Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Horfum fram á veginn í málefnum Akureyrarvallar

Eitt af hitamálunum hér á Akureyri undanfarin ár er framtíð Akureyrarvallar. Eftir því sem árin hafa liðið hefur þó sú skoðun orðið æ meira ofan á að hans saga sé öll og horft skuli í aðrar áttir með nýtingu vallarsvæðisins sem er áberandi í miðbæjarmynd Akureyrar. Við öllum blasir að völlurinn er úreltur orðinn og vafamál verið hvort byggja eigi þar upp. Það hefur lengi verið mín skoðun að rétt sé að binda enda á núverandi nýtingu þessa svæðis í hjarta bæjarins og stokka það algjörlega upp.

Fyrir tæpu ári tók þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks af skarið með framtíð vallarins. Þá var ákveðið að taka svæðið undir útivistarsvæði, verslun og þjónustu ásamt íbúðabyggð. Með þessu náðist það fram að tengja saman núverandi miðbæ og verslunarsvæði á Gleráreyrum, kennt við Glerártorg. Þá stóð Framsóknarflokkur að fullu samkomulagi í þessum efnum, enda kynntu bæði Kristján Þór Júlíusson og Jakob Björnsson þessar tillögur. Síðan þá hefur Framsókn tekið u-beygju, reyndar í minnihluta.

Málefni vallarins voru rædd í sveitarstjórnarkosningunum fyrir tæpu ári. Þar var augljóst að vilji meirihluta bæjarbúa er að horfa í aðrar áttir með svæðið og leggja völlinn af. Þar var engin bylgja í þá átt að horfa til þess að endurbyggja völlinn. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur tekið á málinu með afgerandi hætti og öllum ljóst að vilji hans er að nýta svæðið með svipuðum hætti og tillögur fyrri bæjarstjórnarmeirihluta fólu í sér. Allar lykilákvarðanir hafa verið teknar í þeim efnum.

Það kemur því frekar spánskt fyrir sjónir að nú þegar að allar meginákvarðanir málsins hafa verið teknar og rétt er að grípa til framkvæmda við að endurhanna svæðið og þoka málum áfram dúkki einhver hópur fólks undir heitinu Vinir Akureyrarvallar. Virðist vera vilji þeirra og baráttuþema að byggja völlinn upp og halda honum óbreyttum í raun. Það er furðulegt að þessi hópur hafi ekki orðið áberandi í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra þegar í raun átti að fara fram þessi umræða um þetta.

Fyrir hópnum fer m.a. Hjörleifur Hallgríms, fyrrum ritstjóri og þekktur frambjóðandi í forvali framsóknarmanna hér í kjördæminu fyrir nokkrum vikum. Hann tjáði þá skoðun í viðtali við N4 í vikunni að það sé einhver fjöldastuðningur, sífellt stækkandi að hans sögn, í þessu máli við það að hætt verði við fyrri ákvarðanir og horft til þess að byggja völlinn upp. Ég leyfi mér að efast stórlega um að svo sé. Á víst að fara fram borgarafundur í Sjallanum í kvöld undir verkstjórn þessa hóps. Verður fróðlegt að sjá hversu margir mæti þar til leiks.

Ég tel þetta mál komið á það stig að ekki verði horft í baksýnisspegilinn. Það hefur verið tekin þessi ákvörðun að mínu mati og það hefur verið áberandi vilji bæjarbúa að þessi verði raunin. Enda er ekkert eftir nema að hefja framkvæmdir við uppstokkun mála. Það á að mínu mati að byggja upp aðstöðu hjá félagssvæðum KA og Þórs og horfa í þá átt að þar verði aðalleikvellir og aðstaða sem máli skiptir. Það gengur ekki að mínu mati að þessi stóri blettur í miðju bæjarins verði festur undir þennan völl og rétt að stokka upp.

Stefnt er að því að frjálsíþróttaaðstaða verði nú byggð upp á íþróttasvæði Þórs við Hamar í tengslum við Bogann og muni verða tilbúin fyrir Landsmót UMFÍ 2009. Þannig á það að vera og menn eiga að drífa það af að ganga frá öllum lausum endum þess. Í þessu máli skal horft fram á veg en ekki aftur. Einfalt mál það!

Stefán Friðrik Stefánsson


Kjalvegur eða ekki Kjalvegur?

Mál málanna hér í höfuðstað norðurlands þessa stundina er án efa spurningin um það hvort fólk styðji gerð hraðbrautar yfir Kjöl eða ekki. Ég er einn af þeim sem eru að reyna að átta mig á fyrirliggjandi upplýsingum til að geta tekið afstöðu (Öll hjálp er vel þegin). Eins og þetta blasir við mér þá er hægt að vera í eftirfarandi liðum.

Lið K: Vill hraðbraut yfir Kjöl sem styttir leiðina frá Akureyri til Reykjavíkur um 47 km og mögulega er hægt að stytta leiðina enn frekar um aðra 20 með því að laga vegi á suðurlandi. Vegurinn yfir kjöl yrði gerður þannig að hann tæki við umferð flutningabíla og mundi þannig hafa áhrif á flutningskostnað á norður- og austurlandi.

Lið A: Vill stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur með því að byggja upp og lagfæra þjóðveg 1 og ná þannig fram stórum hluta þeirrar styttingar sem hægt er að ná fram með nýjum Kjalveg. Margir í þessum sama hópi virðast líka vera hrifnir af því að endurbæta núverandi Kjalveg og leifa þar einungis umferð einkabíla og rútur með ferðamenn.

Það sem er að togast á í mér er að ég er ekki viss um að ég sé heillaður af þeirri hugmynd að hafa TIR í löngum röðum þeyttast yfir hálendið. Ég held að það muni taka talsvert sjarmann af hálendinu ef þú stendur einhverstaðar út í vegakanti með gustinn og gnýinn af trukkunum í bakinu þegar maður virðir fyrir sér víðernin.

Á hinn bóginn þá er ég ekki sannfærður um það sé hægt að ná fram þeim styttingum sem menn láta sig dreyma um að hægt sé að ná á þjóðvegi 1 og hefur þar mest um að segja landsbyggðar-pylsu-sjoppu-stefna og lobbyismi smærri staða sem ekki vilja missa traffíkina úr sínu byggðalagi.

Ég hallast því frekar að því að vera í liðinu sem styður Kjalveg einfaldlega vegna þess að ég held að þó að það sé tæknilega hægt að stytta þjóðveg 1 þá held ég að það sé pólitískt nánast ómögulegt. Menn skulu ekki vanmeta mátt íslenskra hreppapólitíkusa.

Annars held ég að þetta tengist svolítið öðru umdeildu máli á hér á Akureyri en það er spurningin um það hvort að við eigum að markaðssetja Akureyri sem rólyndis bæ eða ekki. Ég held að margir sem voru á móti Latabæjarhugmyndinni séu fylgjandi Kjalveg. Það er minnsta kosti mín tilfinning þó þetta eigi ekki við um mig.

Einn vinnufélagi minn hann Árni Óðins var á súpufundi hjá íþróttafélaginu Þór þar sem gamall akureyringur en núna bæjarfulltrúi í Kópavogi Ármann Ólafsson var að kynna það sem að Kópavogur er að gera í Íþróttamálum bæjarins. Íbúar í Kópavogi eru um 27 þúsund en tæplega 17 þúsund á Akureyri. Kópavogur er í ár að fjárfesta fyrir 1800 milljónir í íþróttamannvirkjum. Á Akureyri erum við að fjárfesta í íþróttamannvirkjum fyrir 300 milljónir og þykir flestum nóg. Árni sagði að honum hefði liðið eftir fundinn eins og við hér á Akureyri værum að verða eins og einhverskonar blanda af Kúbu og Amis þorpi. Svona einskonar undur þar sem ferðamenn gætu komið og séð hvernig hlutirnir voru gerðir í gamla daga.

Ég veit ekki hvort þetta er rétt hjá Árna en mín tilfinning er sú að bilið milli Akureyrar og Höfuðborgarsvæðisins sé að mörgu leiti að breikka og kannski þarf hraðbraut til þess að stytta þetta bil. Og það er alveg klárt að í samanburði við Höfuðborgarsvæðið er Akureyri krúttlegur, hæglætis bær og því verður ekki breytt nema við Akureyringar ákveðum að breyta því en til þess þarf róttæka hugafarsbreytingu sem ég er ekki viss um að sé á leiðinni.

Gísli Aðalsteinsson 


Er Straumsvík góður staður fyrir álver?

Síðan álverð hækkaði mikið árið 2005 hefur orðið algjör viðsnúningur í áhuga erlendra fyrirtækja á álframleiðslu á Íslandi. Það er því ekki að undra að Alcan, sem á verskmiðjuna í Straumsvík, hafi að endingu tekið þá stefnu að auka framleiðslu sína á Íslandi.

Þá stóð fyrirtækið aðallega frammi fyrir tveimur kostum. Annars vegar að stækka í Straumsvík eða byggja starfsemina upp fjær byggðinni.

Með stækkun í Straumsvík fæst hámarks hagkvæmni. Höfnin og önnur aðstaða sem fyrir er nýtist að fullu fyrir aukna álframleiðslu. Ókostirnir eru hins vegar einnig til staðar. Þó Straumsvík hafi verið ágætur staður fyrir álver árið 1970 á það ekki lengur við 40 árum síðar. Sama má segja um Gufunes. Það var ágætur staður fyrir Áburðarverksmiðjuna um miðja síðustu öld en er nú afleitur staður fyrir slíka starfsemi vegna þess að svæðið hefur lokast inni í byggðinni. Sama er að gerst í Straumsvík, byggðin er komin alveg að verksmiðjunni og hún er farin að þvælast fyrir frekari þróun byggðarinnar. Stækkun myndi gera illt verra í þessum efnum og viðbúið að það væri í andstöðu við íbúana sem næst álverinu búa. Einnig er fórnarkostnaður landsins undir álver mikill og skiptir þá engu þó Alcan sjálft eigi landið.

Hinn kosturinn sem Alcan hafði var að stefna að uppbyggingu fyrir utan byggðina. Þó ekki víðsfjarri núverandi verksmiðju, þ.e. á ströndin milli Hafnafjarðar og Voga. Keilisnes var einu sinni staður þar sem átti að reisa álver. Alkan hefði getað reist þar 280 þús. tonna álver og rekið það samhliða núverandi álveri í Straumsvík. Samlegðaráhrif hefðu verið mikil enda stutt á milli verksmiðjanna (einungis 12 km). Yfirstjórn hefði verið sú sama. Álverið í Straumsvík hefði síðan verið rekið eins lengi og hentugt hefði þótt. Að lokum hefði því verið lokað, landið selt undir íbúðabyggð á stjarfræðilegu verði, og stækkað í staðinn á Keilisnesi upp í 460 þús. tonn. Ókosturinn við þessa leið er að aukalegur kostnaður felst í því að gera nýja höfn og fleira. Þessi leið hefði hins vegar verið í mun meiri sátt við íbúa Suðvesturhornsins enda álverið komið á mun betri stað en áður.

Alcan valdi fyrri kostinn. Tók með því nokkra áhættu þar sem nú getur farið svo að íbúar samþykki ekki ráðahaginn. Þeir hafni stækkuninni í atkvæaðgreiðslu. Þá verður ekki eins auðvelt að skipta yfir í plan B.

Ef íbúarnir samþykkja stækkunina hefur Alcan valið réttu leiðina, séð frá eigin hagsmunum. Ef íbúarnir hafna stækkuninni situr Alcan hins vegar í súpunni varðandi stækkun þó hægt sé samt sem áður að reka núverandi álver í áratugi ef raforkusamningar verða áfram hagstæðir.

Það verkur því nokkra furðu að fyrirtækið hafi ekki valið síðari kostinn frá byrjun. Sérstklega í ljósi þess að hingað til hafa álverseigendur lagt áherslu á að álversframkvæmdir séu í sátt við íbúa viðkomandi svæðis.

Jón Þorvaldur Heiðarsson


Kraftur í stað kyrrstöðu eða Latibær?

Ég fór á áhugaverðan fund í vikunni þar sem var verið að kynna stofnun Akureyrarstofu. Fundurinn var vel sóttur og áhugaverður. Eins og ég skildi hlutverk Akureyrarstofu þá fannst mér það aðallega snúast um að láta menningar- og íþróttaviðburði nýtast sem aðdráttarafl fyrir ferðaiðnaðinn á Akureyri. Ég held að þetta sé góð hugmynd og vona að framkvæmd þessara mála eigi eftir að takast vel því að maður fær bara einn punkt fyrir góða hugmynd meðan maður fær 10 punkta fyrir góða framkvæmd á réttri hugmynd eins og allir vita.

Ég hafði það á tilfinningunni að einhverjir héldu að Akureyrarstofa væri einhverskonar skrifstofa með starfsmönnum sem þar ynnu. Minn skilningur er hins vegar sá að þetta sé nefnd á vegum bæjarins þ.e að það sé búið að sameina nokkrar nefndir undir einn hatt og að það hafi þótt betra að kalla nefndina Akureyrarstofu frekar en Menningar- Kynningar og Markaðsnefnd Akureyrarbæjar.

Hólmkell Amtsbókavörður var með frábært erindi þar sem hann sagði fá Slow City hreyfingunni og var í reynd að leggja til að við kynntum Akureyri fyrir ferðamönnum og markaðsettum bæinn sem rólegan bæ sem Akureyri jú er. Ég skildi hann sem svo að við þyrftum mögulega að slökkva á nokkrum auglýsingaskiltum og kannski setja upp fleiri ruslafötur til þess að uppfylla skilyrðin sem sett eru fyrir því að Akureyrarbær geti kynnt sig sem Slow City.

Svavar prestur hélt ágætis tölu og benti á að kirkjan væri sennilega mest sótta ferðamanna atractionið í bænum. Ég held reyndar að það sé Víkingurinn í göngugötunni sem hafi vinninginn. Sennilega eru þetta mest ljósmyndaða fyrirbærið á Akureyri af ferðamönnum. Það segir okkur Akureyringum kannski eitthvað að það sem valdi mestum spenningi hjá erlendum ferðamönnum sem sækja okkur heim skuli vera gömul snjáð lopapeysa í stærðinni XXXL, eða hvað. (Er þetta flúorljós sem er í krossinum ofan á kirkjunni gætum við hugsanlega þurft að taka hann niður?).

Baldvin vinstri grænn hafði greinilega talsverða trú á þessari hugmyndarfræði og sagði að ef við héldum rétt á spöðunum að þá yrði Akureyri orðinn mesti ferðamannabær landsins eftir 10-15 ár. Þá heyrði ég Friðrik V muldra fyrir aftan mig að bærinn væri búinn að vera það í 10 ár. Kannski gerum við Akureyringar okkur ekki alltaf grein fyrir því hvað við erum mikill ferðamannabær. Friðrik sem er mikill frumkvöðull hefur reyndar lengi verið félagi í Slow Food en Slow City er afsprengi þeirrar hreyfingar og gaman að sjá hvað hans hugmyndir um hvernig eigi að byggja upp ferðamannaiðnað eru smátt og smátt að ná eyrum annarra akureyringa.

Ég er þeirrar skoðunar að það geti verið sniðugt að ná til erlendra og innlendra ferðamanna með því að kynna Akureyri sem rólegan bæ, sem einskonar oasis frá stressinu í borgunum. Enda er Akureyri rólegur bær og þar af leiðandi engu logið. Hins vegar er einn galli á þessu en hann er sá að þetta concept er svolítið í andstöðu við þær hugmyndir sem við höfum verið að reyna að búa til um okkur og kannski ekki síst verið að reyna að móta sjálfsmynd okkar sjálfra bæjarbúa þannig að við séum dínamískur og kraftmikill bær og að hér séu líka hlutir að gerast. Hins vegar er alveg klárt að í dag erum við rólyndis bær og það eru fáir sem flytja í bæinn til þess að meika það heldur er fólk sem hingað flytur oftast að leita að einhverju öðru í lífinu.

Gísli Aðalsteinsson

Ungt fólk fái að kjósa

Það er fyrir löngu kominn tími til að auka réttindi og áhrif ungs fólks í samfélaginu. Einn þáttur í því er að allir 16 ára og eldri fái að kjósa sér fulltrúa í sveitarstjórnir og á Alþingi, það er aukið lýðræði. Með þessu yrði ábyrgð ungs fólks aukin og því gert kleift að taka þátt í mótun samfélagsins eins og það á réttmæta kröfu á.
Árið 1984 var almennur kosningaaldur á Íslandi lækkaður úr 20 árum í 18 ár. Nú er tími til að auka enn þátttöku ungs fólks í lýðræðinu og færa kosningaaldur í 16 ár. 16 ára einstaklingur í íslensku samfélagi er orðinn virkur þátttakandi í þjóðfélaginu, hefur lokið grunnskóla og ætti að vera tilbúinn til að taka á sig á þá ábyrgð sem felst í því að kjósa sér fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnir. Það ætti einnig að vera sjálfsagður réttur þessa unga fólks.

Frumkvæði í lýðræði

Í nágrannalöndum okkur er verið að kanna þessi mál og það væri óskandi að Íslendingar tækju frumkvæði í því að auka lýðræði og þátttöku ungs fólks í þjóðfélaginu. Kosningaréttur allra eldri en 16 ára er í athugun í Bretlandi og hefur Græniflokkurinn í Englandi og Wales sett þessa kröfu í stefnuskrá sína og það sama hafa Frjálslyndir demókratar í Bretlandi og Þjóðarflokkurinn í Skotlandi gert. Í Finnlandi hefur Miðjuflokkurinn lagt til að tilraun verði gerð á einstökum svæðum í næstu sveitastjórnarkosningum, sem verða 2008, þar sem 16 ára Finnar fengju að kjósa. Í Svíþjóð hefur Umhverfisflokkurinn haft það á stefnuskrá sinni að lækka kosningaaldur niður í 16 ár til þess að freista þess að auka þátttöku ungmenna í pólitískri umræðu. Í Noregi hefur Frjálslyndiflokkurinn sett þetta mál í stefnuskrá sína og það sama má segja um flokka á hollenska þinginu, í Kanada, Ástralíu og í Austurríki svo nokkur lönd séu nefnd.
Nú þegar hafa 16 ára ungmenni kosningarétt í löndum eins og í Brasilíu, Níkaragúa og á Kúbu. Í Króatíu, Serbíu og Svartfjallalandi hafa ungmenni á vinnumarkaði og eru orðin 16 ára einnig kosningarétt.
Norski félagsfræðingurinn Stein Ringen hefur fjallað um þátttöku ungs fólks og barna í lýðræðinu (Citizens, Families and Reform, Clarendon Press, Oxford 1997) og Torfi H. Tulinius prófessor við Háskóla Íslands hefur einnig fjallað um málið á áhugaverðann hátt.

Rök með og á móti

Helstu rökin fyrir því að 16 ára einstaklingar hljóti kosningarétt eru þau að það muni smám saman leiða til breyttra áherslna í landsmálunum þar sem kjörnir fulltrúar landsins myndu leitast við að verja hagsmuni stærri hluta þjóðarinnar. Kosningaréttur hefði þroskandi áhrif á ungt fólk og það yrði að ábyrgum þátttakendum í samfélaginu.
Rök gegn því að ungt fólk fái kosningarétt eru til dæmis þau að börn og unglingar búi ekki yfir vitsmunaþroska til að taka afstöðu í þjóðmálum eða sveitastjórnarmálum, að þau láti tilfinningar ráða fremur en dómgreindina og séu líklegri til að verða fórnarlömb áróðursmeistara. Öll þessi rök lýsa vantrausti á ungt fólk og hafa reyndar einnig verið notuð á liðnum tímum til að koma í veg fyrir að konur, eignalausir, undirokaðir kynþættir og jafnvel almenningur hljóti kosningarétt!
Krafa okkar í upphafi 21. aldarinnar hlýtur að vera sú að allir 16 ára og eldri fá kosningarétt.

Hlynur Hallsson

Bílabraut forgangsmál á Akureyri.

Það er mjög ánægjulegt að heyra að Bílaklúbbur Akureyrar ætli að koma upp myndalegri aðstöðu fyrir sína íþrótt hér í bæ. Mér skilst að hugmyndin sé að setja upp aðstöðu fyrir kappakstur en einnig einskonar æfingabraut fyrir þá sem er að taka ökupróf. Þetta er mikið þjóðþrifamál og óska ég þeim félögum í Bílaklúbbnum alls hins besta í þessari uppbyggingu. Það sem gleður mig sérstaklega og varðar þessa framkvæmd er að svo virðist sem áform bílaklúbbsins séu þau að reka þetta og fjármagna sjálfir en ég get ekki séð þessi merki í fundargerðum bæjarins né fjárlögum að sveitarfélag eða ríki mun kosta þessa aðstöðu. Mér finnst það sérstaklega jákvætt þegar að íþróttafélög geta staðið undir sínu starfi sjálf án þess að þiggja fjárframlög frá hinu opinbera.

Þá að öðru alveg óskildu máli en sem tengist þó Bílaklúbbnum. Margir sjálfstæðismenn sem ég hef talað við höfðu orð á því hversu ánægjulegt það væri að sjá hversu margir félagar í Bílaklúbbi Akureyrar skráðu sig í Sjálfstæðisflokkinn þegar prófkjör sjálfstæðismanna í norð- austurkjöræmi fór fram. Það er alltaf ánægjulegt þegar að fólk sínir áhuga á málefnum samfélagsins og skráir sig í stjórnmálaflokka. Rökstyður þetta ekki einmitt kenningu Robert Putnam um að þátttaka í félagstarfi auki félagsauð?

Gísli Aðalsteinsson 


Mjúk lending og allt í góðu lagi!!!

Skemmtilegt grínið í áramótaskaupinu þegar vanskapnaði (lesist: auglýsing) Orkuveitu Reykjavíkur er snúið upp í gott skop. Skopi sem skopast að þjóð vorri í gegnum gjörning sem nokkrum léttbiluðum mönnum tókst að koma í framleiðslu. Skoplegt (má lesast: sorglegt) vegna þess að skopið er því sem næst satt. Textinn er ekki ferskur í minni en skiptir það ekki máli því skilaboðin voru að við erum öll feit, heimsk og full (eða því sem næst) og að viðhorfið hjá þjóðinni væri að það væri allt í góðu lagi. Skop er auðvitað í eðli sínu ýkt og yfirgengilegt og því má ekki taka þessum staðhæfingum bókstaflega (ekki eru allir feitir, heimskir og fullir). Átt er við að doði og leti einkenni almenna umræðu á Íslandi í dag (í Íslandi í dag?). Smjörklípuaðferð fyrrverandi konungs Íslands er til dæmis lýsandi um ástandið á þjóðinni (að hún skuli virka í jafn litlu landi!) og býsna snjallt (og hugrakkt) af viðkomandi að notast við doða, áhugaleysi, skamma athyglisspönn og leti Íslendinga til að fá sínu fram.

Annað dæmi um forkastanlega heimsku er nýleg frétt úr Norðurbyggðinni (hélt fyrst að um væra ræða götuna Norðurbyggð á Akureyri en sá svo að það gat ekki passað) þar sem allt er ekki í svo góðu lagi og smá halli er á rekstri byggðarfélagsins. Smá. En það er allt í lagi því það kemur hugsanlega, kannski, mögulega, því sem næst, stórt ÁLVER (sem hugsanlega ekki stækkar um helming* ef það mögulega kemur**) og bjargar byggðarfélaginu frá atvinnuleysi, eilífu myrkri, svarta dauða og vist í helvíti*.

Þriðja og síðasta dæmið sem undirritaður langar til að draga fram í dagsljósið er yfirlýsing fjármálaráðuneytisstjóra um að allt sé í góðu lagi og mjúk lending sé framundan í efnahagslífinu. Erum við í alvöru svona heimsk að kaupa þetta bull. Efnahagslífið er að fullu þanið, viðskiptahalli er heimsmet, lántaka líka, neyslan er brjálæðisleg og skattar lækka. Launaskrið er í flestum atvinnugreinum á blússandi siglingu (nema hjá konum og útlendingum). Það er ekki allt í góðu lagi og það er heldur ekki í góðu lagi að koma fram og segja að allt sé í góðu lagi og mjúk lending sé framundan. Það þarf aðeins að skerpa á hnífum í hnífaskúffu ríkisstjórnarinnar og pússa silfurpeningana í viskubrunni fjármálaráðuneytisins því þessar staðhæfingar er yfirgengilega vitlausar. Nema að þessum staðhæfingum verði trúað. Þá þyrfti að grípa til róttækra aðgerða og bylta almenningnum.

Ef við höldum áfram á sömu leið og segjum að allt sé í góðu lagi getum við alveg eins tekið risastóra borinn á Kárahnjúkum og borað risastórt gat í Hofsjökul (staðsetning er miðlæg) og tekið öll þessi tonn af sprengiefni sem nota á í heimskar ákvarðanir næstu ára og sprengt allt draslið beina leið til Norðurbyggðar (sem væntanlega væri þegar komið til helvítis).

Með þökk og kveðju

Baldvin Esra Einarsson

“reiður ungur maður”

*kaldhæðni undirritaðs

**undirritaður ekki viss hvað þetta þýðir


Íslenskir vextir en evrópskur hagvöxtur

Í vikunni kom út afskaplega áhugaverð skýrsla sem er unnin af Byggðarstofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Í þessari skýrslu er lýst tilraun þessara aðila til þess að meta hagvöxt á Íslandi á tímabilinu 1998 til 2004 brotið niður á landshluta. Notast er við gömlu kjördæmaskiptinguna. Það kemur skýrt fram í skýrslunni að hagvöxturinn er mikill fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu 29% hagvöxtur á íbúa á þessu 7 ára tímabili en einnig var hann mikill á Austurlandi vegna þeirra framkvæmda sem hafa staðið yfir þar. Hagvöxtur á Norð- austurlandi var hins vegar ekki nema 11% á sama tíma eða 1,5% á ári (geometrískt meðaltal 1,11^(1/7)=1,01502026).
 
Það vakti líka athygli mína að Vestfirðir og Norðvesturland voru með neikvæðan hagvöxt á íbúa eða -6% á þessu sama tímabili. Þessi skýrsla segir okkur það sem við höfum svo sem alltaf vitað að efnahagslegur raunveruleiki er ekki sá sami alstaðar á landinu hins vegar eru stýrivextir seðlabankans einir alveg sama hvar á landinu við búum.

Þá komum við að því sem mér finnst athyglisverðast en það er hvernig þessar niðurstöður fléttast inn í núverandi umræðu um evru eða krónu. Trúir því einhver sem þetta les að það sé þörf á 23,95% vöxtum á yfirdráttarheildir til þess að halda aftur af “þenslunni” á Vestfjörðum? Þetta sama vaxtarstig dugar varla til að það hægi á hraða efnahagslífsins á höfuðborgarsvæðinu en þetta vaxtastig er klárlega tómt rugl fyrir okkur sem búum á Akureyri eða annarstaðar á landsbyggðinni. Helstu rökin fyrir því að halda í krónuna eru þau að við þurfum að vera með hærra vaxtastig á Íslandi en er að jafnaði í Evrulöndum. En staðreyndin er sú að þessi fullyrðing á eingöngu við um höfuðborgarsvæðið.

Ég er ekki alveg viss um að allir stjórnmálamenn á landsbyggðinni geri sér grein fyrir því hvað upptaka evrunnar er stórt mál einmitt fyrir landsbyggðina. Eina svæðið sem ætti að vera með krónu samkvæmt teoríunni höfuðborgarsvæðið. Krónan er hins vegar að kirkja landsbyggðina.

Nú væri gaman að vita hvaða skoðanir stjórnmálamenn á svæðinu hafa á þessu máli. Satt best að segja held ég að þeir hafi fæstir skoðað upptöku Evrunnar út frá sjónarhóli landsbyggðarinnar en það ættu þeir að sjálfsögðu að gera. Utanríkisráðherra er eini stjórnmálamaðurinn úr okkar kjördæmi sem hefur tjáð sig um þessi mál opinberlega og hún hækkaði í áliti hjá mér við það (Skal tekið fram að ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Frammsóknar, hef yfirleitt talið Sjálfstæðisflokkinn vera ill skásta kostinn). Aðrir stjórnmálamenn úr kjördæminu þegja þunnu hljóði um þetta mikilvæga landsbyggðarmál.

Gísli Aðalsteinsson 


Hvað getum við gert fyrir Háskólann á Akureyri?

Háskólinn á Akureyri var stofnaður haustið 1987 og verður hann því tuttugu ára næsta haust. Það dylst engum sem hefur puttann á púlsinum hér á Norðurlandi að skólinn hefur stuðlað að miklum samfélagslegum vexti allt frá stofnun hans. Það má því með sanni segja að forustumenn skólans hafi verið og séu dugnaðarforkar með mikla framtíðarsýn sem hefur skapað skólanum þann sess sem hann hefur í íslensku samfélagi dag.

Nú tæpum tuttugu árum eftir stofnun skólans er boðið upp á fjölbreytt nám til grunnnáms á háskólastigi og einnig hefur umtalsverð aukning orðið á námsframboði til meistaranáms. Skólinn hefur á undanförnum árum vaxið fiskur um hrygg og mun sú þróun halda áfram svo lengi sem Eyfirðingar styðja vel við bakið á honum með jafn þróttmiklum hætti og verið hefur.

Ég sem nemandi við skólann og varaformaður nemendafélagsins [FSHA] hef komist að því að allt of fáir vita af því fjölbreytta námsframboði sem skólinn býður uppá. Því miður er það ekki nóg að skólinn sé frábær með fjölbreytt námsframboð, kennararnir þeir bestu í landinu, starfsfólk skólans einstaklega viðkunnanlegt og með ríka þjónustulund og félagsandinn meðal nemenda lifandi og skemmtilegur. Af þessu framansögðu þurfa væntanlegir nemendur að fá vitneskju um.

Þess vegna er svarið í dag við spurningunni með síbreytilega svarið ‘Hvað getum við gert fyrir Háskólann á Akureyri?’. Við landsbyggðarfólk og sérstaklega Eyfirðingar þurfum að aðstoða skólann við markaðssetningu svo verðandi nemendur fái að vita af því fjölbreytta námsframboði sem skólinn býður uppá.

Ég skora hér með á; fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga að styðja við markaðssetningu skólans svo hann megi halda áfram að vaxa og eflast okkur öllum til hagsbóta.


Vaðlaheiðargöng

Eins og flestum er kunnugt hefur verið mikill áhugi á því beggja vegna Vaðlaheiðarinnar að gera göng undir heiðina. Með því móti færast Þingeyingar 16 km nær Akureyri og þurfa ekki lengur að fara hinn bratta veg um Víkurskarð. Að sama skapi færist Akureyri 16 km nær Þingeyjarsýslum og öllum náttúrperlunum þar. Með göngunum er því í raun verið að stækka Eyjafjarðarsvæðið til austurs þar sem Akureyri með sína miklu þjónustugetu er í miðjunni. Allir græða á þessari samþjöppun, bæði Eyfirðingar og Þingeyingar. Stærri markaður gerir að verkum að fýsilegra verður að reka fyrirtæki á svæðinu hvort sem það er sérhæfð verslun á Akureyri eða hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík. Ég tala nú ekki um álver á Húsavík. Með öðrum orðum batnar samkeppnisstaða svæðisins í heild.

Sveitarfélög á Eyþingssvæðinu og fleiri aðilar stofnuðu félag til að vinna að gerð Vaðlaheiðarganga. Félagið heitir Greið leið ehf og hefur það starfað ötullega að markmiði sínu síðustu misseri.

Vaðlaheiðargöng eru ekki stutt jarðgöng. Heildarlengd ganganna verður líklega 7,4 km með vegskálum. Það er lengra en nokkur önnur veggöng á Íslandi. Kostnaður við jarðgöngin er líklega rúmlega 5 milljarðar kr (rúmlega 4 milljarðar án vsk). Greið leið ehf hefur ávallt miðað við að um einkaframkvæmd verði að ræða. Þ.e. vegfarendur greiði fyrir að aka í gegnum göngin. Þær tekjur standa þó ekki undir öllum stofnkostnaðinum. Ríkið verður að aðstoða við framkvæmdina á einhvern hátt. Ein leið gæti verið að ríkistryggja lán. Það liggur þó kannski beinast við að ríkið leggi fram fjárupphæð í byrjun og láti síðan rekstrarfélagið um afganginn. Það verður því að leita á náðir skattgreiðenda á einn eða annan hátt til að göngin geti orðið að veruleika.

Í því ljósi er fróðlegt að skoða hvernig skattfé landsmanna hefur verið varið til jarðgangaframkvæmda síðustu ár. Múlagöng mörkuðu upphaf nýs tímabils í þessum efnum en fyrir þann tíma höfðu einungis fá stutt jarðgöng verið gerð á Íslandi. Framlag úr ríkissjóði hefur verið eftirfarandi (á verðlagi 2006, miðað er mið nettóframlag úr ríkissjóði þ.e. kostnað án vsk):

  • 1.850 mkr Múlagöng

  • 6.000 mkr Vestfjarðagöng

  • 1.100 mkr Hvalfjarðargöng

  • 3.500 mkr Fáskrúðsfjarðargöng

  • 940 mkr Almannaskarðsgöng

Einhverjir kunna að vera hissa á því að sjá Hvalfjarðargöng á þessum lista. Voru þau ekki algjörlega gerð á kostnað vegfarenda? Svarið er nei. Ríkið stóð straum af vegagerðinni sem var nauðsynleg til að tengja göngin og skýrir það töluna 1.100 mkr.

Undirbúningur Vaðlaheiðarganga hefur gengið vel. Nú er hins vegar komið að þeim punkti að svör þurfa að koma frá ríkisvaldinu. Vill ríkið að göngin verði gerð? Líkur eru á að göngin kosti skattgreiðendur lítið. Eitthvað í líkingu við lægstu tölurnar á ofangreindum lista. Vaðlaheiðargöng verða því með ódýrustu göngum landsins frá sjónarhóli skattgreiðenda þrátt fyrir að þau verði þau lengstu á landinu. Er það ekki góður díll? Ætti ríkið ekki að taka slíkri fjárfestingu fagnandi?

Jón Þorvaldur Heiðarsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband