Horfum fram á veginn í málefnum Akureyrarvallar

Eitt af hitamálunum hér á Akureyri undanfarin ár er framtíð Akureyrarvallar. Eftir því sem árin hafa liðið hefur þó sú skoðun orðið æ meira ofan á að hans saga sé öll og horft skuli í aðrar áttir með nýtingu vallarsvæðisins sem er áberandi í miðbæjarmynd Akureyrar. Við öllum blasir að völlurinn er úreltur orðinn og vafamál verið hvort byggja eigi þar upp. Það hefur lengi verið mín skoðun að rétt sé að binda enda á núverandi nýtingu þessa svæðis í hjarta bæjarins og stokka það algjörlega upp.

Fyrir tæpu ári tók þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks af skarið með framtíð vallarins. Þá var ákveðið að taka svæðið undir útivistarsvæði, verslun og þjónustu ásamt íbúðabyggð. Með þessu náðist það fram að tengja saman núverandi miðbæ og verslunarsvæði á Gleráreyrum, kennt við Glerártorg. Þá stóð Framsóknarflokkur að fullu samkomulagi í þessum efnum, enda kynntu bæði Kristján Þór Júlíusson og Jakob Björnsson þessar tillögur. Síðan þá hefur Framsókn tekið u-beygju, reyndar í minnihluta.

Málefni vallarins voru rædd í sveitarstjórnarkosningunum fyrir tæpu ári. Þar var augljóst að vilji meirihluta bæjarbúa er að horfa í aðrar áttir með svæðið og leggja völlinn af. Þar var engin bylgja í þá átt að horfa til þess að endurbyggja völlinn. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur tekið á málinu með afgerandi hætti og öllum ljóst að vilji hans er að nýta svæðið með svipuðum hætti og tillögur fyrri bæjarstjórnarmeirihluta fólu í sér. Allar lykilákvarðanir hafa verið teknar í þeim efnum.

Það kemur því frekar spánskt fyrir sjónir að nú þegar að allar meginákvarðanir málsins hafa verið teknar og rétt er að grípa til framkvæmda við að endurhanna svæðið og þoka málum áfram dúkki einhver hópur fólks undir heitinu Vinir Akureyrarvallar. Virðist vera vilji þeirra og baráttuþema að byggja völlinn upp og halda honum óbreyttum í raun. Það er furðulegt að þessi hópur hafi ekki orðið áberandi í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra þegar í raun átti að fara fram þessi umræða um þetta.

Fyrir hópnum fer m.a. Hjörleifur Hallgríms, fyrrum ritstjóri og þekktur frambjóðandi í forvali framsóknarmanna hér í kjördæminu fyrir nokkrum vikum. Hann tjáði þá skoðun í viðtali við N4 í vikunni að það sé einhver fjöldastuðningur, sífellt stækkandi að hans sögn, í þessu máli við það að hætt verði við fyrri ákvarðanir og horft til þess að byggja völlinn upp. Ég leyfi mér að efast stórlega um að svo sé. Á víst að fara fram borgarafundur í Sjallanum í kvöld undir verkstjórn þessa hóps. Verður fróðlegt að sjá hversu margir mæti þar til leiks.

Ég tel þetta mál komið á það stig að ekki verði horft í baksýnisspegilinn. Það hefur verið tekin þessi ákvörðun að mínu mati og það hefur verið áberandi vilji bæjarbúa að þessi verði raunin. Enda er ekkert eftir nema að hefja framkvæmdir við uppstokkun mála. Það á að mínu mati að byggja upp aðstöðu hjá félagssvæðum KA og Þórs og horfa í þá átt að þar verði aðalleikvellir og aðstaða sem máli skiptir. Það gengur ekki að mínu mati að þessi stóri blettur í miðju bæjarins verði festur undir þennan völl og rétt að stokka upp.

Stefnt er að því að frjálsíþróttaaðstaða verði nú byggð upp á íþróttasvæði Þórs við Hamar í tengslum við Bogann og muni verða tilbúin fyrir Landsmót UMFÍ 2009. Þannig á það að vera og menn eiga að drífa það af að ganga frá öllum lausum endum þess. Í þessu máli skal horft fram á veg en ekki aftur. Einfalt mál það!

Stefán Friðrik Stefánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Sammála Stefáni. Ef það væri ekki fótboltavöllur þarna núna og það ætti að fara skipuleggja svæðið þá mundi engum manni detta það í hug að setja þarna fótboltavöll. Notkunin á þessu svæði í dag er afskaplega óskynsamleg.

Gísli Aðalsteinsson , 15.2.2007 kl. 14:15

2 identicon

Sammála sömuleiðis. Hjörleifur hefur nefnt að þarna væri upplagt að byggja upp og halda Landsmót UMFÍ. Ekki er ég viss um að Ungmennafélagsmenn yrðu spenntir fyrir því, aðstaðan þarna hentar í mesta lagi undir lítið héraðsmót. Og varla er skortur á knattspyrnuvöllum í bænum. Við eigum ekki að horfa til baka, heldur fram á við. Afturhaldshópur manna sem engu vill breyta má halda sína fundi ef hann vill, en ég er sannfærður um að "fjöldastuðningur" við þessa hugmynd er ekki fyrir hendi. Frjálsíþróttalíf í bænum er með miklum blóma um þessar mundir og við eigum ekki að sýna hinum mörgu og duglegu iðkendum frjálsra íþrótta vanvirðingu með uppástungum af þessu tagi.

Helgi Már Barðason (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 08:51

3 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Annars skilst mér að ákveðinn verslunareigandi sé búinn að gefast upp á að bíða eftir að bærinn ákveði hvað eigi að gera á þessu svæði og að hugsanlega muni hann setja upp verslun í Sjafnarhúsinu. Þá er hætt við að eftirspurn eftir þessari lóð minnki talsvert og ekki hægt að fá jafn hátt verð fyrir völlinn og annars mundi fást. Þá verður væntanlega hægt að afhenda byggingarverktökum völlinn til þess að byggja á honum blokkir eins og upphaflegu hugmyndir bæjarins voru.

Gísli Aðalsteinsson , 16.2.2007 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband