Er Straumsvík góður staður fyrir álver?

Síðan álverð hækkaði mikið árið 2005 hefur orðið algjör viðsnúningur í áhuga erlendra fyrirtækja á álframleiðslu á Íslandi. Það er því ekki að undra að Alcan, sem á verskmiðjuna í Straumsvík, hafi að endingu tekið þá stefnu að auka framleiðslu sína á Íslandi.

Þá stóð fyrirtækið aðallega frammi fyrir tveimur kostum. Annars vegar að stækka í Straumsvík eða byggja starfsemina upp fjær byggðinni.

Með stækkun í Straumsvík fæst hámarks hagkvæmni. Höfnin og önnur aðstaða sem fyrir er nýtist að fullu fyrir aukna álframleiðslu. Ókostirnir eru hins vegar einnig til staðar. Þó Straumsvík hafi verið ágætur staður fyrir álver árið 1970 á það ekki lengur við 40 árum síðar. Sama má segja um Gufunes. Það var ágætur staður fyrir Áburðarverksmiðjuna um miðja síðustu öld en er nú afleitur staður fyrir slíka starfsemi vegna þess að svæðið hefur lokast inni í byggðinni. Sama er að gerst í Straumsvík, byggðin er komin alveg að verksmiðjunni og hún er farin að þvælast fyrir frekari þróun byggðarinnar. Stækkun myndi gera illt verra í þessum efnum og viðbúið að það væri í andstöðu við íbúana sem næst álverinu búa. Einnig er fórnarkostnaður landsins undir álver mikill og skiptir þá engu þó Alcan sjálft eigi landið.

Hinn kosturinn sem Alcan hafði var að stefna að uppbyggingu fyrir utan byggðina. Þó ekki víðsfjarri núverandi verksmiðju, þ.e. á ströndin milli Hafnafjarðar og Voga. Keilisnes var einu sinni staður þar sem átti að reisa álver. Alkan hefði getað reist þar 280 þús. tonna álver og rekið það samhliða núverandi álveri í Straumsvík. Samlegðaráhrif hefðu verið mikil enda stutt á milli verksmiðjanna (einungis 12 km). Yfirstjórn hefði verið sú sama. Álverið í Straumsvík hefði síðan verið rekið eins lengi og hentugt hefði þótt. Að lokum hefði því verið lokað, landið selt undir íbúðabyggð á stjarfræðilegu verði, og stækkað í staðinn á Keilisnesi upp í 460 þús. tonn. Ókosturinn við þessa leið er að aukalegur kostnaður felst í því að gera nýja höfn og fleira. Þessi leið hefði hins vegar verið í mun meiri sátt við íbúa Suðvesturhornsins enda álverið komið á mun betri stað en áður.

Alcan valdi fyrri kostinn. Tók með því nokkra áhættu þar sem nú getur farið svo að íbúar samþykki ekki ráðahaginn. Þeir hafni stækkuninni í atkvæaðgreiðslu. Þá verður ekki eins auðvelt að skipta yfir í plan B.

Ef íbúarnir samþykkja stækkunina hefur Alcan valið réttu leiðina, séð frá eigin hagsmunum. Ef íbúarnir hafna stækkuninni situr Alcan hins vegar í súpunni varðandi stækkun þó hægt sé samt sem áður að reka núverandi álver í áratugi ef raforkusamningar verða áfram hagstæðir.

Það verkur því nokkra furðu að fyrirtækið hafi ekki valið síðari kostinn frá byrjun. Sérstklega í ljósi þess að hingað til hafa álverseigendur lagt áherslu á að álversframkvæmdir séu í sátt við íbúa viðkomandi svæðis.

Jón Þorvaldur Heiðarsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Aðalsteinsson

Ég held að þessi atkvæðagreiðsla geti haft mikil áhrif á pólitík á Íslandi ef Hafnfirðingar velja að hafna stækkun. Það yrðu nokkuð skýr skilaboð til stjórnvalda um hvað kjósendum á höfuðborgarsvæðinu finnst almennt um stóriðjustefnuna.

Gísli

Gísli Aðalsteinsson , 8.2.2007 kl. 16:55

2 identicon

Sæll Jón Þorvaldur.

Já Straumsvík er góður staður fyrir álver.  Eins og þú segir næst hámarks hagkvæmni með stækkun í Straumsvík. 

Álverið stendur í landi sem er skipulagt sem iðnaðarhverfi og ólíklegt að það breytist.  Enda verið að byggja iðnaðarsvæðið hjá álverinu. 

Óraunhæft er að gera ráð fyrir álveri á Keilisnesi í einhvernskonar fjarbúð með Straumsvík.  Það er bara þannig. 

Ef marka má mælingar á svifryki er hægt að segja að til að fá sér freskt loft á höfuðborgarsvæðinu, er ekki vitlaust að gera það í Hafnarfirði, nálægt álverinu.  Þar sýna mælar ekki svifryk yfir viðmiðunarmörkum og hafa ekki gert.

Ef málin eru skoðuð æsingalaust og fólk kynnir sér sjálft hvernig staðið er að málum í Straumsvík varðandi umhverfismál þá samþykkja Hafnfirðingar stækkun, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir bæinn.  það eru nefnilega til umhverfismælingar sem ná aftur til blóma ársins 1968.  Eða áður en verksmiðjan hóf starfssemi.

Það er engin tilviljun að margir starfsmenn álversins kjósa að búa að með sínar fjölskyldur á Holtinu eða Völlunum.

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson

Starfsmaður Alcan

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 19:50

3 Smámynd: Hlynur Hallsson

Vonandi hafna Hafnfirðingar stækkun. Það sér hver maður að risaálbræðsla á ekki heima inní íbúðabyggð á höfuðborgarsvæði. Þetta um "hámarkshagvæmni" leiðir svo hugann að því hvort álbræðsla á Húsavík sé ekki "óhagkvæm" þvi hún á að vera svo "lítil"? Enda voru forystumenn Alcoa strax byrjaðir að tala um miklu stærri og hagkvæmari álbræðslu (eða "aluminium smelter" eins og þeir segja alltaf á sínu tungumáli). Þannig að Húsvíkingar vita á hverju þeir eiga von. Risaferlíki eða hótun um lokun. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 8.2.2007 kl. 21:16

4 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þó að "hámarkshagvæmni" sé fallegt orð þá átti ég auðvitað við "hámarkshagkvæmni"...he...he...

Hlynur Hallsson, 8.2.2007 kl. 21:18

5 identicon

Gísli minn, hvernig getur þú sagt að ef að hafnfirðingar hafni þessu, þá séu það skýr skilaboð til stjórnvalda að höfuðborgarsvæðið sé á móti stóriðju. þarna ertu að segja að hafnarfjörður sé allt höfuðborgarsvæðið sem að er sannkölluð fáviska af þinni hálfu.

kv. Jón Ingi

Jón Ingi (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband