Vaðlaheiðargöng

Eins og flestum er kunnugt hefur verið mikill áhugi á því beggja vegna Vaðlaheiðarinnar að gera göng undir heiðina. Með því móti færast Þingeyingar 16 km nær Akureyri og þurfa ekki lengur að fara hinn bratta veg um Víkurskarð. Að sama skapi færist Akureyri 16 km nær Þingeyjarsýslum og öllum náttúrperlunum þar. Með göngunum er því í raun verið að stækka Eyjafjarðarsvæðið til austurs þar sem Akureyri með sína miklu þjónustugetu er í miðjunni. Allir græða á þessari samþjöppun, bæði Eyfirðingar og Þingeyingar. Stærri markaður gerir að verkum að fýsilegra verður að reka fyrirtæki á svæðinu hvort sem það er sérhæfð verslun á Akureyri eða hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík. Ég tala nú ekki um álver á Húsavík. Með öðrum orðum batnar samkeppnisstaða svæðisins í heild.

Sveitarfélög á Eyþingssvæðinu og fleiri aðilar stofnuðu félag til að vinna að gerð Vaðlaheiðarganga. Félagið heitir Greið leið ehf og hefur það starfað ötullega að markmiði sínu síðustu misseri.

Vaðlaheiðargöng eru ekki stutt jarðgöng. Heildarlengd ganganna verður líklega 7,4 km með vegskálum. Það er lengra en nokkur önnur veggöng á Íslandi. Kostnaður við jarðgöngin er líklega rúmlega 5 milljarðar kr (rúmlega 4 milljarðar án vsk). Greið leið ehf hefur ávallt miðað við að um einkaframkvæmd verði að ræða. Þ.e. vegfarendur greiði fyrir að aka í gegnum göngin. Þær tekjur standa þó ekki undir öllum stofnkostnaðinum. Ríkið verður að aðstoða við framkvæmdina á einhvern hátt. Ein leið gæti verið að ríkistryggja lán. Það liggur þó kannski beinast við að ríkið leggi fram fjárupphæð í byrjun og láti síðan rekstrarfélagið um afganginn. Það verður því að leita á náðir skattgreiðenda á einn eða annan hátt til að göngin geti orðið að veruleika.

Í því ljósi er fróðlegt að skoða hvernig skattfé landsmanna hefur verið varið til jarðgangaframkvæmda síðustu ár. Múlagöng mörkuðu upphaf nýs tímabils í þessum efnum en fyrir þann tíma höfðu einungis fá stutt jarðgöng verið gerð á Íslandi. Framlag úr ríkissjóði hefur verið eftirfarandi (á verðlagi 2006, miðað er mið nettóframlag úr ríkissjóði þ.e. kostnað án vsk):

  • 1.850 mkr Múlagöng

  • 6.000 mkr Vestfjarðagöng

  • 1.100 mkr Hvalfjarðargöng

  • 3.500 mkr Fáskrúðsfjarðargöng

  • 940 mkr Almannaskarðsgöng

Einhverjir kunna að vera hissa á því að sjá Hvalfjarðargöng á þessum lista. Voru þau ekki algjörlega gerð á kostnað vegfarenda? Svarið er nei. Ríkið stóð straum af vegagerðinni sem var nauðsynleg til að tengja göngin og skýrir það töluna 1.100 mkr.

Undirbúningur Vaðlaheiðarganga hefur gengið vel. Nú er hins vegar komið að þeim punkti að svör þurfa að koma frá ríkisvaldinu. Vill ríkið að göngin verði gerð? Líkur eru á að göngin kosti skattgreiðendur lítið. Eitthvað í líkingu við lægstu tölurnar á ofangreindum lista. Vaðlaheiðargöng verða því með ódýrustu göngum landsins frá sjónarhóli skattgreiðenda þrátt fyrir að þau verði þau lengstu á landinu. Er það ekki góður díll? Ætti ríkið ekki að taka slíkri fjárfestingu fagnandi?

Jón Þorvaldur Heiðarsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pollurinn

Réttlætir umferðarmagnið jarðgöngin?
skrifað af Kristján Guðmundsson, January 11, 2007

Nú hljóta öryggissjónarmið og umferð að vera stærsta ástæða þess að byggja á jarðgöngin og þá undrar mann að þú skulir ekki hafa upplýsingar um traffík á þessum vegakafla og þá hlýtur manni að vera spurn, er betri fjárfesting í vaðlaheiðargöngum en í tvöföldum suðurlandsvegi sem hlýtur að vera ódýrari per ekinn km á ári?
Eða hvað?
Mér finnst alltaf jafn magnað að vera að heimta peninga fyrir eitthvað svona og vera síðan með neikvæðni gagnvart öðrum mest ekna vegi landsins. Það hefur verið staðreynd síðustu ár og áratugi að Sunnlendingar eiga þessa framkvæmd inni. Það eru ekki aðstæður fyrir jarðgangagerð sunnanlands, en umferðin er stöðug hér.

Þar með sagt myndi vil ég segja að vaðlaheiðargögn er líklegast arðbær framkvæmd, en það er líka mín skoðun að án stuðings sunnlendinga munu þau aldrei koma.

Orð í tíma töluð
skrifað af Hlynur Hallsson, January 12, 2007

Þetta er góð grein hjá þér Jón Þorvaldur og orð í tíma töluð. Ríkisstjórnin hefur skorið niður fé til vegamála um 6 milljarða á þessu kjörtímabili og ljóst að ekki verður tekin nein ákvörðun um Vaðlaheiðargöng á þessu þingi. Þessvegna verðum við að vona að VG, Samfó og Frjálslyndir taki við í vor og komi málinu á framkvæmdastig. Það þarf vissulega einnig vegabætur á Suðurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum, Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Vaðlaheiðargöng eru borðleggjandi og tilvalið að lengja Akureyrarflugvöll í leiðinni. Við skulum vinna að því. Bestu kveðjur, Hlynur

Pollurinn, 29.1.2007 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband