Kjalvegur eða ekki Kjalvegur?

Mál málanna hér í höfuðstað norðurlands þessa stundina er án efa spurningin um það hvort fólk styðji gerð hraðbrautar yfir Kjöl eða ekki. Ég er einn af þeim sem eru að reyna að átta mig á fyrirliggjandi upplýsingum til að geta tekið afstöðu (Öll hjálp er vel þegin). Eins og þetta blasir við mér þá er hægt að vera í eftirfarandi liðum.

Lið K: Vill hraðbraut yfir Kjöl sem styttir leiðina frá Akureyri til Reykjavíkur um 47 km og mögulega er hægt að stytta leiðina enn frekar um aðra 20 með því að laga vegi á suðurlandi. Vegurinn yfir kjöl yrði gerður þannig að hann tæki við umferð flutningabíla og mundi þannig hafa áhrif á flutningskostnað á norður- og austurlandi.

Lið A: Vill stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur með því að byggja upp og lagfæra þjóðveg 1 og ná þannig fram stórum hluta þeirrar styttingar sem hægt er að ná fram með nýjum Kjalveg. Margir í þessum sama hópi virðast líka vera hrifnir af því að endurbæta núverandi Kjalveg og leifa þar einungis umferð einkabíla og rútur með ferðamenn.

Það sem er að togast á í mér er að ég er ekki viss um að ég sé heillaður af þeirri hugmynd að hafa TIR í löngum röðum þeyttast yfir hálendið. Ég held að það muni taka talsvert sjarmann af hálendinu ef þú stendur einhverstaðar út í vegakanti með gustinn og gnýinn af trukkunum í bakinu þegar maður virðir fyrir sér víðernin.

Á hinn bóginn þá er ég ekki sannfærður um það sé hægt að ná fram þeim styttingum sem menn láta sig dreyma um að hægt sé að ná á þjóðvegi 1 og hefur þar mest um að segja landsbyggðar-pylsu-sjoppu-stefna og lobbyismi smærri staða sem ekki vilja missa traffíkina úr sínu byggðalagi.

Ég hallast því frekar að því að vera í liðinu sem styður Kjalveg einfaldlega vegna þess að ég held að þó að það sé tæknilega hægt að stytta þjóðveg 1 þá held ég að það sé pólitískt nánast ómögulegt. Menn skulu ekki vanmeta mátt íslenskra hreppapólitíkusa.

Annars held ég að þetta tengist svolítið öðru umdeildu máli á hér á Akureyri en það er spurningin um það hvort að við eigum að markaðssetja Akureyri sem rólyndis bæ eða ekki. Ég held að margir sem voru á móti Latabæjarhugmyndinni séu fylgjandi Kjalveg. Það er minnsta kosti mín tilfinning þó þetta eigi ekki við um mig.

Einn vinnufélagi minn hann Árni Óðins var á súpufundi hjá íþróttafélaginu Þór þar sem gamall akureyringur en núna bæjarfulltrúi í Kópavogi Ármann Ólafsson var að kynna það sem að Kópavogur er að gera í Íþróttamálum bæjarins. Íbúar í Kópavogi eru um 27 þúsund en tæplega 17 þúsund á Akureyri. Kópavogur er í ár að fjárfesta fyrir 1800 milljónir í íþróttamannvirkjum. Á Akureyri erum við að fjárfesta í íþróttamannvirkjum fyrir 300 milljónir og þykir flestum nóg. Árni sagði að honum hefði liðið eftir fundinn eins og við hér á Akureyri værum að verða eins og einhverskonar blanda af Kúbu og Amis þorpi. Svona einskonar undur þar sem ferðamenn gætu komið og séð hvernig hlutirnir voru gerðir í gamla daga.

Ég veit ekki hvort þetta er rétt hjá Árna en mín tilfinning er sú að bilið milli Akureyrar og Höfuðborgarsvæðisins sé að mörgu leiti að breikka og kannski þarf hraðbraut til þess að stytta þetta bil. Og það er alveg klárt að í samanburði við Höfuðborgarsvæðið er Akureyri krúttlegur, hæglætis bær og því verður ekki breytt nema við Akureyringar ákveðum að breyta því en til þess þarf róttæka hugafarsbreytingu sem ég er ekki viss um að sé á leiðinni.

Gísli Aðalsteinsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnljótur Bjarki Bergsson

Heilsársvegur yfir hálendið er háleitt markmið. Það er leitt að heyra hve lítið umræðan hefur þróast á 4 árum. 101 Reykjavík er ekki nafli alheimsins. Miðsóknarkraftur Reykjavíkur í samgöngukerfinu er gríðarlegur, þó ekki hafi útnesið atarna haft samgönguráðherra síðan leysti , af hólmi 28. ágúst 1974.

Arnljótur Bjarki Bergsson, 15.2.2007 kl. 01:56

2 Smámynd: Arnljótur Bjarki Bergsson

síðan Haldór E. Sigurðsson leysti Magnús Torfa, af hólmi 28. ágúst 1974.

Arnljótur Bjarki Bergsson, 15.2.2007 kl. 01:56

3 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Það hefur margt gerst á síðustu 4 árum Arnljótur ;)

Gísli Aðalsteinsson , 15.2.2007 kl. 14:19

4 Smámynd: Arnljótur Bjarki Bergsson

Í stað þess að stóla á Stórasand, karpa menn nú um Kjalveg.
Að mikluleiti er sömu mótbárum beytt og áður fyrr.
-
Nú hefur að vísu bæst við að ýmsir utan Akureyrar henda gaman að hugmyndinni um hægagangshéraðið, en þeir sjá ekki framsýnina sem fólgin er í að setja þessa hugmynd fram, hrein og klár forvörn, fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ys og þys.
-
Hraðbraut yfirhálendið, sem að vísu og vel athuguðu máli liggur ekki um Akureyri, ætti varla að raska ró manna.

Arnljótur Bjarki Bergsson, 16.2.2007 kl. 01:13

5 identicon

Það er brýnt að fá aðra leið milli höfuðstaðanna tveggja. Hjáleiðir á hringveginum eru fáar, auk þess sem hann ber ekki alla þessa flutninga og umferð lengur. Fyrir mína parta hefði ég viljað fá svipaðan veg sunnan Hveravalla og er fyrir norðan hann, þ.e. góðan malarveg, vel færan langt fram á haust. Það er hins vegar hætt við að flutningabílarnir "stælust" þá til að fara hann, svipað og mér skilst að þeir geri á Öxi eystra. Af tvennu illu kysi ég fremur uppbyggðan Kjalveg en óbreytt ástand.

Helgi Már Barðason (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband