Hvað getum við gert fyrir Háskólann á Akureyri?

Háskólinn á Akureyri var stofnaður haustið 1987 og verður hann því tuttugu ára næsta haust. Það dylst engum sem hefur puttann á púlsinum hér á Norðurlandi að skólinn hefur stuðlað að miklum samfélagslegum vexti allt frá stofnun hans. Það má því með sanni segja að forustumenn skólans hafi verið og séu dugnaðarforkar með mikla framtíðarsýn sem hefur skapað skólanum þann sess sem hann hefur í íslensku samfélagi dag.

Nú tæpum tuttugu árum eftir stofnun skólans er boðið upp á fjölbreytt nám til grunnnáms á háskólastigi og einnig hefur umtalsverð aukning orðið á námsframboði til meistaranáms. Skólinn hefur á undanförnum árum vaxið fiskur um hrygg og mun sú þróun halda áfram svo lengi sem Eyfirðingar styðja vel við bakið á honum með jafn þróttmiklum hætti og verið hefur.

Ég sem nemandi við skólann og varaformaður nemendafélagsins [FSHA] hef komist að því að allt of fáir vita af því fjölbreytta námsframboði sem skólinn býður uppá. Því miður er það ekki nóg að skólinn sé frábær með fjölbreytt námsframboð, kennararnir þeir bestu í landinu, starfsfólk skólans einstaklega viðkunnanlegt og með ríka þjónustulund og félagsandinn meðal nemenda lifandi og skemmtilegur. Af þessu framansögðu þurfa væntanlegir nemendur að fá vitneskju um.

Þess vegna er svarið í dag við spurningunni með síbreytilega svarið ‘Hvað getum við gert fyrir Háskólann á Akureyri?’. Við landsbyggðarfólk og sérstaklega Eyfirðingar þurfum að aðstoða skólann við markaðssetningu svo verðandi nemendur fái að vita af því fjölbreytta námsframboði sem skólinn býður uppá.

Ég skora hér með á; fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga að styðja við markaðssetningu skólans svo hann megi halda áfram að vaxa og eflast okkur öllum til hagsbóta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pollurinn

Skipta um ríkisstjórn skrifað af Hlynur Hallsson, January 15, 2007 Svarið við spurningunni: "Hvað getum við gert fyrir Háskólann á Akureyri?" er einfalt: Skipta um ríkisstjórn. Þessi stjórn kemur því miður ekki til með að gera neitt til að efla HA. Og Kristján Þór Júl. ekki heldur. Þessvegna þurfum við að kjósa fólk sem raunverulega vill veg HA sem mestan, semsagt Vinstri græn. Og stuðlum þannig að myndun nýrrar stjórnar sem hefur áhuga á að efla skólann með meira fjármagni. En við getum byrjað strax eins og þú bendir réttilega á Steinþór, styðjum skólann og tölum hans máli. Bestu kveðjur,

Hvað getur háskólinn gert fyrir Akureyri ? skrifað af Ragnar Sverrisson, January 16, 2007 Mig langar að snúa spurningunni við vegna þess að mér finnst satt að segja að háskólinn okkar góði sé ansi einn og sér þarna uppi á klettaborgunum og láti sig málefni bæjarins litlu skipta. Hann er hreint ekkert virkur í umræðum um helstu hagsmunamál bæjarins en lifir einangraður þarna útfrá og vill fá að vera þar í friði. Háskólinn hefur því ekki stuðlað að miklum vexti hér á svæðinu ef undan er skilin eigin vöxtur. Ég hef t.d. reynslu af því að fá hann til að skoða málefni sem getur varðað bæinn miklu en hann hefur engu ansað á annað ár og lætur bara rigna upp í nefið á sér enda talar hann ekki við hvern sem er um fræðilega hluti. Þegar við bætist að þeir sem útskrifast úr skólanum yfirgefa langflestir bæinn til að leita sér að vinnu á öðrum stöðum þá er augljóst að hann hefur ekki stuðlað að því að skapa samfélagslegan vöxt hér á svæðinu enda Akureyri með daufari atvinnusvæðum landsins. Auðvitað er það ekki háskólanum einum að kenna, en samt væri honum hollt að velta fyrir sér hvað hann gæti gert fyrir bæinn en ekki bara hvað bærinn getur gert fyrir hann. Skóli er nefninlega ekki takmark í sjálfu sér heldur tæki til að bæta lífskjör og auka andann og almenna vellíðan. Svo þegar að Hlynur vinur minn og varaþingmaður vill auka endalaust fjárveitingar á háskólastigið þá held ég að hann ætti að skoða um leið og þörfina sem við blasir á grunnskóla- og framhaldsskólastiginu og þar á meðal í verknáminu. Þetta háskólakapphlaup er satt að segja orðið dálítið sjálfhverft.

Hvað hefur Háskólinn á Akureyri ekki gert fyrir Akureyri? skrifað af Baldvin Esra, January 18, 2007 Ágæti Ragnar Sverrisson Hægan, hægan. Það er nú allt í lagi að leita eftir upplýsingum og gögnum áður en staðhæfingar eins og "Háskólinn hefur því ekki stuðlað að miklum vexti hér á svæðinu ef undan er skilin eigin vöxtur" og "Þegar við bætist að þeir sem útskrifast úr skólanum yfirgefa langflestir bæinn til að leita sér að vinnu á öðrum stöðum þá er augljóst að hann hefur ekki stuðlað að því að skapa samfélagslegan vöxt hér á svæðinu enda Akureyri með daufari atvinnusvæðum landsins" er kastað fram. Þetta eru arfavitlausar staðhæfingar og það versta er að það er ekki fótur fyrir þeim. Atvinna fyrir háskólamenntaða einstaklinga er næg hér á Akureyri og samkvæmt könnunum á útskrifuðum nemendum er um 50% þeirra enn staðsettur á Akureyri. Sem er nokkuð gott þar sem ekki nema 40-50% koma frá Akureyri. Líttu á kennarana við grunnskólana og leikskólana (hæðsta hlutfall menntaðs starfsfólks á landinu), hjúkrunarfræðingana á FSA, bankastarfsmennina, vísindamennina sem starfa við hinar ýmsu stofnanir sem staðsettar eru á Borgum og stjórnendurna hjá fyrirtækjunum á svæðinu (sem annaðhvort hafa lokið námi við skólann eða sótt námskeið hjá Símey). Það er því næsta víst að Háskólinn á Akureyri hefur stuðlað að atvinnu, tækifærum og hagsæld á svæðinu (þó ekki jafnmikilli og á höfuðborgarsvæðinu, enda ekki samanburðarhæft hvað varðar tækifæri og mannskap). Það eru forpokuð viðhorf eins og þín sem gætu skemmt fyrir vel unnu starfi þúsunda einstaklinga. Ég vona að það séu ekki margir sem taka mark á skoðun þinni um Háskólann á Akureyri. Með kærri kveðju Baldvin Esra Einarsson Formaður FSHA og stoltur háskólanemi

Háskólinn v verkmenntun skrifað af Gísli Aðalsteinsson, January 18, 2007 Auðvitað er háskólinn til góðs á Akureyri en við höfum sofnað á vaktinni hvað varðar verk og tækninám. En það á almennt við á Íslandi ekki bara hér á Akureyri. Það hefur ekki tekist að þróa verk- og tækninám þannig að það skapi nægjanlega hátt launuð stör. Ég hef bent á að hugsanlega sé leiðin til þess að bæta þetta nám sú að auka samstarf við verk og tækniskóla annarstaðar í heiminum. Það sér það hver maður að á meðan það er 3x dýrar að mennta fólk í verknámi en bóknámi að þá er erfitt fyrir svoleiðis nám að þróast hér á Akureyri nema í öflugu samstarfi við aðra skóla skóla og ég vil meina að við eigum að horfa út í heim til þesskonar samstarfs.

Hljóð úr horni skrifað af Ragnar Sverrisson, January 19, 2007 Þegar ég setti fram dálítið ögrandi innlegg, í tengslum við grein Steinþórs, vildi ég láta reyna á það hvort hægt væri að fá viðbrögð úr skólanum góða eða hvort hann væri svo einangraður frá okkur bæjarbúum að þaðan heyrðist hvorki hósti né stuna þrátt fyrir frýjuorð. Mér til mikillar ánægju brást Baldvin Esra við og reiðir hátt til höggs. Hann telur að skoðanir mínar séu „arfavitlausar staðhæfingar” og þar á meðal sú kenning mín að Akureyri sé með daufari atvinnusvæðum landsins. Þetta viðhorf Baldvins er til marks um að hann er í litlu sambandi við raunveruleikann því sannarlega skortir mikið á að Eyjafjarðarsvæðið bjóði upp á jafn fjölbreytta atvinnumöguleika og flest önnur landssvæði. Mér má vera slétt sama þótt ég sé kallaður arfavitlaus og forpokaður að nefna þessar staðreyndir. Því miður hefur tilkoma háskólans, þótt góður sé, litlu breytt um þetta - a.m.k. ekki ennþá. Það sem vakir fyrir mér er að hvetja kennara og nemendur til að taka meiri þátt í því sem er að gerast hér í bænum og leggja meira af mörkum. Ég hef t.a.m. ekki orðið mikið var við þetta ágæta fólk á fjölmörgum fundum og samkomum sem ég hef sótt um atvinnu- og skipulagsmál bæjarins. Þar gæti það áreiðanlega lagt margt gott til mála en lætur ekki sjá sig utan rektor, sem oft kemur á slíkar samkomur. En það er einfaldlega ekki nægjanlegt. Ég hef komið með mál til skólans til að skoða, eins og ég nefndi í síðasta pistli, en ekki fengið neina umfjöllun hvað þá svör þrátt fyrir loforð þar um, sem margir myndu nú hreinlega kalla dónaskap. Ég verð ekki var við að skólinn ungi út mikið af vöskum brautryðjendum til að koma með eitthvað nýtt í atvinnulífið hér á svæðinu. Því miður. Það þýðir ekki að ekkert komi undan honum og allt sé ómögulegt eins og gefið er í skyn að ég sé að halda fram. Ég minni enn og aftur á að engu minni þörf er á því að efla verkmenntun á svæðinu sem er forsenda þess að við getum nýtt nýja tækni til að breyta hugviti og rannsóknum í arðbæra framleiðslu. Ég er læt mig því ekkert með það að auka þarf tengsl skólans og bæjarbúa til muna og er viss um að það verði öllum til hagsbóta.

Aukinn tengsl skrifað af Baldvin Esra, January 19, 2007 Ég er sammála þér Ragnar að það þurfi að auka tengsl skólans við bæinn og bæjarbúa. Það þýðir þó ekki að skólinn sé ekki að gera neitt fyrir neinn nema sjálfan sig. Og svo má ekki gleyma því að nemendur og kennarar eru flestir hverjir bæjarbúar. Fyrir utan þá sem eru fjarnámi um alla landsbyggð.

Einangrun háskólans? skrifað af Þóroddur Bjarnason, January 21, 2007 Óttalega er þetta nú leiðinleg umræða. Ef menn vilja líta á háskólann eins og hvert annað fyrirtæki er ljóst að eitthvað á annað þúsund manns eru hér á launum eða námslánum vegna háskólans, kaupa eða leigja húsnæði, versla í matinn og leppa utan á sig eins og gengur. Út frá slíku sjónarmiði fylgir umtalsverð velta hverjum starfsmanni og hverjum stúdent sem bætist í hópinn. Eðli málsins samkvæmt rúllar umtalsverður hluti háskólastúdenta í gegn án þess að setjast hér að – og það er besta mál. Eitt af sóknarfærum skólans er einmitt að laða stúdenta að sunnan hingað í nám, háskólinn fær greitt fyrir að mennta þá og kaupmenn bæjarins geta verslað við þá í nokkur ár. Að námi loknu fara þeir vonandi margir sína leið með hlýjan hug til bæjarins og skólans og tala máli okkar hvar sem þeir fara. Hins vegar eru háskólar líka sérkennileg samfélög þar sem fólk á það vissulega til að lifa í sínum eigin heimi. Rannsóknir og kennsla í háskólanum fylgja sínum eigin lögmálum og ýmislegt sem þar fer fram hefur enga beina skírskotun til hagsmuna bæjarfélagsins. Háskólinn stundar engar rannsóknir – háskólakennarar hafa frelsi til rannsókna og eflaust heyrist tómahljóð ef Ragnar Sverrisson biður háskólann sem slíkan um að skoða einhver ónefnd mál sem varða bæjarfélagið miklu. Hins vegar gætu ýmsir háskólakennarar haft á því fræðilegan áhuga að láta málið til sín taka, hver veit? Ég veit ekki hvort það sé rétt hjá Ragnari að starfsmenn háskólans séu eitthvað óduglegri en aðrir bæjarbúar við að sækja fundi um atvinnu- og skipulagsmál í bænum. Ég hitti yfirleitt slatta af kollegum mínum og nemendum þegar ég mæti á slíka fundi – rétt eins og maður hittir þá uppi í fjalli, niðri á amti og alls staðar þar á milli. Kannski þyrfti að merkja okkur einhvern veginn sérstaklega svo Ragnar þekki okkur úr hópi annarra bæjarbúa? Kær kveðja, Þóroddur

Pollurinn, 22.1.2007 kl. 15:10

2 Smámynd: Ragnar Sverrisson

Nauðsynleg umræða Ragnar Sverrisson Þóroddi þykir þetta leiðinleg umræða.  Það má til sanns vegar færa að  hún hefur ekki mikið skemmtanagildi eins og jafnan fylgir því þegar verið er að vekja fólk af föstum svefni. Maður verður þá stundum talsvert ringlaður, en svo kemur þetta smá saman og jafnvel gott að sjá lífið frá öðrum  sjónarhóli en birtist í draumheimum.  Það er auðvitað hárrétt, að starfssemi stórs skóla eins og H.A. fylgir ýmislegt gott fyrir samfélagið enda hef ég oft tekið fram að hann hefur gert margt jákvætt.  Það breytir þó ekki því að í mínum draumum sá ég enn meiri áhrif frá skólanum inn í þetta litla samfélag okkar hér í Eyjafirði. Það kemur vonandi með tímanum og ekki ástæða til að örvænta.  Hins vegar átta ég mig ekki á því hvers vegna starfsfólk þarna getur ekki talað við aðra bæjarbúa á jafnréttisgrundvelli vegna þess að rannsóknir og kennsla á þeim bæ fylgir eigin lögmálum.   Þegar nú Þóroddur upplýsir að í skólanum góða séu ekki stundaðar rannsóknir, en kennarar hafi samt frelsi til þess, þá er ég alveg hættur að skilja blessað almættið eins og sagt var um árið.   

Ragnar Sverrisson, 23.1.2007 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband