22.1.2007 | 00:48
Nú fer sól að hækka á lofti
Fyrir okkur, sem erum komin á sjötugsaldurinn og munum tímana tvenna (!), er alltaf gaman að rifja upp jólin á Akureyri um miðja síðustu öld. Þá var bara einn barnaskóli, einn gagnfræðaskóli, tvö kaupfélög, þrjár leigubílastöðvar enda fátt um einkabíla og svo auðvitað tveir barir: Didda-bar og Litli-bar sem báðir gerðu út á bindindi og fagurt líferni í hvívetna enda þótt einhverjir þættust merkja þar óreglu endrum og sinnum einkum þegar togarar voru í höfn. Þar var oft gott að læðast inn og kaupa Valash, Lindubuff og bolsíur allt eftir kaupgetu hvers dags sem oftast var í beinum tengslum við hvað tókst að selja mörg eintök af Degi þá vikuna á kaupfélagshorninu við brunahanann stóra.
Svo svifu fyrstu snjóflygsurnar til jarðar á haustin og boðuðu komu vetrarins. Við fórum að búa okkur undir norðan stórhríðarnar þegar ekki sást milli húsa, Laxá stíflaðist og gat ekki búið til rafurmagnið sem aftur leiddi til þess að kveikt var á kertum og frostrósir mynduðu ævintýraheima á gluggunum sem við hurfum til. Þar var auðvelt að gleyma sér og lofa blessaða stórhríðina sem að lokum hafði hlaðið niður kynstrunum öllum af snjó sem var svo leikvöllur okkar á Eyrinni næstu daga. Þá var stokkið fram af húsum og spennistöðvum og kútvelst í snjósköflunum með bægslagangi og hávaða. Þetta voru sannkallaðir dýrðardagar sem aldrei koma aftur eða hvað?
Fyrr en varði var farið að styttast til jóla. Fyrstu teikn þeirra birtust þegar kaupfélagsstjarnan var fest upp milli Hótel KEA og aðalstöðva KEA og í kjölfarið halastjarnan góða milli pósthússins og Amaró. Þarna stóðum við krakkarnir og dáðumst að þessum ljósum prýddu stjörnum sem settu sannarlega svip á bæinn og boðuðu komu jólanna. Og áfram brutust bændur í öllum þessum snjó með mjólkina í samlagið, ýmist á mjólkurbílum eða sleðum sem hestar drógu héðan og þaðan úr fjósum Eyjafjarðar. Þeirra beið líka hestahótel, sem átti sér engan líka, með tilheyrandi viðurgjörningi og atlæti. Þá var gaman að koma við á hestahóteli Carolínu Rest á leiðinni til eða frá Barnaskóla Íslands og virða fyrir sér sveitt hrossin sem dampaði af svo varla sáust handa skil þar sem þau hámuðu í sig töðuna góðu. Úti fyrir voru húsbændur þeirra að taka út í kaupfélaginu nauðþurftir til heimabrúks og spjalla við aðra bændur og innanbúðarfólk um lífið, tilveruna og aðra Framsóknarpólitík! Þannig var lífið í miðbænum nær jólum og raunar langt fram á þorra og jafnvel góu. Bílaumferð var lítil en þeim mun meira af gangandi fólki sem bar pinkla sína stóra og smáa eða drógu á sleðum til síns heima.
Jólin á Akureyri um og eftir miðja síðustu öld voru því með nokkru öðru sniði en við þekkjum nú til dags. Þótt allir tímar og allir staðir hafi til síns ágætis nokkuð þá dreg ég í efa að unnt sé að jafna jólaösina í miðbæ Akureyrar um miðja 20. öldina við nokkuð annað af því tagi. Í endurminningunni er það allt vafið þokukenndri draumsýn enda var fátt skemmtilegra en að ráfa í snjónum í fólksmergðinni milli búða allt sunnan frá Verzlun Eyjafirði, kaupfélagsbúðunum, Vöruhúsinu í París, Bókabúð Rikku, Amaró, Brauns-verzlun og norður til Pöntunarfélagsins fyrir ofan hið ráðhúslausa Ráðhústorg. Á miðju torginu var tréð mikla, sem í mínum huga varð eftirlíking skilningstrés góðs og ills enda var það vitni að hinni fjölbreyttu flóru mannlífsins sem blasti við til allra átta í miðbænum. Tré þetta bjó yfir mörgum fögrum og rómantískum leyndarmálum, þar sem vel fór á með fólkinu sem kom af böllunum á Hótel Norðurlandi og Alþýðuhúsinu (Allanum). En það varð líka vitni að ýmsu misjöfnu og jafnvel hroðalegum atburðum, sem nauðsyn bar til að halda leyndum þar sem annars var hætta á upplausn í þessu litla samfélagi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Því gekk sú flökkusaga fjöllunum hærra að þeir sem óttuðust lausmælgi trésins hafi beitt sér fyrir því að það var höggvið og kastað á hauga. Sagt er að mörgum hafi létt ákaflega og fengið aftur lífslöngunina sem skertist mjög í hvert sinn sem þeir litu þetta lífsins tré. Ekki veit ég um sannindi þess en miðað við öll þau ævintýri, sem gerðust í minni æsku á Akureyrinni, er þessi söguskýring ekkert ótrúlegri en margt af því sem þar gerðist í raunveruleikanum. En það er saga sem bíður betri tíma.
Gleðileg jól.
Ingólfur Sverrisson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.