22.1.2007 | 00:57
Vaðlaheiðargöng
Eins og flestum er kunnugt hefur verið mikill áhugi á því beggja vegna Vaðlaheiðarinnar að gera göng undir heiðina. Með því móti færast Þingeyingar 16 km nær Akureyri og þurfa ekki lengur að fara hinn bratta veg um Víkurskarð. Að sama skapi færist Akureyri 16 km nær Þingeyjarsýslum og öllum náttúrperlunum þar. Með göngunum er því í raun verið að stækka Eyjafjarðarsvæðið til austurs þar sem Akureyri með sína miklu þjónustugetu er í miðjunni. Allir græða á þessari samþjöppun, bæði Eyfirðingar og Þingeyingar. Stærri markaður gerir að verkum að fýsilegra verður að reka fyrirtæki á svæðinu hvort sem það er sérhæfð verslun á Akureyri eða hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík. Ég tala nú ekki um álver á Húsavík. Með öðrum orðum batnar samkeppnisstaða svæðisins í heild.
Sveitarfélög á Eyþingssvæðinu og fleiri aðilar stofnuðu félag til að vinna að gerð Vaðlaheiðarganga. Félagið heitir Greið leið ehf og hefur það starfað ötullega að markmiði sínu síðustu misseri.
Vaðlaheiðargöng eru ekki stutt jarðgöng. Heildarlengd ganganna verður líklega 7,4 km með vegskálum. Það er lengra en nokkur önnur veggöng á Íslandi. Kostnaður við jarðgöngin er líklega rúmlega 5 milljarðar kr (rúmlega 4 milljarðar án vsk). Greið leið ehf hefur ávallt miðað við að um einkaframkvæmd verði að ræða. Þ.e. vegfarendur greiði fyrir að aka í gegnum göngin. Þær tekjur standa þó ekki undir öllum stofnkostnaðinum. Ríkið verður að aðstoða við framkvæmdina á einhvern hátt. Ein leið gæti verið að ríkistryggja lán. Það liggur þó kannski beinast við að ríkið leggi fram fjárupphæð í byrjun og láti síðan rekstrarfélagið um afganginn. Það verður því að leita á náðir skattgreiðenda á einn eða annan hátt til að göngin geti orðið að veruleika.
Í því ljósi er fróðlegt að skoða hvernig skattfé landsmanna hefur verið varið til jarðgangaframkvæmda síðustu ár. Múlagöng mörkuðu upphaf nýs tímabils í þessum efnum en fyrir þann tíma höfðu einungis fá stutt jarðgöng verið gerð á Íslandi. Framlag úr ríkissjóði hefur verið eftirfarandi (á verðlagi 2006, miðað er mið nettóframlag úr ríkissjóði þ.e. kostnað án vsk):
1.850 mkr Múlagöng
6.000 mkr Vestfjarðagöng
1.100 mkr Hvalfjarðargöng
3.500 mkr Fáskrúðsfjarðargöng
940 mkr Almannaskarðsgöng
Einhverjir kunna að vera hissa á því að sjá Hvalfjarðargöng á þessum lista. Voru þau ekki algjörlega gerð á kostnað vegfarenda? Svarið er nei. Ríkið stóð straum af vegagerðinni sem var nauðsynleg til að tengja göngin og skýrir það töluna 1.100 mkr.
Undirbúningur Vaðlaheiðarganga hefur gengið vel. Nú er hins vegar komið að þeim punkti að svör þurfa að koma frá ríkisvaldinu. Vill ríkið að göngin verði gerð? Líkur eru á að göngin kosti skattgreiðendur lítið. Eitthvað í líkingu við lægstu tölurnar á ofangreindum lista. Vaðlaheiðargöng verða því með ódýrustu göngum landsins frá sjónarhóli skattgreiðenda þrátt fyrir að þau verði þau lengstu á landinu. Er það ekki góður díll? Ætti ríkið ekki að taka slíkri fjárfestingu fagnandi?
Jón Þorvaldur Heiðarsson
22.1.2007 | 00:56
Lýðræði, frjáls viðskipti, friður og samhengið þar á milli.
Það hefur aldrei þótt góður busisness að drepa þann sem maður er í viðskiptum við. Þetta áttuðu íbúar Evrópu sig á og því má ekki gleyma að eiginlegur tilgangur með Evrópusambandinu og forvera þess var að stuðla að friði milli landa Evrópu með því að efla viðskipti milli landanna. Alþjóðavæðingin svokölluð á því líka sinn þátt í því að fækka stríðsátökum í heiminum.
Upphafsár, Stríð/Átök, Staðsetning
1964, Colombian Armed Conflict, Colombia
1969, New People's Army/Islamic , Philippines
1983, Sri Lankan civil war, Tamil Eelam
1984, Kurdish Separatist Insurgency, Turkey and Kurdistan
1984, Free Papua Movement, Western New Guinea
1988, Casamance Conflict, Senegal
1988, Somali Civil War, Somalia/Ethiopia
1989, Kashmir conflict, Kashmir
1993, Ethnic conflict in Nagaland, Nagaland, India
1999, Ituri Conflict, Congo
1999, Second Chechen War, Russia
2000, Al-Aqsa Intifada, Israel, Palestinian territories
2000, Conflict in Laos inv. the Hmong, Laos
2001, War in Afghanistan, Afghanistan
2001, South Thailand insurgency, Pattani (region)
2002, Ivorian Civil War, Côte d'Ivoire
2003, Iraq War, Iraq
2003, Balochistan conflict, Balochistan/Pakistan
2003, Central African War, Darfur conflict
2005, Western Sahara Independence Intifada, Western Sahara
2006, Mexican Drug War, Mexico
2006, War in Somalia, Somalia/Ethiopia
22.1.2007 | 00:55
Akureyri við áramót
Unnið verður áfram að útfærslu síkis frá Pollinum inn að Hafnarstræti, í samræmi við tillögu sem hlaut fyrstu verðlaun. Jafnfram verður hugað að þrengingu Glerárgötunnar frá gatnamótum við Drottningarbraut upp til móts við íþróttavöllinn, í samráði við Vegagerðina. Samhliða verður unnið að tillögum um breytt bílastæðafyrirkomulag í miðbænum, með aukinni áherslu á götustæði og bílageymslur. Í samræmi við óskir íbúa og verðlaunatillögur verður tekið tillit til eldri byggðar á svæðinu og kappkostað að skapa skjólsæla, sólríka og aðlaðandi byggð.
Vilji fólksins
Þessi ákvörðun er í samræmi við niðurstöður sérstakrar dómnefndar í arkitektasamkeppninni sem sagði í umsögn sinni: Fyrirhugað síki er lykilatriði í mótun forms og ásýndar miðbæjarsvæðisins. Með síkinu eru endurheimt tengsl miðbæjarsins við sjóinn og til verða sólrík og skjólsæl götu- og torgsvæði og lóðir í hjarta bæjarins.
Með þessari samþykkt aðalskipulags bæjarins voru meginlínur lagðar um framtíðarþróun miðbæjarins og staðfest það fyrirkomulag sem kynnt var fyrr á árinu þegar lóðir á þessu svæði voru auglýstar. Þetta voru því stórtíðindi í mínum huga og forsenda þess að hægt væri að hefjast skipulega handa um það áhugamál íbúaþingsins að fá meira skjól og birtu í miðbæinn og tengja hann betur við Pollinn. Áhugi fjárfesta var vakinn og kepptust þeir um að fá að koma að þessari uppbyggingu sem er auðvitað forsenda þess að unnt verði að fjármagna þessar miklu framkvæmdir. Einn þeirra orðaði það svo: Verði síkið ekki að veruleika þá hverfur sérstaðan og nýr miðbær Akureyrar mun ekki hafa neitt upp á að bjóða sem ekki er að finna í öðrum miðbæjum af sambærilegri stærð. .... Sjávarsíkið er því bókstaflega gulls ígildi, bæði fyrir fjárfesta og bæinn í heild. Hann tekur einnig fram að ef horfið yrði frá að gera síkið megi búast við að áhugi fjárfesta minnki og þeir snúi sér annað. Enda þótt við ákveðum að sjálfsögðu sjálf skipulag í okkar bæ þá er okkur líka hollt að hlusta á þá sem kunna að meta það og sýna því áhuga.
Eins og oft vill verða heyrðust úrtöluraddir og gekk jafnvel svo langt að ein meginforsenda þessa aðalskipulags gerð sjávarsíkisins - var höfð í flimtingum og framreiddir brandarar um gerð þess og tilvist á mjög svo óábyrgan hátt þar sem engin tilraun var gerð til að styðja þennan frumstæða málflutning með haldbærum rökum.. En skynsamt fólk lætur slíkt ekki trufla sig eða hvað?
Nýtt hljóð komið í strokkinn
Fyrir nokkru kynnti einn bæjarfulltrúi, sem harðast berst á móti síkinu, að hann vildi láta kjósa um það í tengslum við næstu alþingisskosningar. Þá var það sem sá ágæti maður, Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs, lýsti því yfir að slík kosning væri óþörf þar sem ekki stæði til að fara í þessa framkvæmd a.m.k. ekki á næstu árum eða jafnvel áratugum. Ég hélt í fyrstu að mér hefði misheyrst og trúði ekki mínum eigin eyrum sem hafa þó þurft að þola margt skrítið á langri ævi! Nýlega var búið að samþykkja aðalskipulag þar sem umrætt sjávarsíki var þungamiðjan en svo allt í einu látið eins og það komi þessu máli ekkert við og það af sjálfum formanni bæjarráðs.
Skýringa óskað
Þarna urðum við félagarnir í Akureyrir í öndvegi alveg klumsa og bárum því formlega fram spurningu um málið við bæjaryfirvöld. Þau svöruð með eftirfarandi bókun í bæjarráði þann 7. desember sl.
Meirihluti bæjarráðs samþykkti nýlega að ganga til viðræðna um uppbyggingu á tveimur byggingareitum í miðbænum. Við undirbúning þess máls var það sameiginlegur skilningur (lbr. mín) meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn að ekki verði ráðist í það verkefni að þrengja Glerárgötu og grafa síki inn í átt að Hafnarstræti á næstunni (lbr. mín), m.a. vegna þess að slík framkvæmd er háð samþykki og þátttöku Vegagerðarinnar. Í verðlaunatillögu Graeme Massie var gert ráð fyrir að tengja miðbæinn betur við sjóinn og að vatn væri meira áberandi í miðbæjarhugmyndinni. Þessar áherslur verða áfram leiðandi í samstarfi bæjaryfirvalda við þá aðila sem fyrirhugað er að ræða við um uppbyggingu á reitnum.
Ekki skýrðist málið við að lesa þennan samsetning. Hvað er átt við með sameiginlegum skilningi sem snýr að því að framkvæma ekki megintillöguna sem samþykkt var með aðalskipulaginu ellefu vikum áður og auglýst var þegar kallað var eftir áhuga fjárfesta? Getur eitthvað sem heitir sameiginlegur skilningur kollvarpað nýsamþykktum ákvörðunum um uppbyggingu miðbæjarins? Getur verið að óljósar setningar um að vatn verði meira áberandi komi í stað þeirrar ákvörðunar sem búið var að taka um gerð síkisins? Á þetta bara að flæða svona áfram á sem auðveldastan hátt að hætti vatnsins?
Auðvitað lá alltaf fyrir að ræða þyrfti við Vegagerðina og fleiri aðila um málið enda er það bara eitt af þeim verkefnum sem fyrir liggur þegar koma á aðalskipulaginu til framkvæmda.. Það er vissulega hægt að gera á næstunni ef áhugi er á því.
Hrossakaup?
Ég fæ það því miður á tilfinninguna að þessi málflutningur sé bara fyrirsláttur í einhverjum pólitískum hrossakaupum innan bæjarstjórnar sem ég hvorki vil kynnast eða reyna að skilja. Þau eru mér ekki að skapi.
Hins vegar er það mikið umhugsunarefni að öll sú opna umræða sem fór fram á íbúaþinginu og í tengslum við arkitektasamkeppnina ásamt með frábærum vinnubrögðum dómnefndar og sérstaks stýrihóps bæjarstjórnar, skuli fá þessa óvönduðu meðferð. Eftir allt sem á undan er gengið og alla þá samstöðu sem bæjarbúar sýndu er undarlegt að þurfa að horfa upp á að bæjaryfirvöld loka sig inni og láta svo frá sér fara einhvern sameiginlegan skilning án nokkurs rökstuðning og án minnsta samráðs við þá sem unnið hafa hörðum höndum að máli þessu frá upphafi. Það sem sérfræðingar og álitsgjafar töldu afar snjalla lausn var vegið og léttvægt fundið og taldar upp ódýrar skýringar á frestun eða jafnvel fráhvarfi, sem eru eingöngu til marks um að bæjarstjórn veigrar sér við að koma sér að verki.
Nýtt ár vekur vonir
Þegar svona er komið hljóta menn að velta fyrir sér til hvers var barist.
En vonandi sér bæjarstjórnin að sér meða nýju ári og hækkandi sól og vinnur vasklega að því að koma samþykktu aðalskipulagi til framkvæmda af festu og krafti. Nú er lag til að sýna og sanna að Akureyringar vilja og geta tekið vel til hendi og eru hættir þessu sífellda hiki þegar mikil og knýjandi framfaramál bíða úrlausnar.
Óska Akureyringum og öllum sem þessar línur lesa farsældar á nýju ári.
Ragnar Sverrisson
22.1.2007 | 00:53
Gleðileg nauðgunarlaus jól
Ég fann bút á netinu um daginn þar sem að ung kona var máluð og greidd af fagfólki og síðan photosjoppuð þar til hún varð óþekkjanleg með nýjustu tækni. Þessi bútur var gerður til að minna okkur á það hvernig kröfur samfélagsins eru orðnar í nútíma þjóðfélagi. Þú ert ekki nógu fallegur eða góður eins og þú ert, við þurfum að breyta þér í þessa stöðluðu ímynd, sem enginn veit hvaðan kemur, svo að þú getir selt vörurnar okkar eða yfir höfuð gert eitthvað af viti í lífinu. Afrakstur þess verður svo ungt fólk með átröskunarsjúkdóma, sjálfsímyndarvandamál og tilvistarkreppu.
Mál, sem að fyrir stuttu síðan var mikið fjallað um í fjölmiðlum, súmmar þetta allt síðan upp. Nauðganir. Hvað eru nauðganir annað en athöfn stjórnuð af minnimáttarkennd, sjálfsímyndarkomplexum og staðalímyndakreddum?
Hér á Akureyri hefur nauðgunum fjölgað um 100%. Ég hef ekki séð neinn bregðast við því vandamáli á neinn hátt. Nauðganir eru kannski ekki jafn mikilvægt vandamál og skattalækkanir, miðbæjarskipulag eða gerð fjárhagsáætlunnar?
Til að fá kannski einhver eyru til að hlusta þá er það staðreynd að nauðganir eru þjóðfélagslega dýrar, líkt og allir aðrir glæpir. Sá einstaklingur sem lendir í því að vera nauðgað þarf oftar en ekki að fá aðstoð frá sjúkrahúsi/stofnun sem kostar pening. Það getur farið svo að einstaklingur sem lendir í nauðgun nái sér aldrei aftur, og getur þar með ekki unnið 100% vinnu sem einstaklingurinn vann kannski fyrir brotið, þar með missir ríkið/sveitarfélagið af skatttekjum. Og með minni starfsgetu getur einstaklingur jafnvel leiðst til fátæktar, og fátækt er mjög dýr fyrir samfélagið. Í þriðja lagi þarf mikla leit oft af brotamanninum sem kostar pening. Síðan þarf að sækja brotamanninn til saka, og það kostar peninga að fara með málið fyrir dómsstóla. Og ef við gefum okkur það að stefndi áfrýji til hæstarréttar, kostar það ennþá meir.
Og ef stefndi verður dæmdur segjum til 2-4 ára fangelsisvistar sem er algengt, þá kostar það ríkið/samfélagið að halda fanganum uppi með mat og fleira, og það kostar eflaust einhverjar milljónir. Og þegar afbrotamaðurinn losnar, þá getur hann átt í erfiðleikum með að fá vinnu vegna dómsins, sem leiðir til þess að ríkið fær engar skatttekjur, og oftar en ekki fer hann þá á atvinnuleysisbætur sem einnig kostar samfélagið eitthvað. Og ekki má gleyma því að þeir sem hafa nauðgað áður, eru líklegri að nauðga aftur, og þá fer þetta í sama farveginn á ný.
Kannski gerir fólk sér frekar grein fyrir því hversu mikið vandamál þetta er þegar þetta er sett upp í svona veraldlega formúlu. Því peningar eru jú mikilvægari en fólk. Svo mikið hef ég lært. En við getum auðvitað reiknað fram og til baka þjóðfélagslegan kostnað sem nauðganir valda. En það verður aldrei hægt að reikna þann skaða sem fórnarlambið má þola í slíku mannréttindabroti. Í allri peningahyggjunni má manneskjan aldrei gleymast. Það hlýtur einhverstaðar pottur að vera brotinn í þjóðfélagi þar sem að þú færð hærri dóm fyrir auðgunarbrot en mannréttindabrot.
Nauðganir eru hræðilegt mannréttindabrot sem á ekki að líðast í nútíma samfélagi og er vandamál okkar allra. Ekki bara þeirra sem að fyrir þeim verða. Núna er kominn tími til að við vöknum og áttum okkur á því að það eru ekki bara aðkomumenn sem nauðga.
22.1.2007 | 00:52
Veður, vegir og gamlar brýr
Fyrir mörgum árum stóð til að hefjast handa við vegarbætur í Norðurárdal. Það er ekki byrjað enn og enn paufast menn um einbreiðu brýrnar og brekkurnar vestur þar. Dauðgildrunar við Giljareiti, td einbreiða bruin á Grjótá er enn á sínum stað. Ef horft er á þetta mál í samhengi er það auðvitað stórfurðulegt. Meðan milljarðar eru settur í jarðgöng á fáförnum vegum er þjóðvegur 1 við stærsta þéttbýliskjarna landsbyggðarinnar enn á afar frumstæðu stigi og fátt bendir til að það breytist á næstu árum. Ríkisstjórnin hefur verið dugleg við að skera niður fjármagn til vegnaframkvæmda í þessu kjördæmi og flest bendir til að það breytist lítið. Stjórnarþingmenn þessa kjördæmis hafa verið liðónýtir í eftirfylgni fyrir kjördæmið í samgöngumálum.
22.1.2007 | 00:48
Nú fer sól að hækka á lofti
Fyrir okkur, sem erum komin á sjötugsaldurinn og munum tímana tvenna (!), er alltaf gaman að rifja upp jólin á Akureyri um miðja síðustu öld. Þá var bara einn barnaskóli, einn gagnfræðaskóli, tvö kaupfélög, þrjár leigubílastöðvar enda fátt um einkabíla og svo auðvitað tveir barir: Didda-bar og Litli-bar sem báðir gerðu út á bindindi og fagurt líferni í hvívetna enda þótt einhverjir þættust merkja þar óreglu endrum og sinnum einkum þegar togarar voru í höfn. Þar var oft gott að læðast inn og kaupa Valash, Lindubuff og bolsíur allt eftir kaupgetu hvers dags sem oftast var í beinum tengslum við hvað tókst að selja mörg eintök af Degi þá vikuna á kaupfélagshorninu við brunahanann stóra.
Svo svifu fyrstu snjóflygsurnar til jarðar á haustin og boðuðu komu vetrarins. Við fórum að búa okkur undir norðan stórhríðarnar þegar ekki sást milli húsa, Laxá stíflaðist og gat ekki búið til rafurmagnið sem aftur leiddi til þess að kveikt var á kertum og frostrósir mynduðu ævintýraheima á gluggunum sem við hurfum til. Þar var auðvelt að gleyma sér og lofa blessaða stórhríðina sem að lokum hafði hlaðið niður kynstrunum öllum af snjó sem var svo leikvöllur okkar á Eyrinni næstu daga. Þá var stokkið fram af húsum og spennistöðvum og kútvelst í snjósköflunum með bægslagangi og hávaða. Þetta voru sannkallaðir dýrðardagar sem aldrei koma aftur eða hvað?
Fyrr en varði var farið að styttast til jóla. Fyrstu teikn þeirra birtust þegar kaupfélagsstjarnan var fest upp milli Hótel KEA og aðalstöðva KEA og í kjölfarið halastjarnan góða milli pósthússins og Amaró. Þarna stóðum við krakkarnir og dáðumst að þessum ljósum prýddu stjörnum sem settu sannarlega svip á bæinn og boðuðu komu jólanna. Og áfram brutust bændur í öllum þessum snjó með mjólkina í samlagið, ýmist á mjólkurbílum eða sleðum sem hestar drógu héðan og þaðan úr fjósum Eyjafjarðar. Þeirra beið líka hestahótel, sem átti sér engan líka, með tilheyrandi viðurgjörningi og atlæti. Þá var gaman að koma við á hestahóteli Carolínu Rest á leiðinni til eða frá Barnaskóla Íslands og virða fyrir sér sveitt hrossin sem dampaði af svo varla sáust handa skil þar sem þau hámuðu í sig töðuna góðu. Úti fyrir voru húsbændur þeirra að taka út í kaupfélaginu nauðþurftir til heimabrúks og spjalla við aðra bændur og innanbúðarfólk um lífið, tilveruna og aðra Framsóknarpólitík! Þannig var lífið í miðbænum nær jólum og raunar langt fram á þorra og jafnvel góu. Bílaumferð var lítil en þeim mun meira af gangandi fólki sem bar pinkla sína stóra og smáa eða drógu á sleðum til síns heima.
Jólin á Akureyri um og eftir miðja síðustu öld voru því með nokkru öðru sniði en við þekkjum nú til dags. Þótt allir tímar og allir staðir hafi til síns ágætis nokkuð þá dreg ég í efa að unnt sé að jafna jólaösina í miðbæ Akureyrar um miðja 20. öldina við nokkuð annað af því tagi. Í endurminningunni er það allt vafið þokukenndri draumsýn enda var fátt skemmtilegra en að ráfa í snjónum í fólksmergðinni milli búða allt sunnan frá Verzlun Eyjafirði, kaupfélagsbúðunum, Vöruhúsinu í París, Bókabúð Rikku, Amaró, Brauns-verzlun og norður til Pöntunarfélagsins fyrir ofan hið ráðhúslausa Ráðhústorg. Á miðju torginu var tréð mikla, sem í mínum huga varð eftirlíking skilningstrés góðs og ills enda var það vitni að hinni fjölbreyttu flóru mannlífsins sem blasti við til allra átta í miðbænum. Tré þetta bjó yfir mörgum fögrum og rómantískum leyndarmálum, þar sem vel fór á með fólkinu sem kom af böllunum á Hótel Norðurlandi og Alþýðuhúsinu (Allanum). En það varð líka vitni að ýmsu misjöfnu og jafnvel hroðalegum atburðum, sem nauðsyn bar til að halda leyndum þar sem annars var hætta á upplausn í þessu litla samfélagi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Því gekk sú flökkusaga fjöllunum hærra að þeir sem óttuðust lausmælgi trésins hafi beitt sér fyrir því að það var höggvið og kastað á hauga. Sagt er að mörgum hafi létt ákaflega og fengið aftur lífslöngunina sem skertist mjög í hvert sinn sem þeir litu þetta lífsins tré. Ekki veit ég um sannindi þess en miðað við öll þau ævintýri, sem gerðust í minni æsku á Akureyrinni, er þessi söguskýring ekkert ótrúlegri en margt af því sem þar gerðist í raunveruleikanum. En það er saga sem bíður betri tíma.
Gleðileg jól.
Ingólfur Sverrisson
22.1.2007 | 00:46
Af offari og írafári
Það að veitast svona gegn einum manni persónulega með viðlíka DV offorsi, átta barna föður og ugglaust máttarstólpa samfélagsins, allavega að eigin áliti er hægt að setja spurningarmerki við. Sérstaklega svona rétt fyrir jólin, eða hvað?
Ég sagði hér að ofan að umfjöllum Kompáss hafi verið annmörkum háð, þeir annmarkar eru jú skortur á fagmannlegum vinnubrögðum, ef fagmennsku skal kalla. Eitthvað er minnst á að "sönnunargögn" þáttarins séu þessi og hin, heilmikill fjöldi er af vitnum og vitnisburðum að sögn Kompáss og síðast en ekki síst virðist sem svo að þeir sem umfjöllunarefnið snýst um séu með opið veiðileyfi á sig einhverra hluta vegna. Kannski er þetta spurning um að leyfa fréttamennsku hér á Íslandi sem falið sig getur alveg á bakvið réttindi sem þeim eru tryggð í siðmenntuðum samfélögum. Þessi réttindi sem málfrelsið er, sem prentfrelsið er og sem óljós heimild fréttamanna til að vernda heimildarmenn sína er líka.
Ég efast ekki um að Sigmundur Ernir, Akureyringurinn góði, kann þessa réttindaupptalningu upp á tíu og getur fimlega varist verði að honum vegið af yfirvöldum, hinir skósveinarnir er gengið hans fylla njóta góðs af því.
En réttindi eru eitt, skyldur annað. Hvaða skyldum þarf fréttamaður að sinna, hvaða skyldur eru lagðar á herðar almennings í landinu, hvað fylgir þessum réttindum okkar, hvaða verðmiði er svo á vörunni í vestrænum heimi. Segja má að í kaupum og sölum á réttindum okkar síðan 1789 hafi gleymst að rétta verðmiðann að almenningi og hann einungis sannfærður um að í siðmenningu eigi hann í krafti þess að vera mennskur eigi hann að njóta réttinda sem eru sjálfsögð og svo koma skyldurnar í smáa letrinu.
Sitt má líka segja um viðlíka heilagsandahoppara sem nafni minn Jónsson í Byrginu er, hann hefur eins og allir landar okkar fullan rétt til að iðka trú sína og misbjóða almenningi í krafti hennar. Já misbjóða segi ég því að ef einhversstaðar leynist glóð í reyknum sem Kompás benti landsmönnum á að stigi til himins upp úr Byrginu er hægt að draga ályktun þess efnis að kristilegur kærleikur sé annað en boðað er í húsakynnunum. Svo er það kynhegðanin sem allir jesúa sig yfir og krossa í bak og fyrir, eftir því sem ég kemst næst er ekkert sem ólöglegt er í því en siðferðilegur grunnur Guðmundar til að húðstrýkja saklausar stúlkurnar og klemma er vægast sagt tæpur.
Réttur manna beggja vegna línunnar er tryggur í lögum en eitthvað skortir á að skyldurnar séu mönnum kunnar - ég segi því: Lokum á Guðmund og Byrgið, leyfum fagmönnum að koma á fót meðferðastofnunum (látum vera að hengja Guðmund fyrir að standa að afeitrunum sem ólöglegar eru) hvar menn velja sér hvort einhver almáttugur líknar þeim eða heilbrigð skynsemi og nýjustu lyf vísindamanna. Hreinsum til í fréttaliði stöðvarinnar sem hóf leikinn og hjá öllum sem fylgt hafa í kjölfarið, persónulega hef ég þá trú á Sigmundi að hann eigi að vera fyrstur til að sjá að svona gengur ekki og endurmenntun fréttamanna er orðin algjört 'möst.'
Guðmudnur Egill Erlendsson
22.1.2007 | 00:45
Vegaumræða missir jarðtengingu
Eitt sinn hlustaði ég á erindi skipulagsfræðings sem taldi það einkenni íslenskrar ákvarðanatöku að hún færi fram eftir skoðanaskipti almennings og stjórnmálamanna. Sérfræðingum á viðkomandi sviði væri ýtt til hliðar og ekki á þá hlustað. Þetta kemur upp í hugann nú þegar rætt er um vegabætur á Suðurlandsvegi.
Umferð og viðeigandi vegir
Við skulum áður en lengra er haldið átta okkur á umferðinni til og frá borginni árið 2005. Ádu er meðalumferð á dag allt árið. Sdu er meðalumferð á dag á sumrin.
Umferð árið 2005 | ádu | sdu |
Reykjanesbraut (Hafnarfj.-Vatnsleysa) | 9.700 | 11.000 |
Vesturlandsvegur (Mosfellsb.-Grundarhv.) | 6.400 | 8.000 |
Suðurlandsvegur (Reykjav.-Þrengslav.) | 7.800 | 10.200 |
Suðurlandsvegur (Þrengslav.-Hveragerði) | 6.100 | 7.900 |
Suðurlandsvegur (Hveragerði-Selfoss) | 6.500 | 8.400 |
Jafnframt skulum við skoða við hvaða umferð hver veggerð hentar að mati verkfræðinga og annarra sérfræðinga (eftirfarandi tölur eru fengnar úr tveimur skýrslum Línuhönnunar). Venjulegur 1+1 vegur getur annað að hámarki 15.000 bílum á dag en þegar umferð fer að nálgast þessa tölu verður framúrakstur nánast óframkvæmanlegur og aðstæður til framúraksturs verða auðvitað erfiðar og hættulegar miklu fyrr. 2+1 vegur hentar vel þegar umferð er orðin ádu 5.000 eða sdu 8.000. Slíkur vegur getur annað umferð upp að 15.000 20.000 bílum á dag. 2+2 vegur getur annað umferð upp að 45.000-55.000 bílum á dag.
Hvaða veggerð er hentugust á Suðurlandsvegi?
Krafan um vegabætur á Suðurlandsvegi snýst fyrst og fremst um aukið umferðaröryggi. Fram hefur komið að umferðaröryggi sé næstum eins mikið með 2+1 vegum og með 2+2 vegum enda er í báðum tilvikum skilin að umferð úr gagnstæðum áttum. Með það í huga sem og tölurnar um umferð, hvaða veggerð er þá hentugust á Suðurlandsvegi? Vart þarf að taka fram að 2+1 vegur er dýrari en 1+1 vegur og 2+2 vegur er miklu dýrari en 2+1, sérstaklega ef gerðir eru tveir sjálfstandandi vegir hlið við hlið.
Ekki verður annað séð en 2+1 vegur henti fyrir allar þrjár meginleiðirnar frá borginni. Ósjáfrátt verður manni hugsað til þess fólks sem nú væri enn á lífi ef fjármunirnir sem voru notaðir til að tvöfalda Reykjanesbrautina hefðu verið notaðir til að leggja 2+1 vegi bæði til Keflavíkur og Selfoss. Það kann þó að vera að það hafi verið skynsamlegt að taka skrefið strax í 2+2 veg til Keflavíkur þar sem umferðin er orðin það mikil og vaxandi að hún er að komast á seinni helming flutningsgetu 2+1 vegar. Umferð um Suðurlandsveg er minni. Ef litið er á þann kafla Suðurlandsvegar sem er á milli Þrengslavegar og Selfoss virðast engin rök mæla með því að þar verði gerður 2+2 vegur í stað 2+1 vegar. Tillaga Vegagerðarinnar um að Suðurlandsvegi verði breytt í 2+1 veg þar sem fyrirfram verði gert ráð fyrir breikkun í 2+2 veg síðar hljómar því afar skynsamlega.
Nú eru tvö ljón í veginum
Tvennt gerir það að verkum að nú virðist erfitt að taka ákvörðum um 2+1 veg. Annars vegar er það sú staðreynd að lítil sem engin reynsla er af 2+1 vegi á Íslandi og ýmsar ranghugmyndir virðast vera á sveimi um slíka vegi. Nokkurra kílómetra kafli hefur verið í rúmlega ár á Suðurlandsvegi en það er ekki nóg.
Hins vegar, að of lengi hefur verið beðið með ákvörðun um hvað skuli gera á Suðurlandsvegi þannig að óþolinmæði vegfarenda hefur nú breyst í reiði og tilfinningahita sem erfitt er að rökræða á móti. Þessi tilfinningahiti hefur af einhverjum ásæðum allur farið í þann farveg að 2+2 vegur sé eina lausnin. Síðan verður slys þar sem tveir vegfarendur látast. Öllum hlýtur að vera ljóst hversu slæm sú staða er að fara fyrst að huga að ákvörðunartöku við þessar aðstæður.
Tvær tillögur
Til þess að ákvarðanir um vegakerfið lendi ekki í sömu ógöngum í framtíðinni eru hér settar fram tvær tillögur:
Gerður verði 2+1 vegur á löngum kafla þar sem umferð er mikil en þó ekki það mikil að þörf sé á tafarlausum úrbótum. Með öðrum orðum sé nægur tími til að taka yfirvegaða ákvörðun. Þetta verði gert til að fá mikla reynslu af 2+1 vegi. Lagt er til að slíkur vegur verði lagður á milli Borgarness og Hvalfjarðarganga en þar er umferðin nú um eða undir 4.000 bílum á dag.
Samgönguyfirvöld setji sér einfalda reglu um það hvenær breytt sé um veggerð. Ef umferð fer t.d. yfir ádu 5.000 skuli veginum breytt í 2+1 veg og ef umferð fer t.d. yfir ádu 12.000 skuli veginum breytt í 2+2 veg. Þessum mörkum má síðan breyta með tímanum í ljósi reynslunnar.
Jón Þorvaldur Heiðarsson
21.1.2007 | 23:46
Ofþensla, stýrivextir og skattahækkanir, ég meina skattalækkanir!
Fáir ef einhver hagfræðingur í heiminum myndi láta sér detta hug að lækka skatta til að draga úr þenslu. Ef það þarf nauðsynlega að gerast myndu hagfræðingarnir leggja til lækkun á skattbyrði hinna lægst launustu með hækkun persónuafsláttar. Það eru hinir lægstlaunuðustu sem finna mest fyrir verðbólgu og minnst fyrir hinu svokallaða góðæri sem fylgir þenslunni, sem aftur á móti leiðir til verðbólgu. En ekki er hægt að bakka með það loforð að lækka skatta. Þeir efnameiri eiga það skilið fyrir að spila með réttu liði allan þennan tíma og svo eyðir pallbílinn svo miklu bensíni. Sérstaklega þegar hjólhýsið er með í för. Ekki þarf að minnast á hvað er hið rétta lið.
Það sem þarf að gerast í þessari þöndu verðbólgustöðu sem við búum við er að stjórnmálamenn taki ábyrgð á þeirri stöðu sem þjóðin stefnir óðfluga á. Það þarf að samræma aðgerðir og taka réttar ákvarðanir á réttum tíma og passa að þær vegi ekki hvor aðra út. Um leið að Seðlabankinn hækkar stýrivexti um einhver stig verður dýrara að skulda pening og hagstæðara að eiga pening. Launafólk ætti því að sjá hag sinn í því að halda að sér höndum í neyslu og minnka útgjöld heimilisins og spara fé þar til stýrivextir lækka aftur. En um leið og ríkisstjórnin talar um að lækka skatta á laun og matvörur eru þeir að auka væntingar fólks um að hafa meira fé á milli handanna og því hafa stýrivaxtahækkanir ekki þau áhrif sem til er ætlast af þeim. Skattalækkun ríkisvaldsins vegur út stýrivaxtahækkun Seðlabankans uns annað kerfið gefur sig.
Er allt sem minnihluti gerir á móti hag þjóðarinnar?
Hvers vegna vinna ráðamenn þjóðarinnar gegn þjóðinni kunna margir að spyrja sig? Kannski eru þeir ekki lengur að vinna í þágu þjóðar og vinna aðeins í sína eigin þágu. Sem dæmi er öllum málefnum minnihlutans ýtt af borðinu vegna þess að minnihlutinn er að vilja upp á dekk. Er minnihluti Alþingis ekki vinna líka í þágu þjóðarinnar? Eða er aðeins hálf þjóð í landinu, þeir sem kusu meirihlutann.
Samanlagðir þarfir vega mest!
Önnur ástæða kann einnig að vera fyrir ógagni ráðamanna en hún er sú að undanfarin ár hefur samfélaginu gengið vel í ýmsum málum og þjóðin hefur hagnast vel á ýmsum hlutum sem hafa verið í gangi hér innanlands sem og í alþjóðasamfélaginu. Stjórnmálamenn hafa verið að eigna sér þessar framfarir en nú eru þetta að sigla í strand vegna ofþenslu (góðæris). Nú þarf að hægja á þenslu, draga andann og koma ró á samfélagið, við þurfum ekki sex hjóla pallbíl til að komast á rúntinn.Vandinn er að hægri öfl standa ekki fyrir slaka og afþenslu og því geta þeir ekki unnið að þessum markmiðum að heilum hug. Þeir skera niður þar sem kjósendur er fæstir því ef þeir aflýstu tónlistarhúsum og sundabrautum og hvað það heitir myndi allt verða vitlaust. Þess í stað er vegaframkvæmdum á Norðausturlandi og Vestfjörðum aflýst til þess að ríkisútgjöld fari ekki fram úr hófi. Það var skorið niður þar sem fæst fólk býr en ekki þar sem þörfin var minnst. Nema að þörf sé uppsafnaleg og fjöldinn á suðvesturhorninu hafi meira af samanlagðri þörf en örfáar hræður út á landi.
Baldvinn Esra
21.1.2007 | 23:44
Bæjarstjóraskipti - breytingar hjá Akureyrarbæ
Það er alveg óhætt að fullyrða það að nokkur þáttaskil fylgi því að Kristján Þór Júlíusson láti af embætti bæjarstjóra eftir mánuð, í upphafi nýs árs. Kristján Þór hefur verið áberandi í sveitarstjórnarmálum í tvo áratugi og leitt Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri í áratug. Eftir níu ára bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs er vissulega margs að minnast. Þetta hefur verið líflegt tímabil í sögu Akureyrarbæjar sem hefur markast af öflugum framkvæmdum og líflegum verkefnum. Það verður seint sagt um bæjarstjóraferil Kristjáns Þórs að þar hafi verið ládeyða og rólegheit, en framkvæmdir síðasta áratugar á valdaferli Sjálfstæðisflokksins, með samstarfsflokkum hans, tala alveg sínu máli. Það er og líka verðugt verkefni að líta á stöðu Akureyrarbæjar nú þessi níu árin og það sem var fyrir júnímánuð 1998, þar sem kyrrstaða var einkunnarmerki að mörgu leyti.
Það verða nýjir tímar hjá Akureyrarbæ. Sigrún Björk Jakobsdóttir, verðandi bæjarstjóri, er fyrsta konan á bæjarstjórastóli í sögu Akureyrarkaupstaðar. Það verður fróðlegt að sjá til verka Sigrúnar Bjarkar í embætti bæjarstjóra. Hún mun gegna embættinu í 30 mánuði, eða þar til að Hermann Jón Tómasson verður bæjarstjóri síðasta árið fyrir bæjarstjórnarkosningar. Það er vissulega nokkuð merkileg staðreynd að þrír bæjarstjórar verði hér á kjörtímabilinu. Það er að mínu mati ekki hollt fyrir bæinn, eftir að hafa lifað við þann stöðugleika sem fylgt hefur sama bæjarstjóranum í tæplega níu ár. Ég vil stöðugleika og uppbyggingu með verkum sem skilja eitthvað eftir sig. Það eru viss hættumerki á lofti að með svo tíðum skiptum komi upp andi óstöðugleika. Vona ég að sú staða komi ekki upp, þó að sporin hræði sé litið til tíðra borgarstjóraskipta í Reykjavík.
Þær sögusagnir höfðu heyrst eftir kosningarnar í vor að Kristján Þór myndi ganga á bak orða sinna og segja skilið við bæjarmálin með væntanlegu þingframboði. Þeim hinum sömu hefur væntanlega brugðið í brún að á sömu stund og starfslok Kristjáns Þórs voru kynnt var jafnframt opinberað að Kristján Þór yrði forseti bæjarstjórnar í stað Sigrúnar Bjarkar. Verður hann fyrsti bæjarstjórinn í sögu Akureyrarkaupstaðar sem jafnframt verður forseti bæjarstjórnar. Það er líklegt að Kristján Þór verði mun áhrifameiri og meira sýnilegur sem forseti bæjarstjórnar heldur en forverar hans í því embætti, t.d. Þóra Ákadóttir og Sigrún Björk, enda er hann kjörinn leiðtogi annars samstarfsflokksins. Greinilegt er með þessu að Kristján Þór ætlar að vera áfram áberandi á vettvangi bæjarmálanna, þó auðvitað með öðrum hætti sé en áður var.
Það hefur ekki mikið reynt, enn sem komið er, á meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar. Það var mitt mat strax á kosninganótt að þetta væri eina starfhæfa samstarfsmynstrið í kortunum. Sumt hefur gengið betur en annað hjá þessum meirihluta. Heilt yfir finnst mér losarabragur hafa einkennt þennan meirihluta og tel tíð bæjarstjóraskipti framundan á vegferðinni fram til næstu kosninga vorið 2010 visst áhyggjuefni. Sigrún Björk tekur við embætti bæjarstjóra með tímamæli fyrir framan sig. Það er oft eflandi til verkefna, stundum mjög uppáþrengjandi. Sumt hjá þessum meirihluta hefur verið frekar lítt traustvekjandi. Þar vísa ég fyrst og fremst til þess að hann hefur ekki náð að slípa sig vel saman og virkar sundurlaus á tíðum, bæði í skoðunum og verklagi. Sum mál verða þar ofar á baugi en önnur.
Það er kannski eðlilegt að það taki tíma að marka þessum meirihluta grunn. Það skrifast að mörgu leyti á það að aðeins tveir bæjarfulltrúar meirihlutans, fráfarandi og verðandi bæjarstjóri, höfðu setið í bæjarstjórn fyrir kosningarnar í vor. Eins og flestir bæjarbúar vita var það eitt fyrsta verkefni nýs meirihluta flokkanna að stokka upp í nefndakerfi bæjarins. Með því var nefndum fækkað og nokkrum þeirra skeytt saman. Þar komu vissir nýjir tímar fram. Jafnréttis- og fjölskyldunefnd og áfengis- og vímuvarnarnefnd, auk tómstundamálum var skeytt saman í eina nefnd, samfélags- og mannréttindaráð, og menningarmálanefnd lögð niður. Verksvið menningarmálanefndar var færð undir önnur verkefni tengd atvinnumálum og fleiru og heitir Akureyrarstofa. Þetta voru að mörgu leyti athyglisverðar breytingar sem voru kynntar í vor.
Samhliða þessu var embætti bæjarritara endurvakið og hann skipaður ásamt fjármálastjóra og starfsmannastjóra í framkvæmdastjórn bæjarins í kjölfar þess að störf sviðsstjóra voru lögð niður. Ég er einn þeirra sem hef verið svolítið efins um þessar breytingar. Ég sé ekki þörfina á að sameina þessar nefndir og þaðan af síður að leggja niður menningarmálanefnd í þeirri mynd sem hún hefur verið. Hún hefur verið að vinna mjög gott verk og mér finnst það nokkuð ankanalegt að breyta henni með þeim hætti sem blasir við. Ég tók að hluta þátt í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar á liðnu kjörtímabili og komst að því að sú nefnd tók á mörgum mikilvægum þáttum og vann gott verk. Það var sérstaklega ánægjulegt að vinna með Katrínu jafnréttisfulltrúa bæjarins í jafnréttismálunum en hún hefur þar unnið gott verk.
Margir hafa spurt sig að því seinustu vikur hver sé þörfin á því að færa jafnréttismálin inn í aðra flokka og t.d. skeyta saman áfengis- og vímuvarnarmálum við það. Ég verð að viðurkenna að ég tel þetta umhugsunarverða ákvörðun. Í raun má segja að öll verkefni nýja ráðsins heyri undir ólík svið. Að mínu mati hefði verið réttast að efla þær nefndir sem fyrir væru með því að láta þær starfa áfram með sama hætti. Mest undrast ég örlög menningarmálanefndarinnar, enda tel ég að hún eigi að vera áfram undir sömu formerkjum. Þetta er mín skoðun, sem vel hefur komið fram áður og rétt er að endurtaka á þessum vettvangi.
Sem flokksbundinn sjálfstæðismaður mun ég fylgjast með verkum þessa meirihluta af áhuga næstu 42 mánuðina, fram til kosninga vorið 2010. Þetta kjörtímabil er rétt að hefjast, en það markast nú þegar af miklum breytingum hjá Akureyrarbæ. Þeirra stærst eru auðvitað endalok bæjarstjóraferils Kristjáns Þórs Júlíussonar. Það verða einhverjir aðrir að skrifa sögu þess tíma, en ég tel að verkin og framkvæmdirnar á þessum árum tali sínu máli. Það er vonandi að þessum meirihluta gefist að vinna jafnvel og öflugt í þágu bæjarbúa allra undir forystu Sigrúnar Bjarkar og Hermanns Jóns á bæjarstjórastóli það sem eftir lifir kjörtímabilsins.
Farsæld þessa meirihluta og flokkanna sem skipa hann markast af verkunum og hvernig þessum flokkum gengur að vinna saman. Betur má ef duga skal eigi vel að fara, segi ég og skrifa.
Stefán Friðrik Stefánsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2007 kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)