Hver mun stjórna Akureyrarstofu?

33 umsóknir voru um stöðu framkvæmdastjóra Akureyrarstofu, markaðs-, menningar- og ferðamálaskrifstofu Akureyrarbæjar. Átök voru á milli meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar fyrir nokkrum vikum um það hvort auglýsa ætti starfið. Lagðist bæjarfulltrúi Samfylkingar, sem situr í stjórn Akureyrarstofu, gegn því mati formannsins í nefndinni að auglýsa stöðuna. Voru átök uppi milli fulltrúa flokkanna þar til þeir náðu loks samkomulagi eftir sérstakan sáttafund leiðtoga meirihlutaflokkanna með nefndarmönnunum.

Fjöldi umsækjenda segir allt sem segja þarf um það að mikill áhugi er fyrir verkefninu. Hjá Akureyrarstofu eru enda mörg spennandi tækifæri og eðlilegt að fjöldi fólks vilji eiga möguleika á að stýra slíku starfi. Það að ekki hafi verið samstaða í upphafi um að auglýsa starfið vakti athygli og umræðu stjórnmálaáhugamanna í bænum. Það á að sjálfsögðu að vera algjört grunnmál að svona stöður séu auglýstar lausar til umsóknar, sérstaklega við þessar aðstæður, enda er með því landslagið skannað og athugað hverjir hafi áhuga á stöðunni, sem er ný.

Fjöldi mjög hæfra einstaklinga sækir um þessa stöðu. Það ætti því ekki að vera vandamál að velja hæfan einstakling til verka við að stjórna Akureyrarstofu. Þarna eru bæði einstaklingar innan og utan bæjarkerfisins og verður fróðlegt að sjá hver fái hnossið. Ég er þess fullviss að Akureyrarstofa muni hlúa að þeim þáttum vel sem henni er ætlað og hún mun marka góðan grunn í menningar- og markaðsmálum hér í sveitarfélaginu.

Miklu máli skiptir hver muni halda á verkefninu. Fyrst og fremst gleðst ég yfir því að framkvæmdastjórastaðan var auglýst. Allt annað hefði verið óeðlilegt verklag og undraðist ég mjög að Samfylkingin hafi verið mótfallin því í fyrstu að leyfa fólki úr ólíkum áttum að sýna áhuga á að stjórna þessum verkefnum. En það er gleðiefni að Samfylkingin skipti um skoðun.

Nú verður fróðlegast að sjá hvern meirihlutinn velji úr fjölbreyttum umsækjendahópi til að halda utan um metnaðarfull verkefni í málaflokkunum sem marka Akureyrarstofu. Hvort leitað verði inn í bæjarkerfið eður ei.

Stefán Friðrik Stefánsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Björgvin

Sammála. Á hverjum tíma á það að vera grundvallaratriði að svona stöður séu auglýstar, ekkert baktjaldamakk takk.

Pétur Björgvin, 8.3.2007 kl. 08:56

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Pétur Björgvin. Það er svo sannarlega grundvallaratriði, gott að það tókst að ná því í gegn í þessu tilviki að það yrði auglýst eftir framkvæmdastjóra Akureyrarstofu. Enda lætur áhuginn ekki á sér standa, enda mjög spennandi tækifæri fólgið í þessu verkefni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.3.2007 kl. 17:22

3 identicon

Öll vitum við að réttur maður á réttum stað getur skipt sköpum.  Eldhugi getur flutt fjöll og komið meiru til leiðar en hundrað áhugalausir einstaklingar sem fyrst og fremst hugsa um að komast skammlaust frá sínu starfi með sem minnstri fyrirhöfn.  Það skiptir því gríðarlega miklu máli fyrir okkur íbúa Akureyrar hverja við ráðum í vinnu fyrir okkur, til að gæta velferðar okkar og gera sem mest úr skattpeningum okkar.

Nú ber svo við að laust er nýtt starf í þágu okkar Akureyringa.  Margir hafa sótt um.  Það eitt og sér er ákaflega ánægjulegt.  Vonandi munu þeir sem ráða í starfið finna einstaklingana sem mestu getuna og hæfnina hafa.  Og ráði þann einstakling sem mest getur flutt af fjöllum.

Jón Þorvaldur (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband