Akureyri við áramót

Nú er árið að líða „í aldanna skaut,” eins og skáldið sagði. Áramótin á næsta leiti og þá horfa menn yfir atburði ársins sem er að renna sitt skeið á enda og velta fyrir sér hvort það hafi verið öðrum árum betra eða kannski verra – nú eða bara ósköp venjulegt ár sem rennur saman í tímamóðuna miklu og sker sig ekkert úr. Um þetta er ekki hægt að búa til eina snyrtilega kenningu því hvert ár er bundið persónulegum minningum, atburðum afmarkaðra svæða eða þjóða og svo veraldarinnar allrar. En þar sem mér er bærinn minn góði efst í huga nú eins og endranær þá vík ég talinu að honum og því sem mér finnst hafi gerst þar markverðast á árinu.

 

Markverðasti atburður ársins á Akureyri tel ég tvímælalaust vera samþykkt bæjaryfirvalda frá 27. september um nýtt aðalskipulag bæjarins þar sem mið er tekið af vilja fjölmenns íbúaþings um endurskipulagningu miðbæjarins og niðurstöðum hugmyndasamkeppni í framhaldi af því sem Akureyri í öndvegi stóð fyrir. Í rökstuðningi fyrir þessari niðurstöðu lögðu bæjaryfirvöld áhersla á eftirfarandi forsendur:

Unnið verður áfram að útfærslu síkis frá Pollinum inn að Hafnarstræti, í samræmi við tillögu sem hlaut fyrstu verðlaun. Jafnfram verður hugað að þrengingu Glerárgötunnar frá gatnamótum við Drottningarbraut upp til móts við íþróttavöllinn, í samráði við Vegagerðina. Samhliða verður unnið að tillögum um breytt bílastæðafyrirkomulag í miðbænum, með aukinni áherslu á götustæði og bílageymslur. Í samræmi við óskir íbúa og verðlaunatillögur verður tekið tillit til eldri byggðar á svæðinu og kappkostað að skapa skjólsæla, sólríka og aðlaðandi byggð.”

Vilji fólksins

Þessi ákvörðun er í samræmi við niðurstöður sérstakrar dómnefndar í arkitektasamkeppninni sem sagði í umsögn sinni: „Fyrirhugað síki er lykilatriði í mótun forms og ásýndar miðbæjarsvæðisins. Með síkinu eru endurheimt tengsl miðbæjarsins við sjóinn og til verða sólrík og skjólsæl götu- og torgsvæði og lóðir í hjarta bæjarins.”

Með þessari samþykkt aðalskipulags bæjarins voru meginlínur lagðar um framtíðarþróun miðbæjarins og staðfest það fyrirkomulag sem kynnt var fyrr á árinu þegar lóðir á þessu svæði voru auglýstar. Þetta voru því stórtíðindi í mínum huga og forsenda þess að hægt væri að hefjast skipulega handa um það áhugamál íbúaþingsins að fá meira skjól og birtu í miðbæinn og tengja hann betur við Pollinn. Áhugi fjárfesta var vakinn og kepptust þeir um að fá að koma að þessari uppbyggingu sem er auðvitað forsenda þess að unnt verði að fjármagna þessar miklu framkvæmdir. Einn þeirra orðaði það svo: „Verði síkið ekki að veruleika þá hverfur sérstaðan og nýr miðbær Akureyrar mun ekki hafa neitt upp á að bjóða sem ekki er að finna í öðrum miðbæjum af sambærilegri stærð. .... Sjávarsíkið er því bókstaflega gulls ígildi, bæði fyrir fjárfesta og bæinn í heild.” Hann tekur einnig fram að ef horfið yrði frá að gera síkið megi búast við að áhugi fjárfesta minnki og þeir snúi sér annað. Enda þótt við ákveðum að sjálfsögðu sjálf skipulag í okkar bæ þá er okkur líka hollt að hlusta á þá sem kunna að meta það og sýna því áhuga.

Eins og oft vill verða heyrðust úrtöluraddir og gekk jafnvel svo langt að ein meginforsenda þessa aðalskipulags – gerð sjávarsíkisins - var höfð í flimtingum og framreiddir brandarar um gerð þess og tilvist á mjög svo óábyrgan hátt þar sem engin tilraun var gerð til að styðja þennan frumstæða málflutning með haldbærum rökum.. En skynsamt fólk lætur slíkt ekki trufla sig – eða hvað?

Nýtt hljóð komið í strokkinn

Fyrir nokkru kynnti einn bæjarfulltrúi, sem harðast berst á móti síkinu, að hann vildi láta kjósa um það í tengslum við næstu alþingisskosningar. Þá var það sem sá ágæti maður, Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs, lýsti því yfir að slík kosning væri óþörf þar sem ekki stæði til að fara í þessa framkvæmd a.m.k. ekki á næstu árum eða jafnvel áratugum. Ég hélt í fyrstu að mér hefði misheyrst og trúði ekki mínum eigin eyrum – sem hafa þó þurft að þola margt skrítið á langri ævi! Nýlega var búið að samþykkja aðalskipulag þar sem umrætt sjávarsíki var þungamiðjan en svo allt í einu látið eins og það komi þessu máli ekkert við og það af sjálfum formanni bæjarráðs.

Skýringa óskað

Þarna urðum við félagarnir í Akureyrir í öndvegi alveg klumsa og bárum því formlega fram spurningu um málið við bæjaryfirvöld. Þau svöruð með eftirfarandi bókun í bæjarráði þann 7. desember sl.

Meirihluti bæjarráðs samþykkti nýlega að ganga til viðræðna um uppbyggingu á tveimur byggingareitum í miðbænum. Við undirbúning þess máls var það sameiginlegur skilningur (lbr. mín) meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn að ekki verði ráðist í það verkefni að þrengja Glerárgötu og grafa síki inn í átt að Hafnarstræti á næstunni (lbr. mín), m.a. vegna þess að slík framkvæmd er háð samþykki og þátttöku Vegagerðarinnar. Í verðlaunatillögu Graeme Massie var gert ráð fyrir að tengja miðbæinn betur við sjóinn og að vatn væri meira áberandi í miðbæjarhugmyndinni. Þessar áherslur verða áfram leiðandi í samstarfi bæjaryfirvalda við þá aðila sem fyrirhugað er að ræða við um uppbyggingu á reitnum.”

Ekki skýrðist málið við að lesa þennan samsetning. Hvað er átt við með „sameiginlegum skilningi” sem snýr að því að framkvæma ekki megintillöguna sem samþykkt var með aðalskipulaginu ellefu vikum áður og auglýst var þegar kallað var eftir áhuga fjárfesta? Getur eitthvað sem heitir „sameiginlegur skilningur” kollvarpað nýsamþykktum ákvörðunum um uppbyggingu miðbæjarins? Getur verið að óljósar setningar um að vatn verði meira áberandi komi í stað þeirrar ákvörðunar sem búið var að taka um gerð síkisins? Á þetta bara að flæða svona áfram á sem auðveldastan hátt að hætti vatnsins?

Auðvitað lá alltaf fyrir að ræða þyrfti við Vegagerðina og fleiri aðila um málið enda er það bara eitt af þeim verkefnum sem fyrir liggur þegar koma á aðalskipulaginu til framkvæmda.. Það er vissulega hægt að gera „á næstunni” ef áhugi er á því.

Hrossakaup?

Ég fæ það því miður á tilfinninguna að þessi málflutningur sé bara fyrirsláttur í einhverjum pólitískum hrossakaupum innan bæjarstjórnar sem ég hvorki vil kynnast eða reyna að skilja. Þau eru mér ekki að skapi.

Hins vegar er það mikið umhugsunarefni að öll sú opna umræða sem fór fram á íbúaþinginu og í tengslum við arkitektasamkeppnina ásamt með frábærum vinnubrögðum dómnefndar og sérstaks stýrihóps bæjarstjórnar, skuli fá þessa óvönduðu meðferð. Eftir allt sem á undan er gengið og alla þá samstöðu sem bæjarbúar sýndu er undarlegt að þurfa að horfa upp á að bæjaryfirvöld loka sig inni og láta svo frá sér fara einhvern „sameiginlegan skilning” án nokkurs rökstuðning og án minnsta samráðs við þá sem unnið hafa hörðum höndum að máli þessu frá upphafi. Það sem sérfræðingar og álitsgjafar töldu afar snjalla lausn var vegið og léttvægt fundið og taldar upp ódýrar skýringar á frestun eða jafnvel fráhvarfi, sem eru eingöngu til marks um að bæjarstjórn veigrar sér við að koma sér að verki.

Nýtt ár vekur vonir

Þegar svona er komið hljóta menn að velta fyrir sér til hvers var barist.

En vonandi sér bæjarstjórnin að sér meða nýju ári og hækkandi sól og vinnur vasklega að því að koma samþykktu aðalskipulagi til framkvæmda af festu og krafti. Nú er lag til að sýna og sanna að Akureyringar vilja og geta tekið vel til hendi og eru hættir þessu sífellda hiki þegar mikil og knýjandi framfaramál bíða úrlausnar.

Óska Akureyringum og öllum sem þessar línur lesa farsældar á nýju ári.

Ragnar Sverrisson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pollurinn

Sýkið er málið
skrifað af Gísli Aðalsteinsson, January 02, 2007

Ég er alveg sammála þér Raggi með það að þetta sýki er málið. Í endurskipulagningu miðbæjarsvæðisins þarf að gera eitthvað sem að skapar bænum sérstöðu og gerir hann fallegan og eftirminnilegan.

Umskipti
skrifað af Ingimar E., January 04, 2007

Mér sýnist það bara vera málið að þeir sem ráða hafa bara hlutina eins og þeim hentar, burtséð frá því hvað hefur áður verið samþykkt eða hver vilji bæjarbúa er. Ég hélt að með nýjum mönnum í Umhverfisráði/skipulagsnefnd yrði meira tillit tekið til athugasemda eða vilja bæjarbúa en með nýjustu samþykktum Skipulagsnefndar í dag virðist vera sem allt tal um slíkt hafi verið innantóm orð. Þetta var ekki í lagi á síðasta kjörtímabili og því miður virðist ekkert hafa breyst!

...
skrifað af Helgi Már Barðason, January 05, 2007

Mæltu manna heilastur, Ragnar. Úrtöluraddirnar hafa löngum verið háværar á Akureyri og ótrúlega áhrifamiklar. Vonandi er betri tíð í vændum.

Athugsemd v/ummæla Ingimars Eydal
skrifað af Jón Ingi Cæsarsson, January 05, 2007

sæl öll.

Ingimar Eydal vinur minn virðist ekki fylgjast vel með. Tvö stór mál hafa verið afgreidd frá skipulagsnefnd á síðustu mánuðum og athugasemdir hafa borist við. Það er skipulag við Keilusíðu og skipulag á Brekkuskólareit. Báðum þessu tillögum var breytt mikið vegna athugasemda og reynt að nálgast sjónarmið þeirra sem gerðu athugsemdir. Þær verða báðar til afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar. Um flest annað hefur ríkt sátt. Miðbæjartillögur hafa ekki borist skipulagsnefnd og hafa þar af leiðandi ekki fengið þar umfjöllun. Þær hafa verið kynntar á Amtsbókasafninu og þar hafa bæjarbúar getað kynnt sér þær. Ég tel líklegt að þær komi til nefndarinnar á næstu vikum eða mánuðum. Ég kannast ekki við að umrætt síki hafi verið fellt niður það er á aðalskipulagi sem afgreitt var nýlega...eru menn ekki farnir að fara nokkuð fram úr sér. Það er ekki skipulagsmál hvenær það verður grafið...það er fyrst og fremst spurning um forgangsröð og tímasetningu. Það er í aðalskipulagi síðast þegar ég vissi og stendur ekki til að fella það út mér vitanlega.

Samfylkingin hvað er það.
skrifað af Óðinn Svan Geirsson, January 06, 2007

Ég er búinn að fylgjast með þessari umræðu ú fjarðlægð síðustu ár,hélt að þetta yrði klárað með nýrri bæjarstjórn.Ég þarf greinilega að finna mér nýjan flokk að styðja þegar ég flyt til Akureyrar á næstunni.

Verkfælni
skrifað af Ragnar Sverrisson, January 06, 2007

Jón Ingi segir að ekki hafi verið fellt úr aðalskipulagi að gera síkið margumtalaða og upplýsir okkur fáfróða að það sé ekki skipulagsmál hvenær síkið verður grafið heldur sé það sé spurning um forgang og tímasetningu. Ekki er hins vegar ljóst hvaða verk það eru sem þurfa að hafa forgang og gætu því færst aftar í framkvæmdaröðinni ef menn kæmu sér að verki að grafa síkið. Þess vegna eru þessi viðbrögð að mínum dómi einfaldlega til marks um verkfælni bæjarstjórnar sem hefur ekki þann kraft, sem nauðsynlegur er til að koma markaðri stefnu til framkvæmda. Sem betur fer búa önnur sveitafélög ekki við slíka verkfælni og nægir að nefna kraftmikla uppbyggingu í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík. Í þeim bæjum er ekki látið nægja að samþykkja skipulag eins og í miðbænum okkar og það svo sett upp í hillu og látið bíða „betri tíma.” Þar er einfaldlega drifið í hlutunum.
Ég er því ekki hissa á því að Óðinn vinur minn Svan hafi orðið fyrir vonbrigðum með sitt fólk þegar það er komið í meirihlutaaðstöðu í bæjarstjórn og sýnir af sér þá linkind sem birtist í máli þessu. Hann hótar af þeim sökum brotthlaupi úr flokki sínum. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að hann ætti bara að halda sig þar áfram og einbeita sér frekar að því að vekja liðið af sínum væra blundi. Með því gerði hann bænum áreiðanlega meira gagn heldur en að leggjast í flokkaflakk.


Ekki svona viðkvæmur
skrifað af Ingimar E., January 07, 2007

Jón Ingi má ekki vera svona viðkvæmur, ég kemst ekki með tærnar þar sem hann hafði hælana í gagnrýni á meirihluta þann sem var hér áður en Samfylkingin komst til valda. Ég bíð ennþá auðvitað spenntur eftir því að öllu því sem þeir ætluðu að drífa í að koma í framkvæmd þegar þeir kæmust til valda. Síðan standa þeir auðvitað frammmi fyrir því sama og allir sem bera ábyrgð að þurfa að forgangsraða og jafnvel bakka með hlutina. Það er auðvitað túlkunaratriði hversu langt er "ásættanlegt" að ganga með að taka tillit til athugasemda við skipulag, ég gagnrýndi oft vinnubrögð Umhverfisráðs þegar síðasti meirihluti var við völd vegna þess sama og ég ræddi hér að ofan. Þegar ég las svör við athugasemdum um húsabyggingu á Sundlaugarlóðinni, sem í þessu vinnuferli heitir breyting á deiliskipulagi Brekkuskólasvæðis, þá gat ég hvergi séð nein efnisleg svör önnur en þau að fyrirmyndin væri í Reykjavík og því þyrftum við að gera eins?! Afar einkennileg rök það. Skipulagsnefnd forðast auðvitað að ræða hvernig hefur verið staðið að þessu máli og það er auðvitað merkilegt að menn skuli forðast að taka afstöðu til þess hluta málsins.

Íbúalýðræði hvað er nú það
skrifað af Benedikt Guðmundsson, January 08, 2007

Það er með ólíkindum hvernig núverandi meirihluti túlkar íbúalýðræðið. Jón Ingi Cæsarsson segir að tvö stór mál hafa verið afgreidd frá skipulagsnefnd á síðustu mánuðum og athugasemdir hafa borist við Það er skipulag við Keilusíðu og skipulag á Brekkuskólareit. Báðum þessu tillögum var breytt mikið vegna athugasemda og reynt að nálgast sjónarmið þeirra sem gerðu athugsemdir, segir hann. Vissulega var aðeins tekið tilllit til athugasemda sem komu frá u.þ.b. 800 íbúum vegna skipulags við Keilusíðu en sú lausn er ekki til bóta en því miður þá hefur almenningur ekki úthald til að fylgja málunum eftir og nýtir skipulagsnefn sér það með því að koma aftur og aftur með nýja tillögu þar til enginn nennir lengur að gera athugasemd. En að halda því fram að eitthvað tilllit hafi verið tekið við athugasemdum 1310 íbúa við Brekkuskólareitinn er af og frá. Þar er ekkert tilllit tekið til athugasemda bæjarbúa og reynt að telja íbúum bæjarins trú um að lausnin með stækkun sundlaugarinnar sé í sátt og samræmi við vilja þeirra sem hafi hagsmuni að gæta. Það er einfaldlega rangt. Annar rökstuðningur skipulagsnefndar um þetta mál er með ólíkindum og gjörsamlega marklaus og er einfaldlega móðgun við næstum 9% bæjarbúa sem skrifuðu undir vel rökstuddar athugasemdir.Til að mynda það að samspil líkamsræktarstöð og sundlaug fari svo vel saman er gjörsamlega út úr kortinu þegar horft er til þess að það hefur aldrei verið rætt við stjórnendur sundlaugarinnar eða komið inn á bort IRA. Á morgun koma tillögur skipulagsnefndar fyrir bæjarstjór til endanlegrar ákvörðunar. Þá reynir á hvort bæjarfulltrúar hafa sjálfstæðan vilja og taka afstöðu með íbúum og hafna tillögu skipulagsnefndar um að heimila byggingu líkamsræktatstöðvar á sundlaugarlóðinni eða hvort núverandi bæjarstjóri nær að knýja þetta mál í gegn. Ef málið fer óbreytt í gegn munu þeir, sem stóðu að undirskriftarlistum gegn skipulaginu, leita réttar síns hjá Félagsmálaráðuneytinu og þess vegna ganga skrefinu lengra og láta reyna og hvort útskurðarnefnd skipulagsmála geti tekið málið fyrir. Frá því þetta mál hófst hefur komið betur og betur í ljós hvað það var ílla kynnt og hvað bæjarfulltrúar voru lítið inn í málinu. Vonandi hefur sú umræða sem hefur átt sér stað leitt til þess að þeir séu betur upplýstir og taki afstöðu m.t.t. sjónarmiða bæjarbúa.

sundlaugarmál og fleira.
skrifað af Jón Ingi Cæsarsson, January 08, 2007

Benedikt og Ingimar...IRA hefur fjallað um máli nýverið og gerði engar efnislegar athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi. Samkvæmt úttekt á svæðinu sem unnin var af tveimur arkitektum er kveðið upp úr með að ekki sé pláss fyrir 10 brauta sundlaug á svæðinu. Því var tillögu að deiliskipulagi breytt og gert ráð fyrir lengingu núverandi laugar. Samvkæmt þeirri tillögu kemst hvoru tveggja vel fyrir auk þess sem ákvæði um 50 metra sundlaug í málefnasamningi er komið í farveg. Minnihlutinn sat hjá en ekki af skipulagslegum ástæðum. Hvort menn vilja svo leyfa líkamsrækt þarna er ákvörðun bæjarstjórnar en ekki skiplagsmál. Hvað varðar 9% bæjarbúa sem skrifuðu undir þá er þeim svarað á rökstuddan hátt og efnislega út frá skipulagslegum sjónarmiðum eins og lög gera ráð fyrir. 91% bæjarbúa virðast því sáttir við þær tillögur sem uppi eru samkvæmt sömu skilgreiningu á hinn veginn. Svör við skipulagathugsemdum geta aðeins verið efnisleg en ekki tilfinningaleg. Skipulagslög heimila ekki annað.

Benedikt virðist skilja skipulagslög þannig að ef gerðar eru athugasemdir við skipulagstillögu þá þýði það að hætt verði við framkvæmdir. Það er ekki þannig heldur eiga skipulagsyfirvöld að taka efnislega á þeim og aðlaga tillögu að athugsemdum ef ástæða er talin til Það var gert í Kjalarsíðudeiliskipulagi og tillagan aðlöguð sjónarmiðum 90% þeirra athugasemda sem fram komu. Tillagan var siðan samþykkt samhljóða í skipulagsnefnd og þeim athugsemdum sem fram komu svarað efnilega og rökstutt. Reiturinn hefur verið skilgreindur á þennan hátt í tvo áratugi og tillagan ætti því engum að koma á óvart.

Ragnar, síkið og forgangsröð
skrifað af Jón Ingi Cæsarsson, January 08, 2007

Mér þætti afar vænt um að Ragnar kæmi með efnislega tillögu um hverju eigi að fresta fyrir gerð síkis. Framkvæmdafé bæjarins er fullnýtt og ef síkið á að koma þarf að fresta öðru. Ragnar .. eigum við að fresta Naustaskóla eða ef til vill íþróttahúsi eða ef til vill gatnaframkvæmdum...t.d. Miðhúsabraut eða gatnagerð í iðnaðarsvæðinu í Nesjahverfi. Þegar menn vilja að framkvæmt verði fyrir hundruð milljóna er ábyrgt að koma með tillögu að nýrri forgangsröðun. Núverandi meirihluti vill frekar nota framkvæmdafé til byggingu skóla og leikskóla eins og staðan er í dag. Ragnar vill greinilega aðra forgangsröð sem gaman væri að heyra.

Góð og vönduð grein
skrifað af Stefán Friðrik Stefánsson, January 08, 2007

Sæll Raggi og gleðilegt ár

Má til með að hrósa þér fyrir vandaða og vel skrifaða grein. Það var áhugavert og gott að lesa hana. Skemmtilegar pælingar, sem eiga vel við nú í upphafi ársins.

mbk. Stebbi

Engu þarf að fresta
skrifað af Ragnar Sverrisson, January 09, 2007

Engu þarf að fresta

Það hefur trúlega farið fram hjá Jóni Inga að Akureyri í öndvegi gaf út vandað upplýsingarit í vor þar sem sýnt er fram á að bæjarsjóður þarf ekki að taka fé frá öðrum nauðsynlegum framkvæmdum í bænum til að tryggja fjármögnun við gerð sjávarsíkisins. Þar nefndi ég að síkið er ekki einasta snjöll lausn til að ná markmiðinu um skjólsælan og bjartan miðbæ heldur hefur hún einnig vakið áhuga fjárfesta sem er forsenda þess að unnt verði að fjármagna gerð síkisins og umhverfi þess án þess að taka til þess fjármuni úr bæjarsjóði. Því sé óttinn, um að þessar framkvæmdir taki peninga sem nýta þarf til annarra hluta, á misskilningi byggður og algjörlega ástæðulaus.
Af þessu leiðir að spurning Jóns Inga til mín, um að ég svari því hverju á að fresta, er aðeins til marks um að hann og hans félagar hafi ekki kynnt sér málið en berjast á móti síkinu á kolröngum forsendum. Þetta er einfaldlega alls ekki spurning um nýja forgangsröðun heldur um að nýta það tækifæri sem núverandi áhugi fjárfesta hefur gefið til að fjármagna framkvæmdir í miðbænum án þess að ganga á bæjarsjóð. Það er nefnilega engin trygging fyrir því að sá áhugi endist þar til bæjaryfirvöld hafa framkvæmt öll önnur nauðsynleg verkefni í bænum sem auðvitað eru endalaus.
Í áðurnefndu upplýsingariti eru færð gild rök fyrir því að gerð sjávarsíkisins og brúar yfir það kosti u.þ.b. 300 milljónir króna sem fellur líka að hluta til á rikið. Á hinn bóginn áætla sérfræðingar að tekjur bæjarsjóðs af lóðarsölu á þessu svæði geti orðið ca. 600 milljónir króna. Mismunurinn er því litlar 300 milljónir sem nýta má til að ganga frá ýmsu öðru í miðbænum og til að endurnýja Skátgagilið. Samt verður áreiðanlega eitthvað eftir til að vinna að þeim ágætu framkvæmdum sem Jón Ingi nefnir og létta þar með undir með bæjarsjóði en ekki öfugt.
Ég held því enn í vonina um að menn hætti þessum úrtölum og komi sér að verki áður en það mikla tækifæri, sem afrakstur starfs Akureyrar í öndvegi hefur skapað, glutrast úr höndum okkar.

Ragnar Sverrisson


Miðbærinn
skrifað af Sævar Gunnarsson, January 10, 2007

Sæll Ragnar.
Þakka vasklega framgöngu þína í málaflokknum Akureyri í öndvegi.
Kvikum ekki frá verðlaunateikningunni - síkið að Hafnarstræti.
Við bæjarbúar verðum að standa saman og veita með því bæjarfulltrúum okkar aðhald.
Áfram Akureyri í öndvegi og við uppskerum fallegri og betri bæ.

Hrafnaspark Jóns Inga
skrifað af Benedikt Guðmundsson, January 10, 2007

Alveg makalaust hvað Jóni Inga tekst ílla upp með að verja vitleysuna sem endurspeglast í ákvörðun skipulagsnefndar í sundlaugarmálinu sem og öðrum. Í fyrsta lagi varðandi IRA þá hlýtur þú, Jón Ingi, að skilja að þegar ég tala um aðkomu IRA að málinu þá á ég við í upphafi ferilsins þegar ráðið var ekki spurt um afstöðu, frekar en aðrir sem málið varðar, en ekki eftirá þegar ráðið, af eigin frumkvæði, lét gera úttekt á svæðinu. Hvað varðar þá niðurstöðu arkitektanna um að ekki sé hægt að koma 10 brauta laug fyrir þarna hefur ekkert með grundvallaratriði málsins að gera enda var ekki verið að fjalla um lengingu sundlaugarinnar í skipulagstillögunni sem mótmælt var af 9% íbúanna. Síðan skulum við ekki gleyma því að það er ljótt að segja ósatt eins og skipulagsnefndin leyfir sér með því að halda því fram að sú lausn sem IRA boðar varðandi 50 m sundlaug sé í sátt við forráðamenn sundfélagsins Í þriðja lagi þá er það ekki stórmannlegt að benda á bæjarstjórn sem sökudólg í því að heimila byggingu líkamsræktarstöðvar á lóðinni því það var og er skipulagsnefnd sem tók ákvörðunina um að mæla með því við bæjarstjórn að heimila bygginguna með því að samþykkja og leggja til þessa skipulagstillögu. Hugsanlega má fyrirgefa ykkur að hafa látið blekkjast af samningi sem lagður er til grundvallar skipulagsbreytingunni og það er e.t.v. það sem þú ert að benda á að ykkur hafi verið skipað að genga frá skipulagstillögu svo hægt væri að standa við innihald samningsins sem enginn vissi að væri undirritaður fyrr en hann birtist mönnum. Það er síðan hjákátlegt að heyra mann sem vældi í minnihlutanum um ólýðræisleg vinnubrögð meirihlutans tala um að lýðræði felist í afskiptaleysi 91% bæjarbúa og að þögn sé sama og samþykki. Skyldi það ekki vera frekar það að flestir bæjarbúar nenna einfaldlega ekki að standa í svona karpi og líta á það sem tímaeyðslu að hafa opinbera skoðun á einstökum málum. Gerræðisleg vinnubrögð í skipulagsmálum bera keim af því að þeir sem ákvarðanir taka vita að þeir komast upp með það vegna þess hversu heftir bæjarbúar eru gagnvart því að láta í sér heyra opinberlega. Allavega ætti þessi bæjarstjórnarmeirihluti að hætta því að flíka því hversu íbúalýðræðið sé frábært hérna á Akureyri. Síðan finnst mér dapurlegt til þess að hugsa að þessi niðurstaða skuli vera til komin vegna hótanna aðila um að slíta bæjarstjórnarsamstarfinu.Ekki er það merkileg pólitísk sýn að velja frekar að hanga við stjórnvölin en fylgja samfæringu sinni en framganga ykkar Samfylkingarmanna í þessu máli einkennis af því. Sjallarnir mega þó eiga það að þeir stóðu sem einn maður að baki síns foringja, sem auðvitað er sá sem hefur lagt mesta áherslu á að koma þessu máli í gegn, enda hefur hann sennilega talið það koma ílla út fyrir sig persónulega ef þessu hefði verið synjað. En hver veit nema þetta eigi eftir að koma ílla út fyrir hann og þá alla bæjarstjórnina. Menn hafa fengið vítur fyrir minni misgjörðir. Varðandi Kjalarsíðuna þá vita allir að lokarniðurataðan er afrakstur prútts milli tillöguhöfundar og skipulagsnefndar. Þú mannst það kannski ekki, Jón Ingi, að Umhverfisráð heimilaði tillöguhöfundi að leggja fram nýja tillögu, í samráði við skipulags- og byggingafulltrúa, þar sem unnið yrði með byggingu sem samsvarar hámarkshæð fjölbýlishúsa við Kjalarsíðu. Hann kom hinsvegar með teikningar sem voru hæðinni hærri en þið höfðuð heimilað og að sjálfsögðu samþykktu þið það. Og þetta kallar þú að aðlaga tillöguna að 90% þeirra athugasemda sem fram komu en flestar ef ekki allar athugasemdirnar sem fram komu vildu ekki hærri hús en þau sem fyrir voru.

Pollurinn, 29.1.2007 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband