Mjúk lending og allt í góðu lagi!!!

Skemmtilegt grínið í áramótaskaupinu þegar vanskapnaði (lesist: auglýsing) Orkuveitu Reykjavíkur er snúið upp í gott skop. Skopi sem skopast að þjóð vorri í gegnum gjörning sem nokkrum léttbiluðum mönnum tókst að koma í framleiðslu. Skoplegt (má lesast: sorglegt) vegna þess að skopið er því sem næst satt. Textinn er ekki ferskur í minni en skiptir það ekki máli því skilaboðin voru að við erum öll feit, heimsk og full (eða því sem næst) og að viðhorfið hjá þjóðinni væri að það væri allt í góðu lagi. Skop er auðvitað í eðli sínu ýkt og yfirgengilegt og því má ekki taka þessum staðhæfingum bókstaflega (ekki eru allir feitir, heimskir og fullir). Átt er við að doði og leti einkenni almenna umræðu á Íslandi í dag (í Íslandi í dag?). Smjörklípuaðferð fyrrverandi konungs Íslands er til dæmis lýsandi um ástandið á þjóðinni (að hún skuli virka í jafn litlu landi!) og býsna snjallt (og hugrakkt) af viðkomandi að notast við doða, áhugaleysi, skamma athyglisspönn og leti Íslendinga til að fá sínu fram.

Annað dæmi um forkastanlega heimsku er nýleg frétt úr Norðurbyggðinni (hélt fyrst að um væra ræða götuna Norðurbyggð á Akureyri en sá svo að það gat ekki passað) þar sem allt er ekki í svo góðu lagi og smá halli er á rekstri byggðarfélagsins. Smá. En það er allt í lagi því það kemur hugsanlega, kannski, mögulega, því sem næst, stórt ÁLVER (sem hugsanlega ekki stækkar um helming* ef það mögulega kemur**) og bjargar byggðarfélaginu frá atvinnuleysi, eilífu myrkri, svarta dauða og vist í helvíti*.

Þriðja og síðasta dæmið sem undirritaður langar til að draga fram í dagsljósið er yfirlýsing fjármálaráðuneytisstjóra um að allt sé í góðu lagi og mjúk lending sé framundan í efnahagslífinu. Erum við í alvöru svona heimsk að kaupa þetta bull. Efnahagslífið er að fullu þanið, viðskiptahalli er heimsmet, lántaka líka, neyslan er brjálæðisleg og skattar lækka. Launaskrið er í flestum atvinnugreinum á blússandi siglingu (nema hjá konum og útlendingum). Það er ekki allt í góðu lagi og það er heldur ekki í góðu lagi að koma fram og segja að allt sé í góðu lagi og mjúk lending sé framundan. Það þarf aðeins að skerpa á hnífum í hnífaskúffu ríkisstjórnarinnar og pússa silfurpeningana í viskubrunni fjármálaráðuneytisins því þessar staðhæfingar er yfirgengilega vitlausar. Nema að þessum staðhæfingum verði trúað. Þá þyrfti að grípa til róttækra aðgerða og bylta almenningnum.

Ef við höldum áfram á sömu leið og segjum að allt sé í góðu lagi getum við alveg eins tekið risastóra borinn á Kárahnjúkum og borað risastórt gat í Hofsjökul (staðsetning er miðlæg) og tekið öll þessi tonn af sprengiefni sem nota á í heimskar ákvarðanir næstu ára og sprengt allt draslið beina leið til Norðurbyggðar (sem væntanlega væri þegar komið til helvítis).

Með þökk og kveðju

Baldvin Esra Einarsson

“reiður ungur maður”

*kaldhæðni undirritaðs

**undirritaður ekki viss hvað þetta þýðir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband