompáss og síðast en ekki síst virðist sem svo að þeir sem umfjöllunarefnið snýst um séu með opið veiðileyfi á sig einhverra hluta vegna. Kannski er þetta spurning um að leyfa fréttamennsku hér á Íslandi sem falið sig getur alveg á bakvið réttindi sem þeim eru tryggð í siðmenntuðum samfélögum. Þessi réttindi sem málfrelsið er, sem prentfrelsið er og sem óljós heimild fréttamanna til að vernda heimildarmenn sína er líka.

Ég efast ekki um að Sigmundur Ernir, Akureyringurinn góði, kann þessa réttindaupptalningu upp á tíu og getur fimlega varist verði að honum vegið af yfirvöldum, hinir skósveinarnir er gengið hans fylla njóta góðs af því.
En réttindi eru eitt, skyldur annað. Hvaða skyldum þarf fréttamaður að sinna, hvaða skyldur eru lagðar á herðar almennings í landinu, hvað fylgir þessum réttindum okkar, hvaða verðmiði er svo á vörunni í vestrænum heimi. Segja má að í kaupum og sölum á réttindum okkar síðan 1789 hafi gleymst að rétta verðmiðann að almenningi og hann einungis sannfærður um að í siðmenningu eigi hann í krafti þess að vera mennskur eigi hann að njóta réttinda sem eru sjálfsögð og svo koma skyldurnar í smáa letrinu.

Sitt má líka segja um viðlíka heilagsandahoppara sem nafni minn Jónsson í Byrginu er, hann hefur eins og allir landar okkar fullan rétt til að iðka trú sína og misbjóða almenningi í krafti hennar. Já misbjóða segi ég því að ef einhversstaðar leynist glóð í reyknum sem Kompás benti landsmönnum á að stigi til himins upp úr Byrginu er hægt að draga ályktun þess efnis að kristilegur kærleikur sé annað en boðað er í húsakynnunum. Svo er það kynhegðanin sem allir jesúa sig yfir og krossa í bak og fyrir, eftir því sem ég kemst næst er ekkert sem ólöglegt er í því en siðferðilegur grunnur Guðmundar til að húðstrýkja saklausar stúlkurnar og klemma er vægast sagt tæpur.


Réttur manna beggja vegna línunnar er tryggur í lögum en eitthvað skortir á að skyldurnar séu mönnum kunnar - ég segi því: Lokum á Guðmund og Byrgið, leyfum fagmönnum að koma á fót meðferðastofnunum (látum vera að hengja Guðmund fyrir að standa að afeitrunum sem ólöglegar eru) hvar menn velja sér hvort einhver almáttugur líknar þeim eða heilbrigð skynsemi og nýjustu lyf vísindamanna. Hreinsum til í fréttaliði stöðvarinnar sem hóf leikinn og hjá öllum sem fylgt hafa í kjölfarið, persónulega hef ég þá trú á Sigmundi að hann eigi að vera fyrstur til að sjá að svona gengur ekki og endurmenntun fréttamanna er orðin algjört 'möst.'

Guðmudnur Egill Erlendsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband